Richard III einsog William Blake sá hann fyrir sér.

Gömul svín valda

Blind sight, dead life, poor mortal living ghost,
Woe’s scene, world’s shame, grave’s due by life usurp’d,
Brief abstract and record of tedious days,
Rest thy unrest on England’s lawful earth,
Unlawfully made drunk with innocents’ blood!

4.4.30–34

Sturluð staðreynd: Tólf ára skjaldsveinn í orrustunni á Bosworth-völlum hefði verið níræður árið 1573. Það er semsagt tæknilega mögulegt að níu ára gamall Shakespeare hafi heyrt sögur af falli Ríkarðs Plantagenet frá fyrstu hendi. Ákaflega ósennilegt auðvitað. En samt. Þetta er tímaramminn.

Eins mætti hugsa sér að meðal áhorfenda á frumsýningunni (1594 eða þar um bil) hafi verið öldungar sem áttu afa sem börðust þar. Og hver veit – jafnvel barnabarn sir James Tyrrel þess sem líklega drap prinsana ungu í Lundúnaturni 1483.

Það er vel hægt að týna sér í samanburði heimilda, sagnfræði og skáldskapar við lestur Ríkarðs þriðja. Það er meira að segja heilt félag helgað því að endurreisa æru hans sem félagsmenn telja hafa verið ómaklega sverta af áróðursmeisturum Tudor-ættarinnar, en þó allrahelst af því að fyrsta óumdeilda meistaraverk Shakespeares skuli vera eins og það er.

Þó við tökum „sannleikann“ út fyrir sviga er stórfróðlegt að grúska í hvar Shakespeare fylgir heimildum sínum, næstum orðrétt og hvar hann víkur frá, einfaldar, skerpir, þjappar saman og getur sér til um hugarástand og drifkrafta. Látum tvö dæmi nægja um sérkennilegheit sem eiga sér óvænta stoð í raunveruleikanum.

Morðingjar Clarence drekkja honum í vínámu. Í raunveruleikanum var bróðir þeirra Ríkarðs og Játvarðs IV ekki myrtur heldur tekinn af lífi eftir réttarhöld þar sem hann var fundinn sekur um landráð. Hann fékk að velja sér aftökuaðferð sjálfur og kaus að láta drekkja sér í víni.

Eitt af furðulegum smáatriðum leikritsins er beiðni Ríkarðs um að fá að smakka jarðarber úr garði biskupsins af Ely í upphafi fundar þar sem hann lætur seinna taka Hastings af lífi fyrir glórulausar sakir. Þetta ku hafa verið nákvæmlega svona. Kannski einmitt svona díteill sem engum hefði hugkvæmst að bæta við, ekki einu sinni snillingi.

Sem dæmi um Shakespeare víðs fjarri sögulegum sannleika skulum við nefna senuna makalausu þar sem Ríkarður reynir að fá Elísabetu Wydeville, ekkju bróður hans, til að gefa sér Elísabetu dóttur hennar, systur prinsanna sem hann lét myrða nokkrum atriðum fyrr. Hið sanna er að bæði var ekkjudrottningin mjög áfram um þennan ráðahag, og svo var prinsessan unga meira en til, og stóð meira að segja mjög líklega í kynferðissambandi við Ríkarð meðan Anna kona hans lá fyrir dauðanum. Mögulega hefur hann ekki verið eins slæmur í bakinu og Shakespeare hélt.

Ég var ungur þegar ég heyrði fyrst minnst á Ríkarð. Ég var eitthvað að dútla heima og vinkonur mömmu voru í kaffispjalli inni í eldhúsinu. Og það sauð á hneykslunarhellunni. Ástæðan: leiklistarfrömuðurinn og Shakespeareunnandinn Einar Þorbergsson hafði lánað syni einnar konunnar þetta svaðalega morð- og síkópataleikrit, en drengurinn hafði komið sér upp talsverðum leiklistaráhuga. Þetta þótti ekki par viðeigandi uppátæki þarna við eldhúsborðið.

