Í hverju ertu? – Ásta Björk

Mars

Forðum varð ég ánægð
þegar marsmánuður læddist nær.
Oft kom hann óvænt
með vinkonu sinni,
sólinni,
og spurði hljóðlega:
Má ég koma inn?

En undanfarin ár
hefur hann ekki verið velkominn
og hversu vel sem ég hef læst hurðinni;
sett slagbrand fyrir dyrnar
eða dregið fyrir
þá finnur hann sér alltaf leið inn.

Nú hefur hann með sér aðra vinkonu,
sorgina.

Það er meira hvað hann er gráðugur í vinkonur,
hugsa ég
þegar ég reyni að verja hús mitt og líf
ágangi hans.

En hann er fleygur
og áður en ég veit af
hefur hann komið sér vel fyrir
í gluggakistunni.

Vinkonan,
sorgin,
tekur mig strax tali
og segist vilja eiga með mér stund.

Og stundin sem við eigum
ber okkur til Snæfjallastrandar
þar sem haf og himinn
renna saman
í undarlegum vængjuðum bláma
sem færa þig til mín á ströndina
þar sem við sitjum til morguns.

Eða þar til sólin
sýnir þér leiðina
til baka
yfir fjöllin
til hins frjálsa lands
þar sem engir eldar brenna
og engin stríð eru háð.

Ég er móðirin
sem býr í fjöllunum,
hafinu
og himinblámanum.
Sorgin ber mig aftur heim
yfir hæðir og grænar byggðir.

Þú finnur leiðina
fram á veginn,
vittu til,
segir vorið
um leið og það tyllir fingri á varir mér.
Ég heyri endalaus fótatök lífs og gleði þeirra
sem hafa fylgt mér
í gegnum ferðina með sorginni,
verið hús mitt og skjól.

Áður en ég veit af
hefur sólin
hafið göngu sína
í líf mitt á ný.
Mars er liðinn hjá
og handan vorsins
er sumar
með löngum stráum lífshamingjunnar.

Hamingjunnar sem gaf mér þig
í upphafi
þegar allt var framundan.


Úr bókinni Í hverju ertu. Meiri upplýsingar má nálgast á feisbúkk síðu bókarinnar https://www.facebook.com/ihverjuertu/.