Ljósmynd: Þjóðviljinn, Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Bónuskonurnar  

Við skruppum oft í kaffitímanum og eftir vinnu til að fá okkur að drekka og borða hjá henni Stínu sem bjó við hliðina á Íshúsfélaginu. Nokkrar hressar konur úr slorinu sem fengu sér oft í staupin. Stína var einstæð móðir sem átti tvo stráka og vann mikið. Hún var hávaxin og grönn kona með bein í nefninu. Hún var fær bónuskona, með þeim fljótustu og bestu í húsinu. Við sátum oftast í litla eldhúsinu hennar og ræddum pólitík. „Lifi byltingin“, sagði Elsa alltaf  þegar við settumst og staupuðum okkur. Elsa var mikil baráttukona og það var hennar hjartansmál að standa vörð um réttindi fólks. Elsa var alltaf létt en ákveðin í fasi.

Við komumst ekki fleiri en fimm konur við borðið.

Eldhúsið sneri í norðurátt en samt ræktaði hún rauðar paprikur sem fylltu upp gluggann á sumri til. Þær uxu þar á á einhvern óskiljanlegan hátt. En við heyrðum Stínu oft tala við þær svo þar liggur kannski skýringin. Þegar varð uppskera hjá henni setti hún þær í stóran haug á borðið og við máttum taka eins og við vildum. Blaðahaugar og flöskuhaugar söfnuðust á eldhúsgólfinu undir glugganum. Þeir urðu eins og hluti af innréttingunni því þeir voru snyrtilega settir upp. En það var örðugra að hreyfa sig í eldhúsinu því það minnkaði ískyggilega.

Það varð alltaf mikill léttir þegar hún tók sig til og minkaði á haugunum. Þá fengum við okkur í staupin.

Hún yfirleitt notaði allt leirtau sem til var í eldhússkápunum, þangað til allt varð óhreint og komin leirtaushaugur á eldhúsborðinu,við vaskinn og í vaskinum. Hún átti nefnilega hvítt 24 manna kaffistell sem hún náði sér í frá Félagsheimili á einhverjum stað sem var að hætta starfsemi. Hún sagði að henni þætti gott að eiga nóg af bollum, haug af bollum er gott. Þegar enginn hreinn bolli var eftir þá tók Stína sig til og bretti upp ermirnar og setti á sig gula gúmmihanska og vaskaði allt upp í einu eins og sannri bónuskonu sæmir. Það var mikil athöfn þegar það gerðist og þá fengum við okkur í staupin.

Ég átti það til, þegar ég kom til hennar eftir vinnu, að ég tók til við að týna upp úr gólfinu. Föt sem lágu þar og allskonar dót sem hafði dottið á gólfið. Mér fannst betra að finna gólfið sem ég gekk á. Haugur af hreinum þvotti var yfirleitt settur í sófann inn í stofu. Við tókum til við að brjóta saman þegar við sátum við sjónvarpið og horfðum á fréttirnar á tímum kalda stríðsins.

Stína hellti í staupin.

Hinn óhreini haugurinn lág á ganginum á leið niður í kjallara í þvottahúsið. Þar lágu líka tveir stórir svartir plastpokar í fatahenginu, sem fylltust af ýmsu drasli sem var á leiðinni út.

Sokkarnir voru alltaf í sér haug og það tók tímana tvenna að koma þeim saman svo við fengum okkur í staupin með því.

Í sjónvarpinu var fjallað um Keflavíkurgöngu á vegum Herstöðvarandstæðinga sem var framundan. Rúna tók andann á loft „Nú fer ég í göngu, ég er harðákveðin í þetta sinn. Kemur þú með Stína? Nú göngum vér. „Kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd“!“

Stína bað mig að fara með sokkanna inn í herbergi strákanna.

Ég læddist með þá inn og sá að strákarnir steinsváfu og rak augun í steinahaug sem var á bakka upp á litlu borði á milli þeirra. Æi hvað þetta var sætt hugsaði ég þetta er eins og  altari. Ég hafði safnað steinum þegar ég var barn og geri enn.

Fyrsti hittingurinn var yfirleitt í kaffitímanum á mánudegi um hálf 10 þá hentumst við yfir til að fá okkur rótsterkt kaffi hjá Stínu okkar. Mér fannst alltaf mánudagarnir erfiðastir í vinnunni. „Ég vildi að það væri komin föstudagur“ sagði ég mæðin og mér leið eins og undinni tusku.