Þetta var auðvitað frekar spennandi, en ekki las ég nú Ríkarð sjálfur fyrr en sennilega þegar ég var kominn í Háskólann og sat eitt frekar andlaust Shakespearenámskeið. Skömmu eftir það fengum við Hugleikarar Jón St. Kristjánsson til að halda námskeið þar sem við unnum með texta Shakespeares til að búa okkur undir málæðisleikritið Fáfnismenn eftir allt önnur skáld. Þar vann ég með upphafsræðuna frægu og við Vilborg Valgarðsdóttir glímdum við senuna þar sem Ríkarður falar hönd bróðurdóttur sinnar. Gaman.

Ég hef líka séð slatta af Ríkörðum. Flesta á tjaldi eða skjá en þó tvo á sviði. Um annan þeirra skrifaði ég minn fyrsta leikdóm um atvinnuleiksýningu og hinn er með betri Shakespearesýningum sem ég hef séð, uppfærsla Tomasar Ostermeier í Schaubühne í Berlín með óviðjafnanlegan Lars Eidinger í titilrullunni. Mér finnst Olivier aðeins minna frábær en mörgum og að sama skapi Ian McKellen og sú mynd öll snjallari en oft er sagt að hún sé. Lokakafli hinnar heildarhugsuðu Rósastríðaseríu Jane Howell fyrir BBC með Ron Cook sem Ríkarð er nokkuð flott (og óstytt, sem er afar fátítt, þetta er fjórða lengsta leikritið) og nýlega fannst mér Ralph Fiennes fjári góður í beinni í Bíó Paradís.

 

Að þessu sinni horfði ég annarsvegar á „Looking for Richard“, sérkennilega en áhugaverða heimildarmynd um vinnu Al Pacino og félaga hans með verkið, og svo gamla og illa farna upptöku af sviðsuppfærslu English Shakespeare Company með Andrew Jarvis í titilrullunni. Kröftug og „teatrölsk“ sýning sem gaman var að horfa á þrátt fyrir VHS-tjónin sem setja svip sinn á „eintakið“ sem ég fann á Youtube. Það er skemmtilegur Kraybræðra-fílingur yfir hinum ýmsu morðingjum og undirtyllum á borð við Catesby og Radcliffe, en Ríkarður og Buckingham eru eins og klipptir út úr pólitík nútímans. Ógeðslegt þjóðfélag. Allt gengur þetta upp og hefur greinilega verið mögnuð stund í leikhúsinu.

Ég ákvað líka, þegar leikritið var lesið og þessi grein að mestu skrifuð,  að kíkja aðeins á Ríkarðs III hlutann af Rósastríðasýningu Peters Hall og John Barton frá 1965. Það er skemmst frá því að segja að það er núna mín eftirlætisversjón af þessu magnaða verki. Ian Holm er hreint stórkostlegur, leyfir Ríkarði að vera næstum jafn góður leikari og hann er sjálfur, og öll lögn og hugsun snilldarleg, skörp og „rétt“. Dæmi: Ég hef aldrei séð, hvorki fyrr né síðar, séð jafn brilljant statusvinnu milli Ríkarðs og Elísabetar drottningar. Hún er oftast túlkuð sem einhverskonar fórnarlamb frá upphafi, þegar rétt er (bæði sögulega og í samhengi textans) að sjá hana sem allt að því jafnoka Ríkarðs í valdabrölti og kaldhæðinni pólitískri ósvífni. Susan Engel gerir þetta glæsilega. Og allir sem hafa efasemdir um að bónorðssenan fræga yfir líki Hinriks VI virki ættu að horfa á Holm og Janet Suzman. Já og Peggy Ashcroft sem Margrét. Hrollur.

En nú var semsagt komið að því að lesa Ríkarð III aftur frá orði til orðs, ásamt með fræðum og formálsorðum. James R. Siemon heitir amerískur fræðingur sem hefur veg og vanda af síðustu umferð Arden-útgáfunnar. Að vanda er hér gott yfirlit yfir túlkunarsöguna.

Skemmtilegt hvernig Siemon heldur til haga áhrifum frægra túlkenda og endurskrifenda á meðferð verksins í dag og í frægum bíómyndum. Það eru t.d. enn glefsur af átjándualdarversjón Colley Cibber í frægri bíómyndagerð Laurence Olivier, en sú gerð verksins nánast einokaði sviðið í heila öld.

