Hvað er gagnrýni?

Gagnrýni, í grunninn, hefur það að markmiði að gera úttekt á höfundarverki — ræða efnismál þess, boðskap, stíl o.fl. Oftar en ekki spilar álit gagnrýnanda, tilfinningar hans í garð verksins og reynsluheimur hans inn í. Að því sögðu kemur ekki á óvart að engar tvær gagnrýnir séu alveg eins, þær geta jafnvel verið svo frábrugðnar að lesandi spyrji sig hvort verið sé að ræða eina og sömu bókina. Þannig leið mér í það minnsta þegar ég las gagnrýni kollega míns á Starafugli.

Gagnrýni mín á Þrettán ástæður, skrif sem ég var afar stoltur af og þóttist viss um að gæfu rétta mynd af bókinni framan af, var gagnrýnd ásamt bókinni og ég átti erfitt með að finnast ekki eins og ég og mitt siðgæði væru til umræðu samhliða siðgæði höfundar. Gagnrýni mín var óvenjuleg, í það minnsta í eigin huga, ekki síst því að ég beraði mig og mínar tilfinningar um bókina — á hvaða hátt hún snerti mig og hafði áhrif á það hvernig ég hugsaði um samskipti mín við annað fólk — og gat því ómögulega tekið gagnrýni og samlíkingum þessarar bókar, sem ég studdi heilshugar opinberlega, við Mein Kampf öðruvísi en persónulega.

Eins og ég skil — eða kýs að skilja — gagnrýni Ásgeirs er hann mér ekki ósammála um gæði skrifanna eða leikni höfundar. Hann er að vísu líklega ekki jafn hrifinn af höfundinum og ég, það er stigsmunur á álitum okkar (þ.e. ég lít skrifin og höfundinn líklega bjartari augum en hann) en hann segir hvergi að skrifin séu léleg. Hann nefnir að eitthvað við stílinn fari í taugarnar á honum en hann getur ekki bent á hvað það sé — það gildir einu, álitamál eru mér ekki hugleikin þegar lítur að gagnrýni hans á verkinu og öllum sem það elska.

Hann tekur einnig syrpu um meinta skekkju í málfrelsisumræðunni. Kúgun þess sem „er ekki nógu gott“ jafngildir ekki því að setja hið góða í sviðsljósið. Meira hef ég ekki um það að segja.

Svo ég víki mér loksins að bókinni þá er ábyrgðinni ekki dreift jafnt. Bókin er vel skrifuð, svo mikið eru allir hlutaðeigandi sammála um, málið snýst um það hvort að bókin sé raunhæf eður ei. Fegrar hún eða brenglar mynd fólks af sjálfsvígum og þeim sem þau fremja? Nei, í þessu tilviki er það ekki þunglynd stúlka sem vill hjálp eða athygli. Þetta er ung stúlka, sem eins og sagan útskýrir með hverri og einni ástæðu, reynir að halda áfram að lifa og skilja allt sem hefur hent hana í fortíðinni en henni virðist það ómögulegt. Þess vegna eru þau valin sem ástæðurnar, öll brugðust þau Hönnu Baker og eiga því öll skilið að vita það. Það eru atvik í bókinni, sem dæmi má nefna þegar Clay kemur að húsi ljósmyndarans og er boðinn steinn til að kasta í gegnum rúðu á svefnherbergi drengsins. Hann tekur ekki við steininum í bókinni, hann gerist ekki dómari þessa drengs, ólíkt öðrum sem þegar hafa hlustað á kassetturnar. Hann dæmir þau en telur sig ekki vera yfir þau hafinn, enda sjálfur á kassettunum. Ég er ósammála því að móralskar bækur, óhóflegar eður ei — hver dæmir um það hvenær bók er orðin óhóflega mórölsk? — séu vondar. Svo dæmi sé tekið var bókinni Kötu, sem skrifuð var af Steinari Braga, tekið afar vel þegar hún kom út. Afar fáir þora að segja að sú bók sé ekki mórölsk, jafnvel óhóflega svo. Þó er hún gríðarlega góð, hún tekur samfélagsmein — ofbeldi gegn konum — og setur það kyrfilega í sviðsljósið. Að sama skapi tekur Þrettán ástæður sjálfsvíg, einelti og nauðganir fyrir. Ásgeir segir eitthvað á þá leið að vondar bækur geti leitt til góðs ef þær eru ræddar af viti. Bókin opnar á þá umræðu. Ég ætla ekki að reyna að halda því fram að bókin sé gallalaus, að útlistun hennar sé fullkomin; ég mun hinsvegar óhikað impra á því að sum sjálfsvíg, ef ekki þónokkur, megi rekja til vanlíðunar og þunglyndis vegna samfélagslegra aðstæðna.

