Ég er mannleysa, elskan, myrtu mig

Um Endurfundi Orra Harðarsonar

Fyrir tveim árum gaf Orri Harðarson (1972) út sýna fyrstu skáldsögu, Stundarfró. Við hér á Starafugli fjölluðum um verkið og höfundinn á sínum tíma. Hann hafði þá helst getið sér orð fyrir tónlistarsköpun og þýðingar.

Hjá Sögum hefir nú ný skáldsaga Orra, Endurfundir,  litið dagsins ljós. Sagan er 231 síða. Sögusviðið er Akranes árið 1991. Það ár var árið sem Viðeyjarstjórnin, með Davíð Oddson í forsæti, var sett á laggirnar, fólk leigði sér myndbandsspólur og Akraborgin silgdi milli Reykjavíkur og Akraness.

Í upphafi skyldi endinn skoða

Stundarfró er skáldsaga sem hefir margt til síns ágætis. Endurfundir hafa einnig margt til brunns að bera. Fyrir það fyrsta er eigi örgrannt á því að verkið sé stíllega skemmtilega mixað. Mikið ber á skorinorðum málsgreinum. Oftast nær litast málnotkunin af vönduðu íslensku tungutaki. Alloft kemur þó fyrir að setningarnar sé spæsaðar upp með slangri. Máske kann það að vera eitur í beinum málvöndunarsinna en slík orðnotkun á vel við hér. Fellur hún vel að sögutíma og efni.

Í annan stað auðnast með ágætum að fanga tíðarandann anno 1991. Dregin er upp áhugaverð fortíðarmynd. Fortíðarmynd sem stilla mætti upp á móti þeirri nútíðarmynd sem dregin er upp í Fyrir allra augum Sverris Norlands. Á meðan Fyrir allra augum fangar svo að segja tíðaranda tölvuskjáa og snjallsíma með stöðufærslum, sjálfum, smáskilaboðum og frelsuðum gervörtum fanga Endurfundir hann með tónlist, tónlistarmyndböndum, sem tekin voru upp á vídeókasettur, og kvikmyndum á myndbandspólum. Einnig er vert að geta þess að tónlist er þar að auki notuð til að undirstrika tilfinningar sögupersónunnar. Tekst það vel til.

Í þriðja stað er textinn haganlega samansettur. Mætti jafnvel gefa höfundinum, í anda bókarinnar eins og síðar verður drepið á, viðurnefnið Orri orðhagi. Textinn rennur ljúflega í gegn. Ekkert um farartálma. Sagan er þó ekki endilega neitt léttmeti. Hún er bæði sviðakjammar og pasta.

Ef tína ætti til einhver umkvörtunarefni þá er talsvert um endurtekningar. Í því samhengi má kvarta undan hve aumkunarverður og óframfærinn aumingi aðalpersónan er. Það er afar ósexí hvernig hann tönnlast á eigin óágæti og hve mikill lúser hann sé. En lífið er víst ekki alltaf Playboy-setur og kampavín.

Aðalpersóna sögunnar er hugsanlega einhver ókynþokkafyllsta (passar vel hve ókynþokkafullt orðið, kynþokkafullur er) sögupersóna íslenskra bókmennta. Reyndar er þetta eitthvað sem aðalpersónur Endurfunda og Fyrir allra augum eiga sammerkt: Þeir eru óttalegir vesalingar. Ágúst Endurfunda hefir þó vinninginn hvað væl, vesaldóm og barlóm varðar. Hann er klárlega í úrvalsdeild kveinstafanna.

[Innskot: Þýskir álfariðlar og aðdáendur víkingaklappsins yrðu fyrir áfalli ef þeir fengu veður af því að íslenskir karlmenn séu ekki allir upp til hópa gæddir sama hetjuanda og Gunnar á Hlíðarenda.]

Um hvað er sagan? Þegar Ágúst snýr …

Útfærsla I:

Þegar Ágúst Bergson snýr heim á Skipaskaga, með „tilvistarlegt hrun“ (bls. 10) í farteskinu, eftir tveggja ára fjarveru í útlöndum kemst hann að því að margt hefir breyst í fásinninu. Hvað er með foreldrana? Af hverju láta þeir svona skringilega? Er Steindóra, kona Kristjáns bróður Ágústs að gefa honum undir fótinn? Girnist æskuvinkonan María hann? Lætur ástin á sér kræla? Eitt hefir þó ekki breyst í bænum. Bæjarbúar láta sig málefni náungans helst til of mikið varða og veðrið er ekki upp á marga fiska.