Hans helsta áhugamál er samt hið sögulega samhengi leikritsins, bæði hvernig verkið talar við tíðaranda ritunartímans og hvað það sækir í heimildirnar og vinnur úr þeim. Hann hefur minna að segja um það sem kalla má „verkið sjálft“, strúktúr þess, myndmál eða persónusköpun.

Hér er margt fróðlegt, m.a. um eitt af höfuðsérkennum verksins, bölbænir og kveinstafi kvennanna sem brjótast út á nokkrum stöðum. Siemon bendir á að bölbænir um þjóðhöfðingja voru ólöglegar í Englandi undir lok sextándu aldar en á hinn bóginn hafi konur oft sloppið undan þungum armi laganna vegna þess að þær báru takmarkaða ábyrgð á orðum sínum og gjörðum. Það hefur allavega verið kitlandi að heyra í Margréti gömlu ryðja þessum spádómi og formælingum yfir Ríkarð sem skömmu síðar er orðinn kóngur:

GLOUCESTER

Have done thy charm, thou hateful wither’d hag!

QUEEN MARGARET

And leave out thee? stay, dog, for thou shalt hear me.
If heaven have any grievous plague in store
Exceeding those that I can wish upon thee,
O, let them keep it till thy sins be ripe,
And then hurl down their indignation
On thee, the troubler of the poor world’s peace!
The worm of conscience still begnaw thy soul!
Thy friends suspect for traitors while thou livest,
And take deep traitors for thy dearest friends!
No sleep close up that deadly eye of thine,
Unless it be whilst some tormenting dream
Affrights thee with a hell of ugly devils!
Thou elvish-mark’d, abortive, rooting hog!
Thou that wast seal’d in thy nativity
The slave of nature and the son of hell!
Thou slander of thy mother’s heavy womb!
Thou loathed issue of thy father’s loins!

1.3.214–231

Siemon gefur líka yfirlit yfir hvaða lyndiseinkunnir og líkamleg sérkenni Shakespeare sækir í hvaða „heimildir“, því allt eru þetta nú hálfgerð áróðursrit – sigurvegarar að semja söguna. Siemon dvelur nokkuð við falska auðmýkt og uppgerðarguðhræðslu Ríkarðs og virðist telja áherslu á hana vera stærsta framlag Shakespeares til þessarar víðfrægu (og kannski nokkuð ósanngjörnu) mannlýsingar.

Það er líka rétt. Ríkarður er djarftækur til guðræknisgervisins. Mest áberandi í makalausri senu 3.7. þar sem hann sviðsetur dásamlega ótrúverðugt leikrit með sjálfan sig sem hálfgerðan trúareinsetumann.

Annarsstaðar birtast frómheitin frekar í einhverskonar Reductio ad absurdum röksemdum þar sem illvirkjum er gefið trúarlegt innihald:

LADY ANNE

Dost grant me, hedgehog? then, God grant me too
Thou mayst be damned for that wicked deed!
O, he was gentle, mild, and virtuous!

GLOUCESTER

The fitter for the King of heaven, that hath him.

LADY ANNE

He is in heaven, where thou shalt never come.

GLOUCESTER

Let him thank me, that holp to send him thither;

For he was fitter for that place than earth.

1.2.104–110

Og talandi um Önnu. Mér finnst eins og fram hefur komið lítið að græða á þríleiknum um Hinrik sjötta til að auka skilning á persónunni Ríkarði í þessu hans eigins leikriti. Þess má geta að Siemon er mér sammála um þetta. Hins vegar ættu allar leikkonur sem þurfa að láta Önnu ganga upp í þessu ótrúlega bónorðsatriði að lesa sig í gegnum 2 og 3 og velta fyrir sér föður hennar, Warwick kóngagerðamanni, og hans ótrúlegu lagni og vilja til að velja sér málstað eftir vindi og berjast fyrir honum af óviðjafnanlegri fimi og óbilandi sannfæringu. Gott fyrir áhorfendur að hugsa þetta líka. Grunnvitneskja um atburðarás Rósastríðanna, helstu leikmenn, tengsl þeirra og ætterni, er auðvitað mjög gagnleg, enda verkin skrifuð fyrir fólk með svoleiðis í blóðinu.

