Til minningar um Mary

Eftirágagnrýni um Mary Poppins

„En oftast langaði mig þó aðallega til að hengja mig, því að allur hversdagslegur raunveruleiki minn einkenndist af andleysi. Ég og ófáir aðrir vorum búin að missa trúna á samfélaginu. Fólk var ekki einu sinni sérstaklega reitt lengur. Það er erfitt að eiga auka orku í að vera reiður þegar maður vinnur að lágmarki ellefu tíma á dag til að eiga fyrir láninu og nokkrum hamborgurum í Bónus. “

Það er enginn menningarumfjöllun á Íslandi. Þar af leiðandi engin krítík.
Ekki nema bara fréttatilkynningar.
Auglýsingabæklingar.
Í slíkum heimi fá hlutirnir aldrei aðra merkingu en þeir bera á auglýsingapósternum.

Umbúðir og drasl

Það er ekki hefð fyrir pólitísku leikhúsi á Íslandi. Stundum hefur verið reynt. Það er ekki hefð fyrir pólitísku leikhúsi á Íslandi. Það sem kallað hefur verið pólitískt leikhús á Íslandi hefur aldrei haft áhorf eða athygli fjölda og þar af leiðandi aldrei haft hreyfiafl. Stundum eru reyndar settar upp sýningar með þeim merkimiða á auglýsingapósternum. Pólitískt leikhús. Þá mætir það fólk í leikhúsið sem gefur sig út fyrir að fíla svoleiðis. Það mætir og líður vel þegar fyrirfram gefin heimsmynd þeirra birtist á sviðinu. „Jájá. Börnin í Bíafra. Svona er ég nú vel gefinn og pólitískt þenkjandi.“ Hugsa leikhúsgestirnir og heilsa hver öðrum, hinum vel gefnu og velþenkjandi kumpánum sínum sem fóru á pólitísku leiksýninguna á áskriftarkortinu. Pólitísku sýninguna sem gerir ekkert til að ögra fyrirframgefnum skoðunum þeirra. Við viljum list sem styrkir heimsmynd okkar. Sjálfsmynd okkar. Stundum held ég að það sé ekki endilega skorturinn á pólitísku leikhúsi sem sé vandamálið, heldur frekar skorturinn á umfjöllun (um það). Um leikhús yfir höfuð. Jú, Reykvélin, jú ok. En hún er rekin af leikhúsfólkinu sjálfu. Það gagnrýnir sig ekki sjálft.

Það er umfjöllun sem breytir listviðburð í hreyfiafl. Við erum ekki vön að tjá okkur um það sem við sjáum í leikhúsinu. Ef við gerum það byrjar það á afsökun.

„Ég er náttúrlega ekki dómbær á svona … en mér fannst þetta hinsvegar…“
„Ég hef náttúrlega ekkert vit á þessu …“
„… Þetta var nú gaman.“
„Þau stóðu sig vel.“

Við pössum okkur umfram allt að tala ekki um það sem við sáum. Nei. Því það að tala um það sem maður sá gæti móðgað einhvern. Jafnvel, enn verra, maður gæti hafa verið að misskilja. Þess vegna pössum við okkur á því að endurtaka það sem stóð í leikskránni ef við erum svo óheppin að vera spurð að því hvað við höfum séð.

Leikhúsárið í stóru leikhúsunum er skipulagt með það í huga, að þú þurfir ekki að rekast á týpur, þjóðfélagshópa, eða manneskjur, sem þér er illa við eða hræðist. Það er hannað til að koma í veg fyrir að þú þurfir að velja. Sýningarnar eru merktar litum og pósterum sem höfða til mismunandi þjóðfélagsshópa svo þú þurfir ekki að lenda í því að sitja í leikhúsi við hliðina á flíspeysuklæddum úthverfalýð eða asnalega klæddum hipsterum.

Ástæðan fyrir því að þessi aðskilnaðarstefna birtist einungis innan leikhúsanna en ekki annarra íslenskra menningarstofnana er sú að leikhúsin eru einu menningarstofnanir landsins sem á annað borð (þó) bera sig eftir því að fá fleira fólk inn um dyrnar en þessar örfáu hræður sem hlusta á Rás 1.

Íslenskar menningarstofnanir eru almennt fyrir suma. Nema leikhúsin, þau eru líka fyrir úthverfaplebbana. Síðan leikhúsin tóku upp á því að bjóða úthverfaplebbana velkomna hefur sú stefna reyndar mætt töluverðri mótspyrnu innan leikhússins sjálfs. Er þá ævinlega talað um markaðsleikhús í niðrandi merkingu. Leikhúsinu finnst það fyrir neðan sína virðingu að plebbar úr Grafarvoginum sem viti ekki hvað afbygging er fái að vera með.