Aftur að ábyrgðinni. Ég er Ásgeiri fyllilega sammála að smásyndir koma fyrir á kassettunum, sem og alvarlegri glæpir eins og nauðganir, en þetta er atburðarás og eitt leiðir af öðru. Öll bera þau sinn skerf af ábyrgð á því hvar hún endar, ekki síst hún sjálf. Hver lesandi mun síðan dreifa ábyrgðinni á milli ástæðnanna, sumum þykir eitt verra en annað og líklega verða menn ósammála um ábyrgð aðilanna að einum undanskildum, nauðgarinn verður ávallt verstur — rétt eins og í samfélaginu. Hversu margir ætli heyri af sjálfsvígi og hugsi aldrei með sér að þau hafi eitthvað með þá ákvörðun að gera? Það er þeirra að dæma sig eftir að þau heyra eigin kassettu, það er ekki annarra. Vitaskuld, verandi unglingar, taka þau því sem svo að þau eigi að dæma alla aðra og reyna að varpa ábyrgðinni annað.

Þegar ég las bókina og horfði á þættina ræddi ég í löngum, þreytandi ræðum um áhrif þeirra/hennar á mig og þá samkennd sem ég fann streyma frá mér við lesturinn/áhorfið; nauðsynleg tilfinning fyrir þann sem stundar sjálfsskoðun að miklu leyti og efast í sífellu um það hvort hann sé í raun góð manneskja eða hvort honum hafi einungis tekist að telja sér trú um það. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að vitaskuld getur og hefur bókin og þættirnir „triggerað“ fólk um allan heim, eftirlifendur sjálfsvígstilrauna og kynferðisofbeldis sérstaklega. Talsmenn gegn þáttunum, bókinni og jákvæðri umræðu í hennar garð eru á hverju horni, að því er virðist. Ég veigra mér við því að segja að þeir hafi ekkert til síns máls, enda er ég ekki meðvitaður um áhrif hvoru tveggja, bókarinnar og þáttanna, að fullu — þ.e.a.s. utan við þau áhrif sem ég finn innra með sjálfum mér. Þó er hægt að finna fólk sem mælir með því að aðrir — þeir sem ekki upplifa sjálfsvígshugsanir, hafa upplifað kynferðisofbeldi eða finnast þættirnir/bókin vera að „triggera“ sig. — horfi á þættina. Ein greinanna sem ég las var birt á Psychology Today, ég hef ekki hugmynd um það hvort sú staðreynd veiti henni trúverðugleika. Þar fjallar kona sem upplifað hefur þunglyndi það að þættirnir gefi rétta, ef ekki frekar beinskeytta, mynd af þunglyndi og sumum ummerkjum þess. Vitaskuld er erfiðara að sjá þau, með augum Clay, í bók en ég tel það mögulegt.

Ég hef þegar skrifað um bókina í löngu máli. Í raun hefur mér verið tjáð að þessi pistill sé algjörlega óþarfur, gagnrýni Ásgeirs lýsi andstæðu sjónarmiði og hafi ekkert um gagnrýni mína né persónu að segja. Ég er því ósammála, eins og ég hef tjáð hér fyrir ofan. Gagnrýni samanstendur af túlkunum, athugunum og athugasemdum Hún er, að vissu marki, persónuleg; sum meira en önnur. Þessi gagnrýni var mér gríðarlega persónuleg, enda bókin áhrifavaldur í lífi mínu. Það er því virkilega særandi að heyra að slíkur áhrifavaldur sé sorp. Ég ætti kannski ekki að taka þessu persónulega, en við ráðum ekki hvernig við tökum hlutunum. Ásgeiri var kannski ætlað að hata þessa bók, rétt eins og mér að elska hana.

Við mótumst öll af reynslum okkar og upplifunum. Hvort sem jákvæðar eða neikvæðar tilfinningar bærast við lestur bókarinnar eða áhorf þáttanna tel ég að reynslan muni hafa áhrif; hún hvetur til umræðna, vangaveltna og átaka í samfélaginu, að því marki telst bókin til klassíkinnar, allt sem ómar um kosmósinn í hneykslunarandköfum eða gleðihrópum á rétt til að kallast menningarverðmæti. Ég impra á orðum mínum, horfðu, lestu, elskaðu, hataðu, allt nema sinnuleysi er liðið. Sinnuleysi hefur aldrei leitt til neins góðs.