Manst’ ekki eftir mér? 

Ef marka má það ritunartímatal sem ég styðst við í gegnumferð minni um leikrit Shakespeares er The Comedy of Errors fyrsta verkið sem frá honum kemur þegar leikhúsin voru opnuð á ný eftir að plágunni létti 1594. Í millitíðinni hafði Shakespeare lifað á lýríkinni, sett saman tvo vinsæla ljóðabálka, Venus and Adonis og The Rape of Lucrece, og þess sér stað í lýrískri mýktinni og mælskunni sem einkennir næstu verk, allt fram að The Merchant of Venice 1597. Líka í Villukómedíunni, innan um öllu grófgerðari einkenni ættuð úr efninu sem liggur til grundvallar, rómverskum försum  Plátusar og öðru ærslagríni.

Hér er rím notað óspart, bæði AA og ABAB, og auk stakhendunnar bregður hér fyrir fleiri bragarháttum. Ýmis mælskubrögð eru áberandi, nokkuð sem Arden-editorinn Kent Cartwright er óþreytandi að benda á og útskýra. Svo áköf er skýringagleðin að þetta stysta verk Shakespeares fyllir álíka pláss í hillunni og veigameiri verk áður en Cartwright þykir nóg sagt.

Oft er þetta ágætlega gagnlegt. Það er nefnilega ögn meira spunnið í þetta leikrit en galskapurinn einber. Kannski ekki síst hjónabandskrísa Efesushjónanna, brestirnir sem koma í ljós þegar tvíburabróðir eiginmannsins setur misskilningssirkusinn í gang. Þetta er fyrsta leikritið þar sem þroskað hjónaband er miðdepill. Verðugt framhald The Taming of the Shrew, sem er þrátt fyrir allan valdahallann nokkuð skörp greining á því hvernig farsælt hjónaband gæti virkað í raunheimum ritunartímans.

Sú athugun heldur áfram hér innan um allt farsið.

Inngangur Cartwrights fer illa af stað, með hálfgerðum vaðli um tvíeðli veruleikans, sálfarir og fleira á heimspekirófinu sem leikritið er illa í stakk búið að standa undir nema á yfirborðskenndasta hátt. Eftir að Kent nær nokkurnvegin jarðsambandi og fer að tala um plott, retórík og rætur í rómverskum försum, rómönsum og Commedia Dell’Arte er þetta fínt.

Þar kemur m.a. fram að Errors er fyrsta leikritið sem við höfum sæmilega traustar heimildir um sýningu á. Jólin 1594 var það hluti af skemmtidagskrá í staffapartíi á lögmannsstofunni Gray’s Inn. Og það vitum við vegna þess að þetta partí fór illa úr böndunum, ægilegur troðningur og læti, sem þótti ómaksins vert að skrifa um. Gaman að því. En óvíst er hvort verkið var skrifað með þessa samkomu í huga. Líklega ekki, segir Cartwright, því farsískur hápunktur þess (þar sem Antípólus frá Efesus er læstur úti heima hjá sér og þeir Drómíó fá blóðugar skammir frá samnefndum þjóni frá Sírakúsu sem gætir dyranna) útheimtir sviðsaðstæður sem varla hefur verið auðvelt að rigga upp í veislusal úti í bæ.

Það er hraði og kraftur í þessu verki. Það gerist hérumbil í rauntíma og senurnar eru ellefu, samanborið við 28 senur í þriðja leikritinu um Hinrik sjötta.

