Stórmennskubrjálæðingurinn er alltaf einn

Um Richard III (a one woman show) í Suðureyrarkirkju 11. ágúst 2016

RICHARD III
Aðalhlutverk: Emily Carding
Önnur hlutverk: Gestir
Aðlögun úr leikriti William Shakespeare:
Kolbrún Björt Sigfúsdóttir
og Emily Carding
Leikstjórn: Kolbrún Björt Sigfúsdóttir


Hver er andstæðan við post scriptum? Pre scriptum? Forskrift? Uppáskrift? Ávísun á lyf? Heitið á útúrdúr sem birtist áður en maður kemur sér að sjálfu efninu? Þetta er í öllu falli þess lags útúrdúr: Þið fyrirgefið mér vonandi vandræðaganginn, en er viðeigandi að nefna að svo virðist sem frægasti leiklistargagnrýnandi þjóðarinnar (ekki ég!) hafi sofið allan fyrri hluta sýningarinnar – eða í það minnsta starað niður fyrir sig með lokuð augun – og svo gengið út um það leyti sem Ríkharður III var krýndur? Ef það er ekki viðeigandi verðið þið bara að reyna að fyrirgefa mér með tíð og tíma.

Einhvern veginn varð það hluti af upplifuninni – ekki afgerandi, en ekki merkingarlaus heldur – á póstmódernískri sýningu þar sem áhorfendur … tja, tóku kannski ekki virkan þátt en voru allavega hluti af leikmununum, statistar, kannski? Þegar önnur kona steig síðan upp og gekk til dyra (hún sneri aftur innan við mínútu síðar) setti sjálfur Ríkharður í brýnnar, benti niður kirkjuskipið og spurði: „Does she not know who I am?“

En þegar Jón Viðar fór sagði Ríkharður ekkert – tók kannski ekki eftir því enda Jón áreiðanlega þaulæfður í listinni að læðast út. Og kannski vissi Ríkharður heldur ekkert hver hann var.

I: Þessi týpa

Ríkharður III tók á móti gestum í Suðureyrarkirkju síðastliðið fimmtudagskvöld og vísaði til sætis. Þeim sem fremst stóðu í röðinni og voru fyrstir inn í kirkjuna var úthlutað hlutverki og fengu skilti um hálsinn

HI
MY NAME IS
LORD HASTINGS
HI
MY NAME IS
LADY ANNE

 
 
 

 

og svo framvegis. Sumum var komið fyrir á sjálfu sviðinu – þ.e.a.s. við altarið – og öðrum yst á bekkjunum. Sjálfur þrammaði síðan Ríkharður óðamála fram og aftur allt skipið meðan hann barðist til valda og drap eða lét myrða statistana með skiltin, sturtaði í sig rauðvíni, og drapst loks sjálfur í orrustu – galandi hinar frægu línur um hest í skiptum fyrir konungsríkið, sem hann hafði þó lagt svo mikið á sig til að fá forystu yfir. En suma daga er maðurinn nægjusamari en aðra.

Ríkharður Emily Carding og Kolbrúnar Bjartar Sigfúsdóttur var kroppinbakur með visinn handlegg, einsog hefðin býður, og sjarmerandi stórmennskubrjálæðingur sem minnti stundum á Tywin Lannister úr Game of Thrones (með snert af Tyrion), stundum á Riff Raff úr Rocky Horror Picture Show, stundum á eitthvað afbrigði af úrkynjuðum breskum stjórnmálamanni, a lá Nigel Farage kannski, og svo auðvitað fyrirframgefnar hugmyndir manns um þennan voðalega kóng, Ríkharð III. Einsog þetta sé ekki allt sama týpan í grunninn.

Verkið hefur verið sýnt við „góðan orðstír“ – og kannski rúmlega það – víðs vegar í Evrópu og millilenti á Suðureyri á leið sinni til meginlands Ameríku í þessu viðvarandi kraftaverki sem er einleikjahátíðin Act Alone.

II: Sósíópatinn í einleiknum, sínu náttúrulega umhverfi

Act2016 4
Þegar þetta næstlengsta verk Shakespeares er gert að klukkustundarlöngum einleik verður Ríkharður jafnvel enn mónómanískari en fólk á að venjast (og mátti nú varla við því, blessaður) – niðursoðinn þar til ekkert er eftir nema hann sjálfur, aðalsöguhetjan kjörnuð í sjálfhverfu sinni og viðstöðulausri núvitund.

Og ef það er sögn í verkinu um valdið þá er hún kannski sú að valdið snúist fyrst og fremst um sjálft sig. Það er markmið í sjálfu sér, öllu öðru ótengt, og þeir sem sækjast eftir því sækjast eftir því sjálfs þess vegna – en ekki endilega fyrir það hvað það getur veitt þeim annað. 