Aðallega verður það samt að standa á eigin fótum sem dramatískur skáldskapur. Og gerir það svo sannarlega. Þetta er stórkostlegt leikrit. Nær bæði að vera beinskeytt og margrætt. Afdráttarlaust en þó opið í alla túlkunarenda.

Skoðum eitt lítið dæmi. Í 3.5. hitta Ríkarður og Buckingham borgarstjórann í London og segja honum frá aftöku Hastings, sem fram fór í atriðinu á undan, í skyndingu og skjóli nætur. Allt er mjög fljótandi hér um miðbik verksins hvað varðar lögmæti og valdníðslu og á þessum landamærum stíga Ríkarður og hans hægri hönd sinn „Danse Macabre“. Borgarstjórinn er frekar einfaldur, eins og þeir gjarnan eru hjá Shakespeare, en er þó með einhverjar efasemdir um þetta nýafstaðna pólitíska dráp. Eftir smá orðakipti kemur þetta:

GLOUCESTER

Yet had not we determined he should die,
Until your lordship came to see his death;
Which now the loving haste of these our friends,
Somewhat against our meaning, have prevented:
Because, my lord, we would have had you heard
The traitor speak, and timorously confess
The manner and the purpose of his treason;
That you might well have signified the same
Unto the citizens, who haply may
Misconstrue us in him and wail his death.

MAYOR

But, my good lord, your grace’s word shall serve,
As well as I had seen and heard him speak
And doubt you not, right noble princes both,
But I’ll acquaint our duteous citizens
With all your just proceedings in this case.

(3.5.52–66)

Við áhorfendur sjáum auðvitað í gegnum lygar Ríkarðs. Vitum betur, enda vorum við vitni að „jarðarberjasenunni“ frægu. En hvernig ber að túlka orð borgarstjórans? Það er hægt að fara margar leiðir með þennan stutta texta:

  • a) Heimska – borgarstjórinn kaupir kjaftæði Ríkarðs. Það er kannski bókstaflega leiðin.
  • b) Hræðsla – borgarstjórinn sér í gegnum lygavefinn en áttar sig á að þessir menn eru til alls vísir og hann ekki bógur til að standa gegn þeim
  • c) Meðsekt – borgarstjórinn áttar sig og ákveður að ganga inn í leikinn. Þykjast trúa þeim, þannig þó að bæði við og þeir áttum okkur á hvar í lið hann skipar sér.
  • d) Illska – borgarstjórinn nýtur þess að ganga til liðs við þá kumpána

Brilljant.

Allt sem var næstum frábært í þríleiknum um Hinrik VI er hér orðið þrautþjálfað og komið upp um „level“. Skoðum bara hvernig við (og persónur verksins) fréttum af konungdómi Ríkarðs. Móðir prinsanna, amma þeirra og eiginkona Ríkarðs æskja inngöngu í Lundúnaturn. Og þetta gerist:

BRAKENBURY

Right well, dear madam. By your patience,
I may not suffer you to visit them;
The king hath straitly charged the contrary.

QUEEN ELIZABETH

The king! why, who’s that?

BRAKENBURY

I cry you mercy: I mean the lord protector.

QUEEN ELIZABETH

The Lord protect him from that kingly title!
Hath he set bounds betwixt their love and me?
I am their mother; who should keep me from them?

DUCHESS OF YORK

I am their fathers mother; I will see them.

LADY ANNE

Their aunt I am in law, in love their mother:
Then bring me to their sights; I’ll bear thy blame
And take thy office from thee, on my peril.

BRAKENBURY

No, madam, no; I may not leave it so:
I am bound by oath, and therefore pardon me.

Exit

Enter LORD STANLEY

LORD STANLEY

Let me but meet you, ladies, one hour hence,
And I’ll salute your grace of York as mother,
And reverend looker on, of two fair queens.

To LADY ANNE

Come, madam, you must straight to Westminster,
There to be crowned Richard’s royal queen.

4.1.16–34

Var ég búinn að segja brilljant?

Með Ríkarði III er Shakespeare óumdeilanlega kominn í meistaradeild sem segja má að hann spili einn í.

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast. 

Textinn.