Falleg, lipur og upplýsandi

Nýlega kom út bókin Íslandsbók barnanna á vegum Iðunnar sem er hluti af Forlaginu ehf. Texti bókarinnar er eftir Margréti Tryggvadóttur og myndskreyting var unnin af Lindu Ólafsdóttur. Margrét, sem ásamt því að vera bókmenntafræðingur og fyrrverandi þingmaður, hefur áður unnið við þýðingar á barna- og unglingabókum og skrifað sínar eigin bækur. Síðast kom út eftir hana bókin Útistöður þar sem hún fer yfir veru sína og sýn á Alþingi Íslands. Linda hefur áður myndskreytt bækur eins og erlendar útgáfur af Þumalínu og Fríðu og dýrinu. Eins hefur hún myndskreytt ýmsar íslenskar barnabækur eins og Krummahöllina og Miskilinn snilling.

Íslandsbók barnanna á sér nokkuð langan aðdraganda og sitt upphaf í ferðabók fyrir börn sem Margrét var að setja saman þegar hrunið skall á. Í kjölfar þess taldi útgáfan ekki vera fjárhagslegan grundvöll fyrir útgáfu bókarinnar og vinna við hana féll niður. Eftir að Margrét lauk þingsetu varð úr að Forlagið og hún komu saman til að taka þráðinn upp á ný en horfið var frá ferðabókinni og bókin varð að Íslandsbók.

Bókin er 50 opnur, hver þeirra er í raun málverk af því sem texti hennar fjallar um. Hún er vegleg og glæsileg að sjá. Í alvöru, þegar ég opnaði pakkan sem bókin barst mér í þá tók ég andköf. Þessi bók er yndisleg útlits. Hún er prentuð á þykkan pappír og bundin á hátt sem þolir misgóðar flettingar smárra fingra.

Textinn er lipur og sneisafullur af upplýsingum. Honum tekst vel að halda athygli og vekja áhuga á hverju umfjöllunarefni. Strákarnir mínir fjögurra og sjö ára gamlir eru heillaðir af kúluskít núna og alveg sérstaklega að eitthvað svona sjaldgæft sé að finna á Íslandi (vil taka fram að þar sem orðið skítur er ekki eitthvað sem er í notkun á mínu ameríska heimili þá þekkja þeir ekki það orð og þar af leiðandi ekki það sem vekur áhuga þeirra). Umfjöllunarefnin eru mörg hér og ná yfir mikið af því sem einkennir Ísland. Við skoðum spendýr landsins á einni opnu og svo norðurljós á annarri. Uppáhaldsopnan þeirra er þó sú um íslensku og svo Íslendinga. Sú seinni opnast og eru því heilar fjórar blaðsíður um landsmenn.

Þar sem strákarnir mínir hafa alist upp í amerísku heimili með enskumælandi móður og eldri bræðrum þá er enska þeirra tungumál þó þeir skilji íslensku ágætlega. Þar af leiðandi er fullt af orðum í svona bók sem er ekki að finna í íslenskum orðaforða þeirra. Sú er raunin einfaldlega vegna þess að þau eru ekki í daglegri notkun við daglegar athafnir á venjulegu heimili og þeir lifa ekki við íslenskuna í loftinu þar sem ég er sá eini sem þeir heyra tala málið. Vegna þess er ekkert alltaf hlaupið að því að fá þá til að hlusta á mig lesa fyrir þá flóknar íslenskar bækur. Þeir mótmæltu því talsvert þegar ég hóf lestur á Íslandsbók fyrir þá. En, þar sem textinn er svo skilvirkur þá breyttist fljótt í þeim hljóðið og núna biðja þeir mig að lesa úr henni fyrir sig. Þegar ég les eitthvað sem þeir skilja ekki spyrja þeir hvað það er og eftir útskýringar og stundum samræður um umfjöllunarefnið höldum við áfram.

Þarna hjálpa myndskreytingarnar líka. Eins og ég hef sagt áður þá eru myndirnar sem er að finna á hverri opnu í raun málverk og hvert öðru glæsilegra. Lindu hefur tekist að fanga landið, flóru þess og fánu mjög vel. Grunnur menningar okkur kemst einnig vel til skila í gegnum myndirnar. Þetta er vel af sér vikið hjá Lindu. 

Íslandsbók barnanna er framúrskarandi bók um Ísland fyrir börn og fjölskyldur. Hvort sem litið er til textans eða myndskreytingar þá get ég ekki ímyndað mér að það hefði verið hægt að vinna þessa bók betur. Þetta er einstaklega eigulegur gripur og sæmir sér vel á hillu og enn betur í höndunum á litlu fólki.