Maður fær það nefnilega ekki á tilfinninguna að Ríkharður hafi nokkuð handfast til að dómínera yfir – þegar Ríkharður er þetta einn í heiminum, röflandi við sjálfan sig og bendandi á mállausa statista sem hann svo myrðir einn af öðrum, verður valdið að einhverju fullkomlega abstrakt. Hvort það er raunsönn lýsing á valdi – eða þránni eftir völdum – veit ég ekki, en það er í það minnsta áhugaverður vinkill.

Kannski er þetta hið sósíópatíska ástand; þar sem aðrir leikendur eru ekki annað en kjötsekkir með nafnspjaldi sem maður neyðist til að vera almennilegur við þar til maður kemst upp með að ryðja þeim úr veginum. Og svo við hin, nafnlaus múgur mektarmanna og alþýðu, sem þjónum engu öðru hlutverki en að horfa á Ríkharð – veita tilvist hans fulltingi okkar. Það eina sem við fengum að gera aktíft var að hrópa einu sinni: „Long Live Richard, England’s Royal King!“ Og erum enda ekki til annars nýt.

III: Tilfærsla á vegg í lokuðu rými

Í lýsingu á verkinu á heimasíðu Act Alone stendur að í því sé fjórði veggurinn mölbrotinn. Fjórði veggurinn er samkvæmt fræðunum (sem ég kann reyndar ekki mikil skil á) framhlið sviðsins – hinn ímyndaði veggur sem skilur áhorfendur frá leiksviðinu. Þessi veggur er forsenda þess að leikarinn geti látið einsog áhorfendur séu ekki til og hann þar með ekki að leika texta úr leikverki samkvæmt leiðbeiningum leikstjóra.

Í þessum tiltekna Ríkharði III væri kannski nær að segja að áhorfendum hafi verið boðið inn um dyr á fjórða veggnum – að við höfum fengið að búa í verkinu um stundar sakir, sem statistar – frekar en að verkið hafi gengist við því að það væri leikverk og við værum áhorfendur (nema kannski rétt á meðan Ríkharður þrammar um með prentaða útgáfu af heildartexta Shakespeare og les upp).

IV: Sviðsetning á hráum vöðva

Sýningin – a.m.k. einsog hún birtist okkur í Suðureyrarkirkju – er líka pönk, berstrípuð, fláð inn að blóðugu beini, engin sérstök lýsing eða tónlist og búningar samanstóðu sem sagt aðallega af þessum nafnspjöldum. Ríkharður var svo í jakkafötum.

Á sviðinu voru stólar, borð, rauðvín, pappírskóróna, farsími og byssa – auk límmiða sem gáfu til kynna hver væri dead og hver ekki. Og samt var settið hvorki nógu fínlegt eða stílíserað til að vera naumhyggja – ekki nógu dauðhreinsað, sérstaklega ekki í miðri Suðureyrarkirkju sem setti auðvitað mark sitt á sýninguna. Satt best að segja er það nokkur léttir, þegar maður er vanari því að sýningar séu frekar ofpródúseraðar en hitt.

V Gæðamat eða neytandinn verður að fá eitthvað fyrir snúð sinn

Kannski er greinarmunurinn ekki til neins annars en að upplýsa þá sem eru að velta því fyrir sér hvort þeir eigi að sjá sýninguna – eða velta því fyrir sér hvort þeir eigi að sjá eftir því að hafa ekki séð hana, réttara sagt, því hér vestra verður hún væntanlega aldrei sýnd aftur – en mér er áreiðanlega óhætt að fullyrða að Richard III (a one woman show) sé kómedía frekar en tragedía, og það þótt ég hafi enga menntun í fræðunum. Í öllu falli var mikið hlegið.

Leikur Emily Carding var líka yndislegur – þótt við sem erum ekki reiprennandi í 16. aldar ensku mættum hafa okkur öll við að fylgja málæðinu í Ríkharði (og þar með söguþræðinum) á köflum. Ríkharður III er í senn úthugsað verk, agressíft og skemmtilegt maníupönk og bætast þær Emily og Kolbrún þar með á þann langa lista fólks sem William Shakespeare má – yfir gröf og dauða – standa í morbíðri þakkarskuld við, enda viðhalda þær arfleið hans einsog köngulóardrottningar sem æxla sig við gamla köngulóarkarla (og bíta svo af þeim hausinn á eftir).

Myndir: bb.is
Textinn birtist einnig í Bæjarins besta og bb.is