Plottið er líka þétt og vendingar kröftugar í boði plottkveikjunnar: tvö sett af eineggja tvíburum, sem voru aðskildir í æsku, eru skyndilega mætt í sömu borg. Það verður samt að segjast að farseringar sem byggja alfarið á misskilningi og mannvillum eru öllu einhæfari en ef þotueldsneyti feluleiks og lyga er bætt við, eins og Ray Cooney hefði getað bent Shakespeare á ef hann hefði verið í jólagleðinni 1594. Hér er t.d. mögulega hjákonu- og framhjáhald í gangi, en það er bara ekki nógu skammarlegt í Efesusborg til að nokkur nenni að leggja neitt á sig til að halda því leyndu. Reyndar skammar mágkona Antípólusar hann á einum stað fyrir að fara ekki laumulegar með heimsóknir sínar til hjákonunnar – verst að hún er að tala við rangann Antípólus. Hér þarf m.a.s. vænan skammt af  trú á galdra og líf í draumi til að hjálpa við að halda boltum á lofti. Engu að síður er stuð, og ríkulegir möguleikar á hlaupum, æsingi og slappstikki, aðallega í kringum barsmíðar á vesalings Drómíóunum, sem sífellt eru rukkaðir um árangur sendiferða sem hinn þrællinn var sendur í.

Auðvitað hafa allir gamanleikir með sjálfsvirðingu sinn skammt af orðaleikjum og þessháttar gríni. Þannig spaug hefur tilhneigingu til að eldast heldur illa, enda fínessur í merkingu orða eins og frostrósir á glugga. Hér eru t.d. orðaskipti Lúsíönu við mann sem hún heldur vera mág sinn, en er í rauninni tvíburabróðir hans og játar henni ást sína:

LUCIANA
What, are you mad, that you do reason so?

ANTIPHOLUS OF SYRACUSE
Not mad, but mated; how, I do not know.

3.2.53–54

Hér segir Cartwright að verið sé að spila með hvorki meira né minna en þrjár merkingar orðsins „mated“. Aðalmerkingin er víst „sigraður“ (sennilega svipað og í „skák og mát“), en þarna eru líka „gáttaður“ og að síðustu „giftur“. Sem er eina merkingin sem skilar sér í fljótu bragði í dag. Helgi þýðir eftir merkingu tvö:

LÚSÍANA
Ertu’ óður, fyrst þú þvaðrar þennan veginn?

ANTÍPÓLUS FRÁ SÝRAKÚSU
Það er ég ekki, en furðu og töfum sleginn.

Sem græðir í skýrleika það sem tapast af þríræðni.

Annað sem lifir af gegnum aldir af merkingar- og smekkbreytingum er neðanþindar- og staðalmyndagrín. Aumingja Sikileyjar-Drómíó er ofsóttur af feitu eldabuskunni sem Efesusbróðir hans er trúlofaður:

ANTIPHOLUS OF SYRACUSE
What’s her name?

DROMIO OF SYRACUSE
Nell, sir; but her name and three quarters, that’s an ell and three quarters, will not measure her from hip to hip.

ANTIPHOLUS OF SYRACUSE
Then she bears some breadth?

DROMIO OF SYRACUSE
No longer from head to foot than from hip to hip: she is spherical, like a globe; I could find out countries in her.

ANTIPHOLUS OF SYRACUSE
In what part of her body stands Ireland?

DROMIO OF SYRACUSE
Marry, in her buttocks: I found it out by the bogs.

ANTIPHOLUS OF SYRACUSE
Where Scotland?

DROMIO OF SYRACUSE
I found it by the barrenness; hard in the palm of the hand.

3.2.109–124

Burtséð frá gríninu þá er ástand Efesushjónanna áhugaverðasta efnið hér. Kannski sérstaklega í senum þar sem Adriana kvartar yfir útstáelsi eiginmannsins og hvernig henni finnst lífi sínu hafa verið eytt til einskis:

His company must do his minions grace,
Whilst I at home starve for a merry look.
Hath homely age the alluring beauty took
From my poor cheek? then he hath wasted it:
Are my discourses dull? barren my wit?
If voluble and sharp discourse be marr’d,
Unkindness blunts it more than marble hard:
Do their gay vestments his affections bait?
That’s not my fault: he’s master of my state:
What ruins are in me that can be found,
By him not ruin’d? then is he the ground
Of my defeatures. My decayed fair
A sunny look of his would soon repair
But, too unruly deer, he breaks the pale
And feeds from home; poor I am but his stale.