Ástæðan fyrir skorti á íslenskri menningarumfjöllun er því í grunninn sú að hún er óþörf. Það er ekkert sem þarf að diskútera. Þegar fólk fer að diskútera gæti komið í ljós að það sé ósammála. Það getur verið hættulegt. Passar ekki við kommaso. Við erum öll í sama liðinu. Promote Iceland. Svo er ljósamaðurinn líka að deita frænku mína og er voða næs gaur.

Umbúðir.

Meðvirkni.

Allaveganna. Þetta er eftiráleikdómur um uppsetningu Borgarleikhússins á Mary Poppins og ég ætla að gefa sýningunni fimm stjörnur.

Rétturinn til að andmæla

Á skrifstofu fasistaflokksins er lítill kassi þar sem hægt er að skila inn athugasemdum og andmælum. Á mánaðarfresti er kassinn tæmdur og bréfunum hent í ruslið. Það gefur fólkinu ákveðna sálarró að vita af kassanum. Jafnvel þó það viti vel að bréfunum sé hent í ruslið. Alltof oft þjónar pólitísk listsköpun hlutverki kassans.

Alltof oft.

Það er ekki hægt að rökræða við fangaverðina. Það er ekki hægt að rökræða við fasismann. Fasismi er ekki misskilningur sem hægt er að vinda ofan af með samræðu. Hann bara er. Þú ert valdalaus og það er ekkert sem þú getur gert annað en að flýja raunveruleikann.

Það er ekkert listaverk sem ég hef séð, sem hefur fangað þennan sannleik jafn innilega og jafn fallega og meistaraverk Roberto Benigni, La vita é bella. Þegar aðalpersóna myndarinnar, Guido, er sendur í fangabúðir nasista ásamt fimm ára gömlum syni sínum veit hann að eina von þeirra er fólgin í lyginni. Hér hefur það ekkert upp á sig að berjast á móti raunveruleikanum. Flóttinn frá helvíti er hafinn yfir röklegt samhengi hlutanna.

Mary Poppins

Aðeins um frammistöðu leikara. Hallgrímur Ólafsson var stórkostlegur. Þórir Sæmundsson var stórkostlegur. Thedór Júlíusson var frábær. Samleikur Sigrúnar Eddu Björnsdóttur og Sigurðar Þórs Óskarssonar var yndislegur. Margrét Eir var frábær og röddin hennar risastór. Esther Talía Casey og Halldór Gylfason voru frábærir og sympatískir foreldrar í hversdagsvandræðum. Guðjón Davíð Karlsson hafði alltaf farið í taugarnar á mér sem leikari, þangað til ég sá hann í Mary Poppins. Vá, djöfullinn var hann frábær. Sjarmerandi, hlýr og empatískur.

Og Jóhanna Vigdís sem Mary Poppins. Stórkostleg.

Takk.

Jú. Og hljómsveitin var frábær. Dansararnir frábærir. Það voru allir frábærir.

Þetta virkaði. Mér leið eins og ég væri átta ára og Mary Poppins væri uppáhaldið mitt best í heimi.

Hommagrín sem pólitískt hreyfiafl?

Hvar vorum við stödd.

Pólitískt leikhús.

Já. Samfélag þar sem það þykir til merkis um pólitískt andóf að setja upp leikrit með hommabröndurum um Hannes Hólmstein, pólitíska fuglahræðu. „Sáuði hvernig ég tók hann?“ samfélag þar sem Mindgroup skapaði verkið Góðir Íslendingar, þar sem pönslínan er að „Íslendingurinn sé eins og ódýr mella, finnist gott að láta taka sig í rassgatið.“

Ísland – þar sem pólitískt leikhús snýst annaðhvort um hommagrín eða að innprenta fólkinu þeirri hugsun að það eigi kúgara sína skilið. Að annaðhvort hlæja að þrælunum eða birta þeim þau skilaboð að breytingar komi innanfrá og séu best til þess fallnar að vera framkvæmdar án átaka.

