Brogan Davis og Olga Sonja Thorarensen. Mynd: spectacular.is

Af leikhúsi og leikhúsmisnotkun

Um sýningarnar Still Standing You og Stripp á Everybody´s Spectacular

Á sviðinu situr kona.

„Þetta er Olga. Hún Olga, vill að þú vitir að þú megir horfa á hana,“ segir hin konan á sviðinu.

Nokkurn veginn þannig byrjar sýningin Stripp, heimildarleikhús sem fjallar um þriggja mánaða reynslu íslenskrar leikkonu af nektardansi í Berlín og leikhúsmisnotkun.

Það væri ekki fjarri lagi að segja að þetta leyfi, þetta leyfi fyrir áhorfi sé grundvöllur allra sviðslista. Að minnsta kosti byrjar Peter Brook bók sína um tóma rýmið á þeim orðum að leiklist sé þegar einhver horfi á einhvern annan fara yfir einhvers konar tómt rými. Það er grundvöllurinn, manneskja í rými og manneskja sem er að fylgjast með manneskjunni í þessu rými.

Fullyrðingin að Olgu finnist í góðu lagi að við horfum á hana felur í sér að það væri mögulega ekki í lagi. Að þetta leikhús og fólkið inni í því sé að taka þátt í einhverju frekar vafasömu. Eins og að horfa á unga stúlku í fjárhagslegum örðugleikum fækka fötum.

Eiginlega allar sviðslistir fela í sér einhvers konar niðurlægingu og fórnir. Að horfa á ballett t.d. er að horfa á afrakstur margra áratuga þjáningar, sjálfspyntingar og jafnvel andlegs niðurrifs. Leikaranám er heldur ekki gott fyrir andlega geðheilsu, enda hæfa sviðslistir eiginlega engum nema þeim sem ekki hefur annarra kosta völ. Getur bókstaflega ekki hugsað sér að gera neitt annað.

Sagan sem Olga segir af því hvernig hún endaði á því að strippa dregur athygli að þessu atriði. Þetta er saga um unga leikkonu sem reynir fyrir sér við stærsta samtímaleikhús Evrópu og vinnur launalaust fyrir frægan leikhóp í von um að fá annað og stærra tækifæri í framhaldinu. En afleiðingarnar af skuldsetningu og í raun niðurlægjandi ferli þar sem leikkonunni er úthlutað þöglu hlutverki, þar sem henni er viðstöðulaust „nauðgað“ (sviðsnauðgað auðvitað, trúðarnir sem nauðga henni á sviðinu eru að sjálfsögðu leikarar), eru ekki þær að frægðarsól hennar rísi eða að hún hljóti verðskuldaðar þakkir leikstjórans.

Ég hafði fyrir stuttu séð leiksýninguna PlayRape eftir Önnu Paavilainen sem lýsir reynslu leikkonunnar af því að vera ítrekað úthlutað valdlitlum fórnarlambshlutverkum, og því hvernig hún fékk nóg af því að liggja á bakinu og stara upp í loft finnska þjóðleikhússins meðan sviðsnauðgun fór fram. Frásögn Olgu af leikhópnum SIGNA minnti mig svolítið á ræðu Önnu um fórnarlambsvæðingu leikkvenna í klassísku leikhúsi, samtímaleikhúsið virtist því miður ekki koma það vel út í samanburði, miðað við það sem maður ætti kannski að vona.

Strippstaðurinn virðist frekar koma vel úr slíkum samanburði. Og samkvæmt skilgreiningu Brook mætti færa rök fyrir því að hann teljist líka til leikhúss, þótt ég viti ekki hvort hann setji hann í flokk leikhúss hins fátæka, hins heilaga, hins skaðlega eða hráa og skyndilega. En í viðtali við visir.is talar Olga um valdeflingu, samstöðu kvenna og líkamann sem einkaeign.

Þegar maður les viðtalið fyrst á maður kannski von á að Stripp verði saga um hvernig erótískur dans sé af hinu góða, jafnvel að leiksýningin taki upp varnir fyrir kynlífsiðnaðinn þvert á meginstraum íslenskrar umræðu.

Svo er ekki. A.m.k. finnst mér eins og maður væri að fiska eftir afstöðu sem ekki er til staðar. Enda er þriggja mánaða reynsla einnar manneskju kannski ekki mjög þung á vogarskálum hundruð-þúsund rannsókna, bóka, stjórnmálahreyfinga og fjölmiðlaumræðu. Stripp er ekki málsvörn fyrir vændi og nektardans, en heldur ekki fordæming. Bara frásögn sem nær hæstum hæðum í sögunni um steggjapartýið sem kemur með dverg í eftirdragi og nektardansmeyna sem getur ekki annað en vorkennt handjárnuðum dvergnum fyrir auðmýkinguna sem felst í því að hún dansi fyrir hann og stegginn.

Mynd: spectacular.is

Mynd: spectacular.is

Önnur sýning á Everybody´s Spectacular sem má segja að hafi vakið spurningar um hvað sé í lagi að horfa á var Still Standing You. Þar var belgísk-portúgalskt samtímadansdúó, tveir karlar en ekki tvær konur eins og í Stripp, sem nánast orðlaust misþyrmdu og niðurlægðu hvor annan stanslaust í rúma klukkustund.

Þegar þeir börðu hvor annan eða sneru upp á kynfæri hvors annars gat ég ekki annað en litið undan, fyllst klígjukennd og þegar þeir börðu hvor annan með beltum gat ég ekki annað en fundið höggin á mínum eigin líkama. Við bættist tilhugsunin um að mennirnir hefðu gert þetta í rúm sex ár á flakki milli danshátíða.

En ég hló. Mér var skemmt þegar nærbuxur slengdust framan í Alexander Roberts, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar. Mér var skemmt þegar Guilherne sat upp á Pieter sem stundi undan þunganum meðan Gui spjallaði í makindum við áhorfendur. Og þótt ég viti ekki einlæglega hvað mér á að finnast um verkið, var það mjög líkamlega sterk upplifun og eftirminnilegt.

Stundum er gaman að sjá fólk detta. Og auðmýkt. Viðurkennum það bara, við gætum horft aftur og aftur á fólk detta á hjólabrettum eða slengjast utan í vegg. Og nekt líka, hún selur af einhverri ástæðu.

En hvar á að draga mörkin? Það er kannski spurningin sem Stripp og Still Standing You spyrja okkur að á ólíkan máta. Ég veit það ekki. Sennilega hefur hið meðvitaða, borgaralega leikhús dagsins í dag önnur og siðprúðari mörk heldur en kabúkí-leikhús sextándu aldar Japans þar sem performerar eru til sölu og þjónustu eftir á. Eða sautjándu aldar Commedia dell´arte götuleikhóp sem býður upp á svipaða þjónustu ef þú bara vogar þér að spyrja Harlequin hvar, hvenær og hversu mikið eftir á. Það eru vissar sögulegar ástæður fyrir því að rauð hverfi og leikhús eru oft saman, en líka vissar sögulegar og efnahagslegar ástæður fyrir því að þau eru að fjarlægjast landafræðilega og skipulagsfræðilega líka. Það er eitt að horfa á nekt inn á Volksbühne og annað að horfa á hana inn á strippbúllu. Og þegar Pieter Ampe fretar framan í vin sinn Guilherne þá er það list, performans, en ekki bara tveir ræsisrónar að ganga í skrokk á hvor öðrum fyrir pening, áfengi, eða pening fyrir áfengi.

En niðurstaðan er kannski ekki svo ólík.