Ég
… er að bíða eftir að kreppan drepi mig. Að hún komi inn um gluggann, raunveruleg, og myrði mig. Í nóvemberlok dreymdi mig að farið væri að snjóa. Mitt á milli frétta sem allar greindu frá sjálfstortímingu dreymdi mig að það væri farið að snjóa. Að það snjóaði á hrunið. Ég sá norpandi smáfugla og mig hélt áfram að dreyma. Mig dreymdi þýðingu Sigfúsar Daðasonar á ljóði eftir Bertolt Brecht, og hélt áfram að dreyma. „Hvílík ir eru þessir tímar, þegar / gengur næst glæpi að tala um tré.“ Fyrr um haustið hafði ég farið árstíðavillt, það var engu líkara en fréttirnar hefðu numið veðráttuna úr gildi. Mér fannst vera vor í lofti og deildi þeirri hugsun með vini mínum. Í ljós kom að hann hafði líka farið árstíðavillt, nokkrum dögum síðar var hann farinn að lýsa því yfir að sumarið væri komið. Þá sömu daga var eitthvað farið að seytla inn í sálina. Í desemberbyrjun var óraunveru leikinn orðinn svo krefjandi að ég þurfti aðstoð við að komast inn í íbúðina – ég bý á þriðju hæð, í þessum töluðu orðum er verið að brjótast inn á þeirri fyrstu. Í bandarísku ljóði segir að á hverj um tíma séu þrjár heilbrigðar manneskjur á jörðinni. Það getur ekki talist mikill mannfjöldi. Líkurnar á því að ein þeirra sé stödd á Íslandi eru ekki miklar. En við þurfum sannarlega á henni að halda.
Þið
…sem skilduð ekki öfl tortímingarinnar, verðið að víkja. Íslenska valdastéttin þarf að víkja. S(jálfs tortímingar)flokkurinn má starfa sem neðanjarðarhreyfing eða bob klúbbur einhvers staðar í Vesturbænum mín vegna, menn mega jafnvel efna til samskota, en hann verður að víkja. Menn máttu vita að það var stutt í gjalddaga og að sá gjalddagi yrði ekki auðveldlega rifinn af dagatalinu, að hausti yrði ekki breytt í vor. Mér er almennt ekki illa við fólk en hugmyndafræði ykkar er gjaldþrota, svo ég noti orð sem þið skiljið. Það voruð þið sem settuð okkur á hausinn. Ykkar gildismat gerði þjóðfélagið heimskulegt, æðibunulegt, snobbað og grunnt. Hver fullnægingin rak aðra, mettunin var slík að hún hlaut að leiða til sjálfstortímingar. Það máttuð þið vita, en voruð samt tilbúin að taka sjensinn. Með hörmulegum afleiðingum. Þið megið vita að þjóðin bíður ekki eftir næsta landsfundi, íslenskir stjórnmálaflokkar mega halda þá á Ömmu Lú, í Bútan eða á Facebook, mín vegna, en guð forði okkur frá tíðindum af fleiri landsfundum, nógu hefur verið klúðrað nú þegar.
Því miður er Sjálfstæðisflokkurinn ekki eini spillti flokkurinn á Íslandi. Hann er verstur (það er augljóst), en til þess að við getum fundið ,,annarskonar sælu hvernig“ þarf íslensk valdastétt að víkja. Það er furðulegur jafnaðarmannaflokkur sem heldur flokknum við völd, og kvittar um leið undir þá hugmyndafræði sem nú hefur gert þjóðina gjaldþrota. Það er hugmyndafræði óreiðumanna, þeirra sem nú bera ábyrgð á því að í nóvember missti maður í Norðurmýri vinnuna, hann hafði verið heilt ár að vinna fyrir garðveislu, síðdegisboði, sem fram fór á Íslandi árið 2007.