Útfærsla II:

Þegar hinn rétt rúmlega tvítugi, ólánssami, óframfærni, óöruggi, holdugi og hryggbrotni Ágúst Bergsson endar heima í foreldrahúsum með „ekkert til að státa sig af“, (bls. 9) eftir mislukkað nám í kvikmyndagerð í borg Woody Allen, New York, þarf hann að glíma við margvíslega fortíðardrauga. Hann flakkar í tíma og rúmi um æskubæinn sinn, Akranes, með nagandi efasemdir um eigið ágæti og kynnir okkur inn á milli fyrir kostulegum karakterum með lýsandi viðurnefnum. Nær hann að „gangast við stöðunni, stokka hlutina upp og verða mögulega að manni“? (bls. 15)

Útfærsla III:

Endurfundir fjalla um Ágúst Bergsson, fyrrum nema í kvikmyndagerð í New York, sem flosnar upp úr námi eftir að kærastan hættir með honum og heldur hann í kjölfarið heim. Hann á í megnustu erfiðleikum með að finna sig í vindavítinu og smábæjarbragnum á Skaganum svo og slorinu í frystihúsinu. Finnur hann einna helst afdrep í kvikmyndunum.

Útfærsla IV:

Orri Harðarson er mættur með nýja skáldsögu. Sagan tekur á brotinni sjálfsmynd og tilvistarkreppu karlmannsins. Karlmanns sem veit ekkert í sinn haus, er fullur af vanmætti gagnvart umhverfi sínu, sjálfum sér og kvenkyninu. Maður sem stígur „beinustu leið í stærsta drullupollinn á hafnarsvæðinu“ (bls. 30) þegar hann snýr aftur heim á æskuslóðirnar. Er aðalpersóna og sögumaður Endurfunda, mannleysan Ágúst Bergson, ef til vill tímana tákn? Fjallar verkið um hvernig hefðbundin karlmennska sé á undanhaldi? Kristallast sú nálgun í því að Ágústi var nýverið sparkað af sænskri kærustu sinni fyrir bandaríska vinkonu?

Ósæluríki Ágústs

Flest markvert kom fram í innihaldslýsingunum. Samt. Ágúst Bergsson er enginn garpur. Hann er fremur andhetja, plagaður af minnimáttarkennd og öryggisleysi sem hann „læknar“ ósjaldan með sætindum og jönkfæði. Og kvikmyndum. Smæðartilfinningin er svo að segja gagnvart öllu í tilverunni og ekki síst þegar kemur að fjölskyldunni. Til dæmis er Stjáni stóri bróðir hans „í orðsins fyllstu, tæpir tveir metrar á hæð. Sem fyrri daginn er þó ekki fituarða á skrokknum. Þau Villa [systir hans] eru bæði […] hávaxin og grönn. Óumbeðinn hef ég tekið að mér aukakílóin, eitthvað á þriðjatuginn. (bls. 69)

Óöryggi þetta hefir auðvitað sínar uppsprettur. Skárra væri það nú. Verða þær þó ekki tíundaðar hér. Engu að síður er vert að minnast á hið augljósa, viðskilnaðinn við Alice sem „vændi […] [hann] í sífellu um skilningsleysi á stöðu kvenna“ og segir hann „sjóvinískan sjómannsson frá afskekktri eyju í Atlantshafi, alinn upp við úrsérgengin kynjahlutverk.“ (bls. 13) Hann sér einnig gríðarlegan ósigur „fólginn í að vera sá karlmaður sem veldur því að kona kýs að halla sér að eigin kyni. Nánast manndómsmissir. Álitshnekkir í öllu falli. Stórkostlegur.“ (bls. 135)

Aukinheldur er hann í fleiri en einum skilningi utangarðs. Til að mynda eru bæði Bergur faðir hans og Kristján bróðir hans sterklega vinstrisinnaðir, sérstaklega Kristján. Hafa þeir sterka pólitíska sannfæringu. Hann er meira og minna sannfæringarlaus.

