Úr sýningu Borgarleikhússins á Mávi Tjekhovs.

Vonir og vonbrigði: Ágústpistill um leikhús

Sitt hvað getur hrellt einn leikhúsgest sem misst hefur sakleysið en hlakkar eigi að síður til að njóta sýningar á virtum leikverkum liðinna tíma. Og mér urðu sýningar liðins leikárs á Mávinum og Hver er hræddur við Virginiu Wolf í Borgarleikhúsinu, og Sporvagninum Girnd í Þjóðleikhúsinu allar vonbrigði. Rómaður erlendur leikstjóri, Yana Ross, heimsótti Borgarleikhúsið og sviðsetti Máv Tsjekhovs. Gangrýnendur luku flestir lofi á sýninguna og væntingar mínar voru töluverðar. En því miður þótti mér uppfærslan ekki góð og eitt það versta sem hent getur leikhúsáhorfanda gerðist stuttu eftir að sýningin hófst. Ég missti áhugann. Mér fannst þessi tilraun til þess að færa rússneska karaktera til Suðurnesjanna og gera tsjekhovskar kringumstæðar þeirra íslenskar ekki takast vel. Úr varð lítið annað en ódýrar og óspennandi tilvísanir til íslenskra aðstæðna samtímans. Og karaketerarnir urðu svolítið eintóna og klisjukenndir í stað þess að vera marglaga eins og hjá Tsjekhov. Tsjekhov var rússneskur höfundur og skrifaði Mávinn fyrir aldamótin 1900. Í þessu leikriti eru margir þræðir órjúfanlega tengdir rússnesku samfélagi þessa tíma og allur þróttur var úr verkinu þegar búið var að færa það inn í íslenskt rigningasumar samtímans með tilheyrandi grilli og gambra. Frést hefur að Yana Ross sé væntanleg til þess að sviðsetja Sölku Völku í Borgarleikhúsinu á leikárinu sem er rétt í þann mund að hefjast. Mér líst vel á þá hugmynd því að þrátt fyrir misheppnaða sýningu – að mér fannst – þá var margt í leikstjórninni á Mávinum sem hefði getað virkað spennandi og áhugavert í réttu leikriti.

Sýning Borgarleikhússins á Virginu Woolf Edwards Albee fékk líka góð ummæli hjá gagnrýnendum að því er ég best man. Margrét Vilhjálmsdóttir og Hilmir Snær Guðnason, stórstjörnur íslensks leikhúss, voru í aðalhlutverkunum og ekki mjög langt um liðið síðan þau fóru listilega með hlutverk Proctorshjónanna í leikriti Millers, Í deiglunni, í sýningu Þjóðleikhússins. En nú brá svo við að mér fannst þau ekki fara mikið á dýptina í túlkun sinni á Mörthu og George. Mér sýndist greinilegt að margt hefði verið reynt á æfingum á leikritinu en það var eins og hið endanlega val hefði aldrei farið fram og leikararnir voru enn að prófa sig áfram með ýmsa leikstíla – að minnsta kosti í sýningunni sem ég sá. Þarna mátti sjá allt frá yfirspenntum expressjónisma yfir í blákaldan natúralisma. Þetta gerði það meðal annars að verkum að sýningin tókst aldrei á raunverulegt flug og fyrir augu bar lítið annað en einmana fólk á fylleríi. Það er ósköp grunnfærin túlkun á þessu leikriti Albee sem ég hygg að framar öðru fjalli um bandarískt feðraveldi – allt frá Washington til Kennedy og áfram til Obama og Hillary Clinton – og ófrjósamar afleiðingar þessa veldis sem alla sköpun hneppir í dróma og drepur börnin sín andlega. Varla er það af tilviljun að Albee kallar persónur sínar Mörthu og George – en svo vill til að það hétu einnig fyrstu forsetahjón Bandaríkjanna, George og Martha Washington. Mér sýndist að af leikurunum væri það helst Elma Stefanía sem hefði náð að fanga eitthvað af feðraveldisvídd og ófrjósemisdýpt leikritsins – en hún lék hvorki Mörthu né George.

