Mynd fengin héðan (cc): http://bit.ly/2eFi0OT
Þýðing: Sigurður Arent Jónsson

Án himins

Það var enginn himinn yfir þorpinu okkar. Þess vegna fórum við inn í borgina hinum megin við ána til að horfa á tunglið og fuglana. Borgarbúar voru ekkert sérlega sáttir við okkur en okkur var þó ekki bannað að koma. Á einni hæðinni, þar sem fyrir var steinhlaðin kirkja, reistu þeir meira að segja útsýnispall. Þeir gerðu ráð fyrir að við værum óreglufólk og því var komið þarna fyrir litlum bar og lítilli varðstöð fyrir lögregluþjón, ásamt bekkjum og útsýniskíki.

Ég gat skilið borgarbúa. Þeir höfðu þjáðst mikið vegna reiði og öfundsýki aðkomumanna. Og þó svo að það væri móðgandi að þeim þættu við – nágrannar þeirra, nánast borgarbúar sjálf – vera boðflennur, þá höfðum við skilning á því. Þegar allt kemur til alls var okkur sýndur skilningur. Þeir boluðu okkur ekki í burtu. Það skipti ekki máli hversu óvægin umræðan var á netinu, okkur var ekki vísað í burtu.

Satt að segja vissu allir að það var ekki okkur að kenna að við hefðum engan himinn. Þvert á móti var það í vissum skilningi mikil upphafning fyrir okkur. Flotaforingjar hernaðarveldanna fjögurra höfðu valið himininn okkar fyrir úrslitaorustuna vegna þess að himininn fyrir ofan þorpið var sá besti í heimi: skýlaus og lygn. Sólin leið um himininn líkt og víðáttumikið og friðsælt fljót. Ég man svo vel eftir sólinni og himninum. Foringjarnir töldu staðinn fullkominn fyrir lokaorustuna. Það kom ekki á óvart. Þetta var þegar allir herir voru flugherir og hér var aldrei skýjað og aldrei nein ókyrrð í lofti. Þetta var fullkomið.

Þetta var fyrsta ólínulega stríðið. Í frumstæðum stríðsátökum 19., 20. og annarra miðalda tókust á tvær hliðar: tvær þjóðir eða tvö tímabundin bandalög. En hér skullu saman fjögur bandalög og nú voru það ekki tvö á móti tveimur eða þrjú á móti einu. Nú voru allir á móti öllum.

Og þvílík bandalög! Þau voru ekki eins og gömlu bandalögin. Nú var það sjaldnast sem ríki gengu til liðs við eitthvað bandalag í heilu lagi. Það sem gerðist var að sum svæði héldu með einni hlið, önnur annarri, og einhver borg, kynslóð eða kyn, eða þjóðfélagshópur, hélt með þeirri þriðju. Og allir voru allt eins líklegir til að skipta yfir í annað bandalag, jafnvel í miðjum átökum.

Ætlunarverk þeirra sem tókust á voru af ýmsum toga. Hver hlið hafði sitt eigið markmið, þannig séð: að leggja undir sig umdeild svæði; að innleiða ný trúarbrögð; hagstæðari vexti og betra lánshæfismat; að prófa nýjan hergeisla eða flugvél; að leggja bann við aðgreiningu fólks eftir líffræðilegu kyni (þar sem kynferðisleg aðgreining grefur undan einingu þjóðarinnar); og svo framvegis.

Einfeldnislegir foringjar fyrri tíma vildu sigur. Nú höguðu þeir sér ekki svo heimskulega. Auðvitað héldu sumir fast í gamla siði og reyndu að grafa upp úr skjalasöfnunum gömul slagorð á borð við: Sigurinn er okkar! Sumstaðar virkaði það, en í grunninn var nú almennur skilningur á því að stríð væri atburðarrás, nánar tiltekið hluti stærri atburðarrásar, akút fasi hennar en kannski ekki sá mikilvægasti.

Sumar þjóðir fóru í stríð til að tapa. Þessar þjóðir sáu hvernig Þjóðverjar og Frakkar risu úr ösku annarrar heimsstyrjaldar. Það reyndist þó jafn erfitt að bíða lægri hlut og að knýja fram sigur. Ákveðni, fórnfýsi og undraverða samhæfni allra krafta þurfti til, jafnt sem sveigjanleika, kaldlyndi og þann eiginleika að geta haglega nýtt sér eigið kjark- og athafnaleysi. En allt þetta var útskýrt og skilgreint af seinni tíma sagnfræðingum og hagfræðingum – í þá daga var þetta bara stríð. Fimmta heimsstyrjöldin og sú harla óhugnanleg. Ég var sex ára. Við vorum öll sex ára eða yngri, við sem nú göngum til liðs við Samtökin. Við munum eftir því hvernig herflotarnir fjórir steyptust niður frá öllum hliðum. Þetta voru ekki hvínandi, rymjandi og drynjandi loftför af gamla taginu eins og við höfðum höfðum vanist af gömlum myndskeiðum. Í fyrsta sinn var ný tækni notuð, fullkomlega hljóðlát, með einhverri hulinni hljóðeinangrun til að lækka hávaðann niður í bókstaflega ekki neitt.

