Vertu heima á þriðjudag


Myndina tók Saga Sig en ljóðin eru úr bók Bergs Ebba Vertu heima á þriðjudag.

KYRRÐARSTUND

Það eru engar trommur
engir lúðrar
engin rúða brotin

Ekkert í sjónvarpinu
engar fylkingar
engir fánar

Þvílíkan frið hef ég ekki fundið lengi

Það eru tvær klukkustundir síðan ég vaknaði
Ég sit rólegur í stól
borða hrökkbrauð með kavíar
fletti bæklingi frá ferðaskrifstofu sem kom inn um lúguna

Ég finn að stríðið er hafið

Morgunstund í Kópavogi

Ertu tilbúinn að verða fyrir sprengingu?
Ertu í rjóðrinu
eða lemur þú loppum þínum í kirkjubjöllur?
Svaraðu mér köttur!

Grasið er hrjúft undir il
Vorið angar af birki
Ég heyri óm af Patti Smith Group
úr eftirpartíi frá 1980
Þúsund nálar stingast í brjóstinu
Refresh, fjöldi nála 1,4k

Litli villikötturinn minn
nú er nýr dagur og aftur er sólin
að plástra þetta
með fölgulri hulu
Tvö þúsund og átta hundruð samþykkja það

Bíllinn malar, gúmmí nuddar malbik
Ökuferð, söngur í loftinu og
blíðir rafgítartónar
frá kynlausum stjörnufræðingum

Á golfvellinum eru nokkrir mættir
Maður í flíspeysu lyftir flaggstöng úr holu
Þetta var bara eins og að taka rafmagnstæki úr sambandi
hljóðið þegar húddið keyrði inn í mjöðmina
var bara smellur