Zombíljóðin

En Zombíljóðin voru hinsvegar frábær. Kannski fyrsta íslenska leikhúsuppsetningin (eftir hrun) sem tókst að vera raunhæft viðbragð við einhverjum veruleika. Eina uppsetningin sem var ekki afneitun á skít. Í eðlilegra og þroskaðra leikhúsumhverfi hefðu Zombíljóðin átt að vera Mary Poppins-ígildi með 100.000 áhorfendur. Í Zombíljóðunum var brugðið upp mynd sem var jafn hrollvekjandi og tilefni var til. Galli Zombíljóðanna var hinsvegar sá að þau voru of raunveruleg. Of raunveruleg fyrir þáverandi Borgarleikhússtjóra. Sem þýddi að loksins þegar verkið var sett upp eftir að hópurinn hafði komið sér undan ritskoðunartilburðum leikhússtjórans mætti enginn í leikhúsið að sjá verkið. Zombíljóðin voru of raunveruleg fyrir hlustendur Rásar 1, voru of raunveruleg fyrir íslenska kúltúrstétt. Þau mættu ekki. Fannst sýning dónaskapur. Zombíljóðin voru falleg analýsa, unnin af ást og virðingu fyrir viðfangsefninu. Það sem Zombíljóðin hinsvegar helst skorti var stærra svið. Stærra gjallarhorn. Metnaðarfyllri markaðsdeild.

(Hérna ætti ég ábyggilega að minnast á Vesalingana. Kannski líka Heimsljós. En ég missti af Vesalingunum og skilst að ég hafi verið sá eini sem sá Heimsljós án þess að drepast úr leiðindum. Þannig sleppum því. Og Tyrfingur kom seinna.)

Vonin um eitthvað annað

En oftast langaði mig þó aðallega til að hengja mig, því að allur hversdagslegur raunveruleiki minn einkenndist af andleysi. Ég og ófáir aðrir vorum búin að missa trúna á samfélaginu. Fólk var ekki einu sinni sérstaklega reitt lengur. Það er erfitt að eiga auka orku í að vera reiður þegar maður vinnur að lágmarki ellefu tíma á dag til að eiga fyrir láninu og nokkrum hamborgurum í Bónus.

Kolbrún Björt SigfúsdóttirReykvélin

Það var í þessu andrúmslofti, sem Kolbrún Björt lýsti svo vel, sem Mary Poppins var frumsýnd. Þegar Mary Poppins var frumsýnd var ekki enn búið að koma þessu ástandi í orð – Ísland hafði ekki enn verið úrskurðað ónýtt. Gunnar Smári hafði ekki enn stofnað Fylkisflokkinn. Hafi Zombíljóðin verið realísk analýsa á íslenskum veruleika þá var Mary Poppins rökrétt framhald. Vonin um eitthvað annað.

Ég held það sé bull að það sé hægt að selja fólki hvað sem er. Það er ekki hægt að selja fólki hvað sem er, allaveganna ekki subjektíft apparat eins og listviðburð nema það tengi við hann. Hvað þá söngleik. Það dettur engum heilbrigðum einstakingi í hug að borga 5000 kall til að sitja undir söngleik í 3 klukkutíma nema viðkomandi hafi til þess væntingar að söngleiknum takist að glæða aðeins í sálarlífi. Það skiptir ekki máli þó þú sért með bestu markaðsdeildina. Þú nærð ekki að plata 100 þúsund manns í leikhús með markaðsdeildinni einni saman. Til þess þarftu að búa til eitthvað stórkostlegt. Risastóran hóp fólks með team spirit og hæfileika, uppáþrengjandi og hæfileikaríka markaðsdeild – og innihald. Og innihaldið? Hreyfiafl. Mary Poppins skrifar ekki andmælabréf, beygir sig ekki undir rökrétt samhengi hlutanna. Hún er göldróttur hryðjuverkamaður. Hryðjuverkamaður. Fallegur hryðjuverkamaður.

– Það væri hægt að færa rök fyrir hinu gagnstæða. Að Mary Poppins Borgarleikhússins hafi verið af hinu illa. Peningavél. Sykur til að hjálpa fólki að kyngja. Múgsefjandi spektakúl. Jújú, kannski. Það má alveg. En hún var þá allaveganna spektakúl á sama hátt og leikurinn sem Guido bjó til fyrir son sinn í fangabúðunum var spektakúl.

Ég er frekar neikvæður maður að eðlisfari. Finnst hlutirnir sem boðið er upp á í nafni listarinnar yfirleitt vera óttalegt drasl. En maður á að hrósa því sem er vel gert. Og Mary Poppins Borgarleikhússins. Hún var frábær. Að búa til lynchískt gesamtkunstwerk með hundrað manna áhöfn sem höfðar bæði til pólitíska andófsmannsins í sjálfum mér og litla barnsins er meira en að segja það.

Það var nóg að sjá Mary Poppins fljúga í lokaatriðinu. Það á ekki að vera hægt að fljúga. Okkur hefur alltaf verið sagt að það sé ekki hægt að fljúga. Allaveganna ekki á regnhlíf. Það á ekki að vera hægt. Möguleiki á öðrum veruleika en þeim sem við höfum búið við?

Jújú.

Af hverju ekki?