Hundrað þúsund flugvélar, þyrlur og þotur rústuðu hver annarri allan liðlangan daginn í dauðaþögn. Jafnvel þegar þær féllu til jarðar heyrðist ekkert. Einstaka sinnum heyrðust öskrin í feigum flugstjóra en það gerðist mjög sjaldan þar sem nánast allar vélarnar voru mannlausar. Á þessum tíma var sjálfvirkni að ryðja sér til rúms og ekki bara í farartækjum. Kynnt voru til sögunnar starfsmannalaus gistirými og verslanir, heimili án húsbónda, fjármálastofnanir og iðnfyrirtæki án forstjóra. Jafnvel tvær ríkisstjórnir „án flugmanna“ voru skipulagðar í kjölfar lýðræðislegra byltinga svo mannlausar flugvélar voru ekkert til að tala um.

Þetta þýddi að það var enginn til að reka upp öskur á leiðinni niður í gegnum þök, brýr og minnisvarða. Einu hljóðin komu frá húsunum okkar þegar þau brotnuðu undan þunga hrynjandi braksins. En ekki einu sinni það skapaði mikinn hávaða, hljóðeinangrunartæknin náði yfir nánast allan vígvöllinn.

Foreldrar okkar leituðu til borgarinnar í von um að geta komið okkur í skjól. Uppi yfir borginni var himininn heiðblár, en borgarbúar lokuðu á okkur. Foreldrar okkar grátbáðu um hjálp frá hinum bakkanum. Þau sárbændu um að þeir tækju að minnsta kosti börnin, alla vega þau sem voru yngri en tíu ára, eða sjö, eða þriggja. Eða eins árs og yngri. Eða bara stúlkubörnin. Og svo framvegis. Borgarbúar opnuðu ekki borgarhliðin og við börnin gátum sýnt því skilning. Við skildum foreldra okkar að sjálfsögðu líka, að meðtöldum mínum eigin.

Faðir minn sagði: Þeir munu ekki hleypa okkur inn. Við verðum að grafa okkur niður. Við grófum okkur niður í sendinn árbakkann á svipstundu að því er virtist. Það gerðum við öll, jafnvel þau feitustu okkar og gamla fólkið líka. Fólk þekkir ekki mjög vel inn á sig sjálft. Það kann að virðast undarlegt en í raun erum við miklu liðugri og skynsamari en ormar. Eitt atriði: það var vetur. Frost. Sandurinn var glerharður.

Mamma og pabbi grófu sig niður með mér. Þau voru mjúk og hlý. Pabbi, hugrakkur og snjall maður, tók með sér nokkuð af uppáhaldsnamminu mínum úr húsinu, fullan vasa. Og mamma tók litlu leikjatölvuna mína. Með hana í hönd var ég ánægður og leiddist ekki í gjótunni okkar svo ég gat drepið tímann í góðu tómi. Stél af flugvél hrapaði á okkur að kvöldlagi.

Orustuþotur Norðurbandalagsins voru ofurléttar, gerðar úr nánast þyngdarlausu efni. Þó svo að ein þessara véla myndi hrapa á okkur í heilu lagi, öll flugvélin, þá hefði það ekki verið svo hættulegt. Og pabbi hafði grafið okkur mjög djúpt.

Staðurinn sem við höfðum falið okkur á dró nú að sér aðra flugvél. Því miður var það herflugvél Suðausturbandalagsins, eldri vél, nokkuð hljóðlát en þung. Grenið okkar var djúpt en ekki jafndjúpt og stélið var massíft. Sandurinn ofan við okkur var frosinn í gegn en það gilti einu. Þetta var bara sandur, ekki steypa, ekki stál, ekki herðasjal Maríu meyjar: sandur. Og sandur er ekki stál. Það lærði ég þarna í eitt skipti fyrir öll. Og allt fram á daginn í dag vakna ég um miðjar nætur og spyr mig: er sandur stál eða ekki? Ég svara: Nei! Flýttu þér, ekki stoppa til að hugsa, ekki efast. Nei.