2.1.86–100

Kannski ekkert stórkostlegur skáldskapur, og fráleitt einsdæmi að hugsanir á borð við þessar séu orðaðar í skáldskap um hjónabandsraunir. En samt, það er eitthvað makalaust að einhver – karl – hafi getað horft á málin frá þessum sjónarhóli og miðlað tilfinningunni svona skýrt og raunsæislega í lok sextándu aldar, og það í miðjum skrípaleik af rómverskum rótum.

Það er líka svolítið skemmtilegt að hin langreynda Adríana er talsvert miklu meira efins um að sambandi og valdajafnvægi karla og kvenna sé rétt skipað heldur en hin hálfpipraða Lúsíana sem er málpípa feðraveldisins í samskiptum þeirra systra.

LUCIANA
Why, headstrong liberty is lash’d with woe.
There’s nothing situate under heaven’s eye
But hath his bound, in earth, in sea, in sky:
The beasts, the fishes, and the winged fowls,
Are their males’ subjects and at their controls:
Men, more divine, the masters of all these,
Lords of the wide world and wild watery seas,
Indued with intellectual sense and souls,
Of more preeminence than fish and fowls,
Are masters to their females, and their lords:
Then let your will attend on their accords.

ADRIANA
This servitude makes you to keep unwed.

LUCIANA
Not this, but troubles of the marriage-bed.

ADRIANA
But, were you wedded, you would bear some sway.

LUCIANA
Ere I learn love, I’ll practise to obey.

ADRIANA
How if your husband start some other where?

LUCIANA
Till he come home again, I would forbear.

2.1.15–31

Þó svo Shakespeare fari með himinskautum í skáldlegu orðfæri og lýrískri málsnilld þessi árin er hann alltaf augljóslega maður í veröldinni með augu og eyru opin. Hann hefur t.d. frétt af því sama og íslenskir kollegar hans í rithöfundastétt, að norðausturhorn Skandinavíu sé mikið galdrabæli:

Sure, these are but imaginary wiles
And Lapland sorcerers inhabit here.

4.3.10–11

Það er semsagt minnst jafnoft á Ísland og Lappland í verkum skáldsins.

Ég hef séð Comedy of Errors tvisvar á sviði. Annarsvegar í London, en man hvorki sýninguna (utan það að hún var allt í lagi) né hvaðan hún var ættuð, sennilega samt Royal Shakespeare Company. Og svo skemmtilega flippaða versjón á frönsku í því merka leikhúsi Peters Brook, Les Bouffes du Nord í París. Ekki í hans stjórn reyndar. Sviðsmyndin voru tvö farandnáðhús úr plasti eins og sjást gjarnan á útihátíðum og tvær bjórdælur voru á sviðinu, sem allar persónurnar sóttu í í hvert sinn sem þær áttu leið framhjá. Bráðfyndið sjó.

Í árdaga sá ég svo tvær skjáútgáfur: BBC-útgáfuna frá 1983, sem er einkum minnistæð fyrir að skarta sjálfum Roger Daltrey í hlutverkum Drómíós, og svo rómaða og músíkalíseraða útfærslu Trevors Nunn frá 1978 með Judi Dench í hlutverki Adríönu.

Að þessu sinni horfði ég á íðilhressa uppfærslu ameríska sirkusleikhússins The Flying Karamazov Brothers frá 1987 sem finna má í heild sinni á veraldarvefnum. Frjálsleg en ekki óhóflega, og algerlega sprúðlandi sýning með engum gamansteinum óvelt við. Það fer ekki mikið fyrir alvörunni sem leynist í textanum, hvað þá hinum heimspekilegu djúpálum sem Kent Cartwright segir að séu þarna. En hva, þetta er stuð. Þetta á að vera stuð.

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast. 

Textinn