Þeir
… sem hafa verið á lakkskóm í tuttugu ár og komu milljörðum úr landi, þeir sem fengu hundruð milljóna í starfslokasamninga, hundruð milljóna fyrir það eitt að fara á fætur, hundruð milljóna fyrir það eitt að fá þá hugmynd að ræna síðasta arðvænlega fyrir tækinu, hundruð milljóna fyrir það eitt að hlusta á Elton John, hundruð milljóna fyrir það eitt að aka burt í ljósaskiptunum, með eitthvað í skottinu, þeir (og hér fæ ég aðstoð úr hundrað ára gamalli hnignunarsögu) brutu pottana, átu kássuna, stálu timbrinu, stöðvuðu spunahjólið, hlógu að fólki og biðja okkur nú að minnast sín í bænum okkar. Sannarlega leist okkur ekki vel á þá, og ræddum það í fimmtudagsboðunum, við vissum að ráð þeirra myndu fá illan endi, við sjáum eftir því nú að hafa ekki, af misskilinni tillitssemi, látið grunsemdir okkar í ljós. Því í ósköpunum áttum við að nenna að fylgjast með því sem þeir, lausagosarnir, voru að gera, þótt reynt væri að troða því niður kokið á okkur í verðbréfahornum fjölmiðlanna, með tungutaki markaðarins, sem lagði allt annað tungutak undir sig. Við höfðum ekki áhuga á því. Í heilbrigðum samfélögum væri búið að snoðklippa menn og setja þá í járn. En á Íslandi sjást þeir á frumsýningum, í léttum fötum, greiðslan hefur ekki haggast á þeim þótt þjóðin sé komin í greiðsluþrot. Það fyrsta sem sumir þeirra sáu þegar þeir vöknuðu í morgun voru orkídeur, í gær hugsuðu þeir um kvöldfiðrildi. Og nú ætla þeir að taka rósirnar úr dánar kransinum, líka. En ættu þó öðru fremur að biðjast afsökunar á því að hafa nærst á lygum.
Við
Hvað verður um andlit okkar? Fréttablaðið spyr mig, eins og stjórnmálamann, sem sestur er í helgan stein (á Íslandi fara stjórn málamenn ekki að hugsa um stjórnmál fyrr en þeir eru sestir í helgan stein, á meðan þeir eru í stjórnmálum eru þeir bara valdamenn): Hvað næst? Svarið er á blaðsíðu eitt í bók númer eitt í neðstu hillunni: Þjóðfélag þar sem venjulegt fólk getur lifað á venjulegum launum. Keypt sér þak yfir höfuðið, skroppið í bíó, einu sinni í viku, kannski oftar, sent börn til að læra á básúnu, jafnvel fiðlu. Þjóðfélag þar sem hægt er að versla við eitthvað annað en peningamafíu, þar sem hægt er að láta klippa sig án þess að stofna framtíð yngstu dótturinnar í hættu. Þjóðfélag sem er ekki stjórnað af fámennri klíku sem gumar enn af gömlum gildum. Ísland – ríkasta land í heimi – var ekki hannað fyrir venjulegt fólk, það breyttist í paradís skattanna, aflandseyju … það var hannað fyrir hina. Fyrir þá. Við erum aular ef við áttum okkur ekki á því, vesalingar ef við gerum ekkert í því. Árum saman höfum við lifað eins og flugur í lygavef, en ég sé nýtt Ísland í hverjum ein asta manni sem ég tala við þessa dagana, enginn þeirra er á þingi.
Þeir
… valdamenn sem dönsuðu í strápilsum og mærðu útrásina verða að víkja. Við hin skulum segja eitt stórt nei. Ef við þurfum að brjóta rúður skulum við gera það. Ef við þurfum að kveikja í bílum, skulum við gera það.
Það
…er stormur, og hann er kaldur, það eru undarleg veður, ég er vopnaður, og ég á bláa kápu. Frost er og kuldi. Og menn orðnir loðnir á fótunum. Dimmt er augum, dagur dauða nær, og svo framvegis. Við verðum líka að læra að tala öðruvísi. Þeir mega ekki ráða því hvernig við tölum. Við leyfðum þeim að ná tökum á okkur.