Ég lá milli mömmu og pabba og heyrði ekki skellinn. Það er mögulegt að pabbi hafi gefið frá sér kynlegt kvakhljóð þegar hann kramdist undir farginu eða kannski hann hafi blótað hressilega. Á einum tímapunkti hreytti hann einhverju framan í mig og hræddi mig. Það er líka mögulegt að mamma hafi gefið frá sér einhverskonar hljóð en ég er ekki viss. Ég er ekki einu sinni viss um að henni hafi gefist tími til að kíma, líkt og þegar henni stökk bros ef eitthvað neyðarlegt kom fyrir mig eða pabba. Ég vona að þetta hafi ekki verið sársaukafullt.

Þau drápust. Ekki ég. Dauðinn hringaði sig um líkama þeirra en komst ekki að mínum. Svört og þrúgandi nærvera hans rétt gældi við heilann í mér. Eitthvað vall upp úr heilanum og gufaði upp: þriðja víddin, hæð.

Þegar þeir grófu mig upp næsta morgun, kaldan inn að beini því lík foreldra minna kólnuðu hratt og voru orðin eins og sandurinn, sá ég tvívíða veröld, óendanlega langa og breiða en án hæðar og dýptar. Án himins. Hvar er hann, spurði ég? Hann er þarna, svöruðu þeir. Ég sé hann ekki, ég sé hann ekki! Ég varð hræddur.

Þeir tóku mig í meðferð en hún læknaði mig ekki. Svona alvarlega bæklun er ekki hægt að lækna. Stél flugvélarinnar hafði marið vitund mína og flatt hana út eins og pönnuköku. Hún varð flöt og einföld. Hvað sé ég yfir þorpinu í stað himinsins? Ekkert. Hvernig lítur það út? Hverju líkist það. Það lítur ekki út eins og neitt, líkist engu. Ekki þannig að það sé ekki hægt að útskýra það með einhverjum hætti, óútskýranlegt. Þetta var ekkert þannig. Það er bara ekki neitt.

Eftir stríðið voru um fimmtíu aðrir sjúklingar eins og ég. Öll okkar, tvívíðungarnir, reyndust vera jafngömul. Af hverju? Það vissi enginn. Vísindamennirnir í borginni grófust fyrir í vitund okkar um tíma. Þeir skrifuðu ritgerðir. Þeir drógu okkur á málþing og pallborðsumræður. Þónokkrar stofnanir voru settar á fót fyrir okkar hönd. Sérstök lög voru sett sem bönnuðu fólki að stríða okkur. Þeir byggðu útsýnispall fyrir okkur og stofnuðu góðgerðasamtök. Svo dvínaði áhuginn og við gleymdumst.

Ef það væri bara svo að við sæjum ekki himininn fyrir ofan þorpið, þá væri það ekki svo slæmt, en sjálf hugmyndin um hæð var afmáð úr hugsunum okkar. Við vorum orðin tvívíð. Við skildum aðeins já og nei, aðeins svart og hvítt. Það var ekkert pláss fyrir margræðni, enga gráa tóna, engin faðirvor. Við kunnum ekki að segja ósatt.

Við tókum öllu bókstaflega sem þýddi að við vorum alls ekki tilbúin undir lífið, hjálparlaus. Við þurftum stöðuga umhyggju en þeir yfirgáfu okkur. Þeir leyfðu okkur ekki einu sinni að vinna. Þeir greiddu okkur ekki örorkubætur. Mörgum okkar hrakaði, margir létust og féllu í gleymskunnar dá. Við hin komum skipulagi á hópinn til þess að framfleyta okkur, til að standa og falla í sameiningu. Við stofnuðum Samtökin og undirbjuggum byltingu þess einfalda á móti því flókna og margslungna, gegn þeim sem svöruðu ekki bara já eða nei, þeim sem sögðu ekki bara hvítt eða svart, þeim sem höfðu eitthvað þriðja orð, mörg, mörg orð, tóm, blekkjandi, ruglandi í rýminu. Gegn þeim sem afbaka sannleikann. Í þessum skuggum og köngulóarvefjum, í þessu falska flækjustigi, felur sig öll illska heimsins og fjölgar sér. Þetta er Hús Satans. Þar framleiða þeir sprengjur og peninga, segjandi: Hér er peningur í hag þeirra heiðarlegu; hér eru sprengjur til varnar ástinni.

Við komum á morgun. Við munum sigra eða farast.

Það er engin önnur leið.

Vladislav Surkov er rússneskur kaupsýslu- og stjórnmálamaður af téténskum ættum sem hefur verið kallaður „helsti hugmyndafræðingur Vladimírs Pútín“. Þegar Barack Obama lét frysta eigur hans í Bandaríkjunum og meina honum aðgöngu að landinu svaraði Surkov: „Ég þarfnast einskis frá Bandaríkjunum nema Tupac Shakur, Jackson Pollock og Allen Ginsberg. Og ég þarf ekki vegabréfsáritun til að njóta verka þeirra.“

Sigurður Arent Jónsson þýddi úr ensku