Tónlist vikunnar: BOB CLUNESS OPNAR TRANTINN, LOKSINS!

Öllum er sama um tónlistargagnrýni, farðu og sjáðu Pye Corner Audio

Fáir nenna að standa í því að skrifa um tónlist á Íslandi í dag—og þeim fer fækkandi. Einn maður sem lengi lagði sig fram um að móðga tónlistarmenn og tónlistarhaldara með sitt oft á tíðum kaldranalega skoska skopskyn að vopni er Hjaltlandseyingurinn Bob Cluness. Hann segist vera hættur að skrifa um tónlist, allavega í bili, en ætlar í staðinn að þjóna samfélaginu með því að flytja inn spennandi músíkanta og láta þá spila á tónleikum. Fyrstu svoleiðis tónleikarnir eru eftir rúma viku, með breska músíkantinum PYE CORNER AUDIO, en margir í útlöndum, meiraðsegja frægir fagmenn og blaðamenn, hafa sagt að hann sé ótrúlega góður.

Tónlist vikunnar heyrði í Bob og fékk að vita hvað þetta PYE dót er eiginlega, af hverju hann er að koma með það til Íslands, af hverju hann skrifar ekki lengur um músík (í bili) og hvernig lið sem nennir ekki að blása í bransalúðrana er jafnan jaðarsett og hundsað.

PS – PYE CORNER AUDIO leikur þann 10. október í Mengi kl. 21:00 (ásamt Good Moon Deer) og það kostar 2000 kall inn.

Svo verður PYE CORNER AUDIO (ásamt DEEP PEAK) á Paloma kvöldið eftir, kl. 22:00. Það kostar þúsund karl inn þar.

Sæll Bob, hvernig hefurðu það?

Ég hef það fínt, svona miðað við allt. Ég var að koma úr baði, en þar lá ég og las um femínískar nálganir að kvikmyndafræði með tilliti til „noir“ mynda, þá sérstaklega kvikmyndarinnar Klute, og hlustaði á Kode9 og The Spaceape (Hvíli hann í friði. Hann hafði einstaka rödd).

Jahá. Svona var baðferðin. Ef ég hefði átt sælkeraosta og súrdeigsbrauð til að gæða mér á eftir baðferðina, kannski með lauk chutney, þá mætti líklega kalla mig miðbæjarburgeis skítaklepra.

Hver ertu eiginlega? Ættu lesendur Starafugls að kannast við þig einhverstaðar frá? Hvað finnst þér gaman að gera í frístundum? En í „fagstundum“?

Ég heiti Bob Cluness. Ef lesendur Starafugls eru svona þær týpur sem ég held þeir hljóti að vera, þá má vera að þeir kannist við mig gegnum frílansskrif mín um músík, en mest af þeim hefur birst í tímaritinu Reykjavík Grapevine. Þá gætu einhverjir hafa lesið bloggsíðuna mína, Reykjavík Sex Farm, sem er núna í smá fríi. Þar lét ég gamminn gysa um menningu og svoleiðis. Svo er ég líka nýgenginn til liðst við listóhljóðahryðjuverkamennina í FALK („Fuck Art Lets Kill“), en þeir fíla Prins margir hverjir.

Í „fagstundum“ stunda ég nú nám til BA prófs við Háskóla Íslands, þar sem ég fæ að gera allskonar skemmtilegt. Til dæmis að vinna með RIFF og líka að taka þátt í daglegum rekstri kvikmyndaklúbbs HÍ, Rýninum. Það heldur mér við efnið.

Hefurðu einhverja hugmynd af hverju ég ætti að vera taka viðtal við þig fyrir vefrit um listir og menningu?

Mér þætti gaman að ímynda þér að það væri vegna djúpstæðrar þekkingar minnar á menningu og öllu menningarlegu, en ég veit það eiginlega getur ekki verið. Á Íslandi er ég aldrei spurður hvað mér finnst um svoleiðis, hahaha.

Hvað finnst þér annars um menningu? Fílaru hana? Er hún mikilvæg? Hver er uppáhalds menningin þín, svona allra tíma?