Alltént er lágt á honum risið „heimkomin með allt niðrum sig.“ (bls. 53), fullur sjálfsfyrirlitningar og þeirrar skoðunar að hann eigi ekki skilið að lifa“. (bls. 99-100) Ekki finnur hann sig heldur í heimabænum:

Mér er ekki vært hérna. Andskotinn hafi það. Helgin rétt byrjuð og ég kominn með upp í kok. Meika ekki mömmu. Eða stemminguna yfirhöfuð. Nógu erfitt var að flytja úr foreldrahúsum. Fljúga úr hreiðrinu. En það virðist hálfu verra að flytja aftur heim (bls. 95)

Ekki batnar það eftir að hann hefur störf í frystihúsinu.Upphefst tíðindarlaus rútína  með rúntinum og hefðbundnu smábæjarlífi, með veðri sem veður inn á mann úr öllum áttum og „ maður [er] oftast of þreyttur fyrir sjálfsfróun eða sjónvarpsgláp. (bls. 126)

[S]taðan er þröng eftir sem áður. Hefur í sjálfu sér ekkert breyst. Vistarbundinn og átthagafjötraður aumingi, enn í foreldrahúsum. (bls. 145)

Í ofan á lag girnist hann Steindóru, konu bróður síns, og fyrirverður sig fyrir það. Er hún uppspretta kynlífsóra þar hún líkst Michelle Pfeiffer sem honum finnst afar þokkafull.

Djöfulsins aumingi er ég nú samt. Og liðónýtur bróðir. Ræð ekki við ósjálfráðan þankaganginn: ég skal taka hana ef þú klúðrar þessu, bróðir sæll. (bls. 71)

Inn í þetta ósæluríki kemur svo æskuvinkona Ágústs, María, og hefur störf í frystihúsinu með Ágústi. Hún hefir, þrátt fyrir ungan aldur, marga áfengis- og vímuefnafjöruna sopið. Er hún og ekki ókunnug hvílubrögðum. Þekkt er hún undir viðurnefninu María ekki-mey en hafði áður fengið viðurnefnið Maja almannagjá. (bls. 87)

Kostulegir karakterar sem kenna má í brjóst um

Komum við þá að einu einkenna smárra bæja svo og þessarar skáldsögu: Viðurnefni. Eða viðurnefni og hliðarsögur. Eða kannski persónulýsingar og sögur sem tengjast viðurnefnunum. Sumar hverjar af þessum hliðasögum eru kostulegar. Endurspeglast það nokkuð í viðurnefnunum sjálfum: Elías fermetri er dvergvaxinn, Halli handakriki lyktar ekki sem best, Tóti fæðingarhálfviti stígur ekki í vitið, Egill ekki-lögga þráir að vera lögga, Stritberg, faðir Ágústs stritar út í eitt, Einar allsgáði er ekki alltaf ódrukkinn og svo framvegis. Ágúst sjálfur hefir reyndar sloppið við þetta og telur það „[h]arla vel sloppið í bæ sem geymir aðhlátursefni í götu hverri.“ (bls. 101)

Margar þessara hliðarsagna eru vissulega broslegar. Þó fer betur á því að kalla þær tragikómískar. Raunar væri ekki úr vegi að slengja þeim stimpli á söguna í heild sinni þótt gagnrýnendur Kiljunnar líti fyrst og fremst á hana sem gamansögu. Ágúst er enda tragikómísk persóna. Gildir það einnig um marga aðra karaktera sögunnar. Fátt er til að mynda skemmtilegt við aumingjaskap Ágústs. Hvað þá misnotkun þótt allt þetta sé máski sett í grátbroslegan búning. Og þaðan af síður er eitthvað skondið við þessa lýsingu á því hvernig komið var fram við Tóta fæðingarhálfvita:

Það var eftir fótboltaæfingu í fimmta flokki sem ég fyrst sá hversu illa var með hann farið. Þrír strákar héldu honum háskælandi niðri meðan fjórði pissaði framan í hann. Enginn okkar hinna skarst í leikinn. Einhverjir stöldruðu við og hlógu að aðförunum og ég var einn þeirra sem litu undan og létu sig hverfa. (bls. 151)

[Innskot: Hann er átakanlega vondur þessi heimur, Gráni minn.]

Til þess að slá botninn í þetta skulum við segja að þessi saga sverji sig í ætt við vestrænar mannleysubókmenntir. Slíkar bókmenntir fjalla oftlega um karlpersónur sem skortir flestallt frumkvæði, finnst tilveran grá og eru á því að ævintýrin birtist bara í bókum og sunnudagsbíói. (bls. 193) Hann Ágúst okkar gæti þó vel verið kolbítur og risið úr öskustónni og því ef til vill engin ástæða til þess að myrða hann.