Margrét sem var mun eldri en ég stendur upp með spekingssvip og segir: „Rúna mín, þú sem ert yngst af okkur konunum hér, þú átt eftir að komast að svo mörgu í lífinu. Njóttu þess á meðan þú er ung. Það er alveg óþarfi að burðast með drauga. Sú sem talar svona verður fljótt gömul“. Hinar töku undir það og skáluðu í bollunum.

Það var eins og ég hafi verið slegin með blautri tusku og þessi setning gróf sig inn í mig eins og meitluð í hjartað mitt. Rótsterka kaffið seytlaðist í mig og það var eins og ég hafi vaknað til einhvers sem ég skildi ekki alveg. Með tímanum fór ég að skilja orðin hennar Margrétar. Hún var hafsjór af fróðleik og við höfðum unun af að hlusta á visku hennar. Hún var með stórt hjarta og vildi ekki sjá neinum mein og stóð vörð um það.

Þorskurinn var lífið okkar á þessum tíma. Við vorum að bjarga verðmætum því nú var gullaldartími þorsksins. Hvað var betra en lyktin af nýveiddum þorski sem kom rennandi á færibandinu til okkar. Gullið rann til okkar. Yfirleitt tókum við tvo bakka og settum í stóran haug. Ef þorskurinn var sérstaklega stór og góður tókum við þrjá eða fjóra ef græðgin bankaði upp á sem hún gerði oft. Við vorum nú í bónus og þurftum að afkasta mikið yfir daginn. Við þurftum að vera snöggar upp á lagið, eiginlega að sigra tímann að okkur fannst. Gera eins mikið og við gátum á hverjum degi, vera snöggar,einbeittar, vandvirknar og hraðar. Því stærri haugar því meiri peningur. Bakkahaugurinn var stundum svo stór að við þurftum að passa okkur að hann rynni ekki niður á gólfið.

Haugur af þorski og nýveiddum karfa. Fiskurinn var gullið okkar.

Við vinkonurnar vorum allar á sama stað í húsinu. Við unnum saman á borði. Yfirleitt vorum við þrjár saman en oftast tvær. Ef við vorum þrjár þá voru tvær að skera úr og sú þriðja að pakka. Annars skárum við úr saman tvær og pökkuðum síðan saman, þegar allt var orðið að stórum haug á borðinu. Við fengum hvíta vinnujakka og flestar í svörtum Nokia stígvélum frá Finnlandi.

Við vorum að vinna í sal sem við kölluðum Himnaríki því sá salur var nýr og gamli salurinn var kallaður Helvíti. Það var mikil baráttuandi í Himnaríki. Við vildum alltaf það besta fyrir allar manneskjur og ef einhvað bjátaði á, settum við hnefann í borðið og sögðum vér krefjumst réttlæti hér. Þannig að það titraði og skálf stundum í Himnaríkinu miðað við hinum megin í Helvítinu þar var allt með kyrrum kjörum.

Á laugardögum var alltaf unnið og þá var fengið sér í staupin og spjallað mikið um pólitík þegar við fórum yfir til Stínu í kaffitímanum. Sérstaklega voru réttindamál okkar í brennidepli núna. Nú átti að stytta reykingapásuna okkar um nokkrar mínútur og við vorum ekki ánægðar með það. Við vildum ekki vera í bónus við að reykja, við vildum fá þessa pásu til að slaka á í rólegheitum og njóta reyksins. Hver reykir á hlaupum, þvílíkt og annað eins var ekki okkur bjóðandi.Við urðum að sýna hvað í okkur býr og berjast á móti því. Eina af okkur hún Elsa var trúnaðarkona verkafólksins á staðnum og við treystum henni fyrir að koma þessu í lag fyrir okkur.

Við fengum okkur extra í staupin sérstaklega í hita málsins og það var laugardagur. Þá fengum okkur koníak oftast en Bella vildi það ekki svo hún fékk sér serrý. Hún var elst af okkur bónuskonunum listakona með ráma rödd. Bella var búin að vinna í fiskinn í fjörtíu ár. Það rennur betra í mig þegar maður er komin á þennan aldur sagði hún kímin.

Skálum stelpur! Fyrir réttlætinu, fyrir lífinu!