Menning segirðu? Já, jæja, það er svo sannarlega mikilvægt að halda fólki uppteknu við að „gera stöff“ þessa dagana. Sumir þarna úti eru betri en aðrir í að fara handan þeirra takmarka sem eru sett á þá.

Líkar mér menning? Sko, ég hata hana ekki ef það er það sem þú meinar. Og uppáhaldsmenningin mín er … 22 júlí, 1991, það var góður dagur fyrir menningu. Ójá.

Poster

Smellið á myndina til að skoða auglýsinguna betur!

NEMA HVAÐ. Best að komast að efninu. Mér skilst að þú sért að flytja eitthvað sem kallast „PYE CORNER AUDIO“ til Íslands. Hvað er „PYE CORNER AUDIO“ og ætti ég að fá mér svoleiðis? Af hverju/af hverju ekki?

PYE CORNER AUDIO er ekki eitthvað, heldur einhver. Ég myndi ekki mæla með því að þú fengir þér PYE CORNER AUDIO, því ég ímynda mér að þá værirðu að brjóta lög um mansal og þrælahald og svoleiðis.

Þetta eru semsagt tónleikar sem þú ert að halda? Það er rosa frábært, en finnst þér ekki vera alveg nóg af tónlistarmönnum og tónleikum í Reykjavík? Ættirðu ekki að vera flytja inn eitthvað sem við raunverulega þörfnumst, eins og spítala, eða peninga?

Sko, í fyrsta lagi þá stend ég nú ekki einn að þessu tónleikahaldi, heldur vinn ég það með félögum mínum í FALK.

En málið er ekki að það sé of mikið af tónleikum, heldur að það er ekki nógu mikið af réttu tónleikunum. Ég meina, auðvitað, ef þú þráir stöff sem hefur þráfaldlega verið skilgreint sem „fallegt“ og „dásamlegt“ eftir að því er virðist skýrum og hegemónískum línum, þá er Reykjavík—líkt og margir aðrir staðir í heiminum—akkúrat pleisið fyrir þig. En, ef þú ert að leita að einhverju sem er kannski aðeins öðruvísi? Sko, það eru auðvitað nokkur staðarbrögð sem rífa aðeins meira í en vanilluísinn sem jafnan er boðið upp á, en þau heyrast ekki nóg satt að segja, fá ekki næga athygli.

Sjúkrahús? Auðvitað, við ættum að flytja inn og viðhalda fullt af svoleiðis. Við þyrftum bara að finna einhverja lausn með djöfuls tollinn. Við þyrftum samt að finna rétt fólk til að vinna þar, er það ekki allt farið úr landi? Og svo þyrftum við að kveikja í Alþingi fyrir að vinna ekki helvítis vinnuna sína.

Og peningar? Ég hélt að við töff bóhemstýpurnar fíluðum ekki peninga og pólitík og vildum bara elska hvort annað og vera í flottum partýum. Eða ertu kannski að gefa í skyn að við séum öll að ljúga og við þráum ekkert meira en seðlavöndla?

Ég er ekkert að gefa neitt í skyn, sko. En segðu okkur meira frá þessu PYE CORNER AUDIO dæmi. Er þetta frábær tónlist? Af hverju er hún svona frábær? Ég ímynda mér að marga lesendur Starafugls skorti samhengi og þekkingu til að skilja þetta band, svo þú mátt alveg útskýra eins og við séum börn. Eins og, hverjir eru samferðamenn PCA, hvernig hljómar PCA, o.s.frv…

Auðvitað er það frábær músík! En hvernig hljómar hún? Sko…

EINFALDA LÝSINGIN: Pye Corner Audio „hljómar eins og“ analóg rafmúsík sem er stútfull af arpeggíeituðum synþum og púlserandi diskóbassadrumum, sem vinnur með arfleið hinnar klassísku VHS/hryllingsmynda fagurfræði—sándtrakka eins og frá John Carpenter og Vangelis—en dregur einnig dám af því fyrsta sem kom frá Warp útgáfunni á hennar fyrstu dögum. Músíkin er myrk, rykug og dularfull …

