Tannhjól gnístast
saman, þjöppuð,
tönn fyrir tönn.
Jaðrar drauma
eru að baki;
skipsflök í sandi.
Skuldum vafin
svíf ég gegnum hliðið, hlekkjuð
ung bakaramey.
Negldur á krossi
hlær gamall smiður
og gefur mér auga
fyrir auga.
Hvimleið er þessi hringrás.
Skyldi honum ekki líka leiðast?
Hrafnar tveir
hliðverðir undirmeðvitundar
lækka flugið
með háværu krunki.
Það skín á silfurskeiðar
í goggum.
Svartar fjaðrir
verða jakkaföt.
Undir klukkuverki færibanda
með norðurljós sem blek
skrifa ég undir.