Varðandi greinina Til minningar um Mary

Eftir að hafa lesið grein Kristins Sigurðar Sigurðssonar, Til minningar um Mary, sem birt er á vefnum Starafugli teljum við ekki annað við hæfi, fyrir hönd samstarfsmanna okkar er stóðu að, sömdu og fluttu leikverkið Zombíljóðin í Borgarleikhúsinu, en að leiðrétta eina rangfærslu í grein Kristins. Hann vekur máls á því að til þess að koma Zombíljóðunum á svið hafi höfundar sýningarinnar neyðst til að leika einhvers konar skollaleik við þáverandi Borgarleikhússtjóra. Sú fullyrðing sem Kristinn heldur fram í greininni að Borgarleikhússtjóri hafi reynt á einhvern hátt að ritskoða sýninguna er röng. Í öllum sýningum Mindgroup í Borgarleikhúsinu höfum við haft fullt frelsi til að gera það sem okkur sýnist. Við höfum hins vegar hvatt samstarfsfólk okkar í Borgarleikhúsinu til samtals um verk okkar á meðan þau eru í vinnslu og oft hefur verið tekist hart á um bæði innihald og sviðsetningu þeirra. Það er hins vegar svo að við höfum ávallt haft fullt ákvörðunarvald til að fylgja eigin sannfæringu. Það er okkur afar mikilvægt að koma þessari staðreynd á framfæri. VIð höfum aldrei hvikað frá sannfæringu okkar né gengið erinda annara en okkar sjálfra. Né verið reynt fá okkur til hvika frá sannfæringu okkar. Og allra síst af þáverandi Borgarleikhússtjóra.

Fyrir hönd Mindgroup,
Jón Atli Jónasson og Jón Páll Eyjólfsson.