Við fyrstu sýn tókst betur til með Sporvagninn Girnd undir leikstjórn Stefáns Baldurssonar í Þjóðleikhúsinu. Það bar ekki á öðru en þarna væri á ferð býsna vönduð sýning. En hún reyndist hins vegar aðeins vel unnin á yfirborðinu og bar öll helstu einkenni leikstjóra síns. Allt var undir miklum kontról og lítil sem engin áhætta tekin. Sýningar Stefáns hafa jafnan verið með þessum brag. Allt gengur eins og vel smurð vél og enginn þarf að óttast að neitt fari úrskeiðis. En stundum verður þetta frekar leiðigjarnt og þegar sakleysissviptur leikhúsáhorfandinn stendur sig að því að vera farinn að geta sér til um það hvert leikararnir snúi sér í næstu replikku og reynist oftast hafa rétt fyrir sér í getgátunum hættir að vera gaman. Úr allri stjórninni verður yfirborðsleg túlkun á leikritinu og sú var oft raunin í sýningunni á Sporvagninum. Þetta verk Tennessee Williams fjallar öðru fremur um ofbeldi – ofbeldi í öllum mögulegum myndum, andlegt, líkamlegt, samfélagslegt – og þegar þessi meginþáttur leikrits birtist aðeins sem yfirborð á leiksviðinu skortir alla dýpt í sýninguna. Það er vandi að leika ofbeldisfull atriði en það leysir ekki vandann að fela verknaðinn bak við sófa á sviðinu. Til þess að gera ofbeldið sannfærandi þurfa bæði leikarar og leikstjórar að finna ofbeldismanninn í sjálfum sér og horfast í augu við hann. Það er auðvitað sársaukafullt en við hljótum að gera þessar kröfur til þeirra sem vilja láta líta á sig sem listamenn. Blanche Dubois er ekki bara viðkvæmur geðsjúklingur og meint hóra – hún er líka kvendjöfull sem hikar ekki við að beita andlegum yfirburðum sínum til þess að lúskra á sálinni á þeim sem í kringum hana eru. Og það er líka sitt af hverju sem bendir til þess að veslings Blanche hafi kenndir sem eru á mörkum barnagirndar.

Í lok leikársins í vor tjáðu ýmsir krítíkerar og álitsgjafar sig um hverjar væru eftirminnilegar af sýningum ársins og hverjum við ættum helst að gleyma sem fyrst. Flestir voru á einu máli um að Þjóðleikhúsið væri í lægð, mikilli lægð, sorglegri og óskaplegri. Því miður er nokkuð í þessu hæft og kannski tókst Tinnu Gunnlaugsdóttur ekki fyllilega að halda í horfinu í húsinu eftir að hún tók við leiðtogastarfi þar af Stefáni Baldurssyni, sem sat í stutt fimmtán ár á stóli þjóðleikhússtjóra. En það voru eigi að síður margar athyglisverðar og sumar mjög góðar sýningar í Þjóðleikhúsinu á stjórnarárum Tinnu. Ég minnist Utan gátta eftir Sigurð Pálsson, Íslandsklukku Benedikts Erlingssonar, Engisprettna eftir Biljönu Srbljanovic, áðurnefndrar sviðsetningar Stefans Metz á Deiglu Millers og leikstjórnar sama listamanns á Fjalla-Eyvindi, sem gagnrýnendur kepptust ómaklega við að rakka niður, en var býsna einlæg og leikhúsleg nálgun á þessu textameistaraverki íslensks leikhúss. Mér finnst þess vegna ástæða til þess að hlakka til þess að á því leikári sem nú fer brátt að hefjast mun Stefan Metz sviðsetja Horft af brúnni eftir Miller í Þjóðleikhúsinu. Við eigum líka von á Ingvari Sigurðssyni í hlutverki Óþelló í leikhúsinu, sem við samkvæmt lögum og auglýsingum eigum öll saman. Vonandi klikkar ekki neitt þar. Af því sem að framan er sagt má auðveldlega sjá að Ari Matthíasson sýnir sterka viðleitni til þess að reka slyðruorðið af Þjóðleikhúsinu og er það vel.

Úr Borgarleikhúsinu hefur það helst flogið fyrir, eins og áður var á minnst, að Yana Ross kemur til þess að leikstýra Sölku Völku, Marta Nordal setur á svið nýtt leikrit eftir Bjarna Jónsson – og svo megum við eiga von á nokkrum aukasýningum á Njálu að ógleymdum söngleiknum Mamma mia. Ekki fleiri orð þar um – en eftir nokkrar vikur ætla ég að fjalla meira um leikárið framundan og jafnvel segja eitt eða tvö orð um einstakar sýningar sem þá hafa verið frumsýndar.

Í blálok þessa pistils vil ég rifja upp að landið rís oft í leikhúsheiminum í lokaverkefnum nemenda Listaháskóla Íslands. Þar er að finna kraftinn, áræðið og dirfskuna sem svo oft skortir í því hátæknivædda leikhúsi sem almenningi býðst. Vorið 2015 naut ég einkum einstaks eigin dauðaritúals og útfararsöngs sem var höfundarverk Þorvaldar Sigurbjörns Helgasonar og nú í vor fannst mér leikstjórn Grétu Kristínar Ómarsdóttur á Stertabendu gefa vonir um bjarta tíð framundan. Heyrst hefur að Stertabenda verði á verkefnaskrá Þjóðleikhússins í vetur og er það vel ef rétt reynist.