Ef
… við þurfum stjórnvöld þurfum við stjórnvöld sem eru á bandi klisjunnar og hugsa bara um þrennt: Jöfnuð, vel ferð og réttlæti. Stjórnvöld sem leggja af pólitískar ráðningar. Við þurfum ekki stjórnmálamenn sem reka útgerð arfyrirtæki, olíufyrirtæki, álverksmiðj ur eða verðbréfafyrirtæki sem stofnuð voru á handboltaæfingu. Við viljum ekki menn sem stjórna bensínstöðvum eða temja randaflugur fyrir hádegi og setjast inn á þing eftir hádegi. Ef Evrópusambandið er besta rokkhljómsveit in í heiminum í dag, þá göngum við í það, húkum þar þó ekki eins og hver annar Bez með hristur og skanka, bíð andi slök eftir næsta eldgosi, heldur rjúkum beinustu leið í hljóðnemann, og teljum í Sister Morphine.
Það
… sem er gott á Íslandi er ekki þeim að þakka.
Mér
…er sama þótt menn séu ríkir. Leyfið okkur bara að lifa í friði.
Þú
„En hví að sakna eilífrar sólar ef okkur er ætlað að finna himneska birtu – langt handan fólksins sem deyr eftir árstíðunum.“ Þetta ástand er tímaþjófur. Hvað verður um andlit okkar? Mér líður eins og lokaorðunum í The Great Gatsby. Ennin verða slétt og tilfinningarnar sljóvgast. Við, þú og ég, megum engan tíma missa
Þegar þú segir að nú sé stutt í sumarið segi ég að það þurfi að kveikja í nokkrum húsum fyrst. Þegar þú segir að allt fari einhvern veginn vegna þess að öll erum við einhvern veginn segi ég að það þurfi að bjarga því sem bjargað verður. Og ég bæti við: Ég er að hugsa um að vera hérna áfram, jafnvel deyja hér, og láta grafa mig í einhverjum firði, skammt frá óreistri olíuhreinsunarstöð. Ég hef verið hér gegnsær með líffærin og hugsanirnar allar sýnilegar og ólmur eins og norðurljós niðri í fjöru og ætla að vera hérna áfram. En fyrst hafði ég hugsað mér að finna einlægnina aftur, eitthvað sem ómaði dauft, og þá einkum í bókum, á meðan atgangurinn var hér sem mestur, ómaði dauft, en ómaði samt. Og þá segir þú, sem ert betri en þeir, upp úr bók: „Sannlega er óhófið heimskt og lestirnir heimskir; hinu rotna skal kastað til hliðar. En klukkan hefur þó tæpast slegið nógu lengi til að stund hinnar dýpstu sorgar ráði ein! Verð ég hrifinn burt eins og barn? Til að leika í paradís? Handan allrar eymdar?“ Og ég svara: „Gatsby trúði á þetta græna ljós, þá æsilegu framtíð sem ár eftir ár færir sig lengra í burtu fyrir framan okkur. Hún slapp frá okkur þetta sinnið, en það skiptir engu máli – á morgun ætlum við að hlaupa hraðar, teygja armana lengra fram … Og einn góðan veðurdag –“
Ég er að bíða eftir að kreppan drepi mig. Í nóvemberlok dreymdi mig að það væri farið að vora. Hvað verður um andlit okkar? Við verðum að gera eitthvað.
Heimildir:
Scott Fitzgerald: Hinn mikli Gatsby. Atli Magnússon íslenskaði. Ugla. Reykjavík, 2008.
Kristín Eiríksdóttir: Annarskonar sæla. JPV útgáfa. Reykjavík, 2008. Thomas Mann: Búddenbrooks. Hnignunarsaga kaupmannsættar. Íslensk þýðing Þorbjörg Bjarnar Friðriksdóttir. Fjölvi. Reykjavík, 2000. Arthur Rimbaud: Árstíð í helvíti. Íslensk þýðing Sölvi Björn Sigurðsson. Moli. Reykjavík, 2008.
Birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. janúar, 2009.