Híerónýmusardagur – alþjóðlegur dagur þýðenda 2014

Þýðendur um allan heim halda upp á 30. september, sem kenndur er við heilagan Híerónýmus, enda hefur dagurinn verið opinberlega viðurkenndur sem alþjóðlegur dagur þýðenda og túlka í tæpan aldarfjórðung þótt hugmyndin að þýðendadegi sé nokkuð eldri. Íslenskir þýðendur fagna líka og síðustu tíu ár hefur Bandalag þýðenda og túlka efnt til viðburða til að halda upp á daginn. Í ár verður haldin málstofa í Iðnó undir yfirskriftinni „Þýðingar og þjóðin“ og þessi mikilvægi þáttur í þjóðmenningunni skoðaður frá ýmsum hliðum.

Erindi halda:

Pétur Gunnarsson rithöfundur: Hvað þýðir að þýða?
Guðrún Þórhallsdóttir, dósent í íslensku: Getur ‘þeir sem eiga konur’ merkt ‘þau sem eru gift’? – Viðbrögð málfræðinga við nýrri biblíuþýðingu
Sigrún Þorgeirsdóttir, ritstjóri hjá þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins: Auðgun orðaforðans
Paul Richardson, formaður Félags löggiltra skjalaþýðenda og dómtúlka: 100 ára afmæli löggildingar þýðingar- og túlkunarstarfa
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir, doktorsnemi í þýðingafræði: Vélin sem kom inn úr kuldanum.
– Vélþýðingar, útópía eða raunveruleiki
Sem fyrr segir verður málstofan haldin í Iðnó og hefst kl. 16.30 á Degi þýðenda, 30. september. Aðgangur er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir.
—-
Bandalag þýðenda og túlka var stofnað 30. september 2004. Bandalagið er fagfélag þýðenda og túlka og tilgangur þess er að vinna að hagsmunum félagsmanna, efla kynningu á starfi þeirra, auka samstarf þeirra, stuðla að endurmenntun og símenntun, koma á samstarfi við sambærileg samtök erlendis og gæta hagsmuna og réttar þýðenda og túlka í samræmi við íslensk lög og alþjóðavenjur. Félagið hefur frá upphafi staðið að veitingu Íslensku þýðingaverðlaunanna sem hafa skipað sér fastan sess í menningarlífi þjóðarinnar og eru veitt árlega á Degi bókarinnar.