BobbehSVO SÚ FLÓKNA: Sko, það er svona konsept í kjarna Pye Corner Audio. Mýtan er sú að öll PCA músíkin sé endurútgáfa af safni ¼” segulbands og kassettna sem safnað var saman af fígúru sem kallast THE HEAD TECHNICIAN (sem mun hafa fundið upp „sálræna, víðóma endursköpunartækni“). Það er auðvitað bull, en skemmtilegt. Alvörugaurinn að baki PCA, Martin Jenkins, hefur lýst þessari mýtu sem „leið til að varpa frá sér ábyrgð á tónlistinni.“ Nú má vel finnast það vera svaka koppát, en kjarni PCA gengur út á að skapa hugfangandi raftónlist sem leitast við að fara aftur til fortíðar og finna aðra leið í átt að framtíð, sem ekki var farin og ekki er til í dag.

Eitt hugtak sem hefur verið notað til að lýsa tónlist Pye Corner Audio og þeirra sem starfa á svipaðan hátt (fólk sem gefur út hjá Ghost Box útgáfunni og lið sem gerir drungalega tóna eins og Lee Gamble, Burial og Leyland Kirby“ er „hauntological“. Hugtakið er úr smiðju heimspekingsins Jacques Derrida, sem notaði það til þess að lýsa því hvernig Marx ásótti vestræn samfélög eftir fall kommúnismans og drottnun frjálslynds kapítalisma sem fylgdi. Það hefur síðar verið notað til þess að lýsa tónlist og menningu sem er að því er virðist ásótt eða haldin draugagangi af nostalgíu fyrir þeim týndu framtíðum sem lofað var í fyrndinni. Sjöundi og áttundi áratugur síðustu aldar voru tími hinnar módernísku útópíufagurfræði, þar sem framsækin og almennt skrýtin menning, tónlist og bíómyndir, náðu athygli almennings. Allskonar sjónvarpsþættir, eins og Dr. Who og The Changes, voru hljóðsettir af radíófónískri vinnustofu BBC. Óhugnanlegar herstöðvar og hlustunarstöðvar spruttu upp eins og gorkúlur um allar sveitir, meðan tækni, brútalískur arkítektúr, borgarskipulag og samfélagsverkfræði (e. „social engineering“) báru með sér loforð um útópíu sem aldrei kom. Þetta var tími þar sem fjútjúrsjokk var normið, og ekki var allt sem sýndist.

Í dag má lesa tónlist eins og þá sem PYE CORNER AUDIO gerir sem eitt einkenni heims þar sem tíminn er orðinn brenglaður, og menning virðist hafa glatað skriðþunga sínum—með þeim afleiðingum að við upplifum einskonar „ótíma,“ þar sem ekkert verður á endanum af því sem er hér og nú, þar sem allt virðist eins og rofin minning sem ekki er bundin sögunni.

Eða, eins og rithöfundurinn Warren Ellis merkti, „Hauntology er miðaldra hvítir gæjar að dansa við diskómúsík!“

(Ég mæli með að fólk lesi rit Mark’s Fisher, „Ghosts of my Life“ og Owen Hatherley, „Militant Modernism,“ ef það hefur einhvern áhuga á því að spá í menningarfræðilegum öngum þessa alls).

Gæti einhver sem er alveg utangarðs í „senunni“ og þekkir ekkert svona músík fengið eitthvað út úr því að mæta á tónleikana? Hvað þá?

Ég myndi ætla að fólk gæti fengið eitthvað út úr tónleikum með Pye Corner Audio! Í það minnsta skynbragð af rökkurspennunni sem myndast þegar ljúfir tónarnir nuddast við skríðandi, berjandi taktana, hljóðin sem heyrast þegar úreltar vélar eru tengdar við tækni dagsins í dag svo þær geti sagt sínar sögur af öðrum heimum. Það er ekkert glatað að eyða helginni í svoleiðis, eða hvað?

Hvernig myndirðu ráðleggja þeim sem vita ekert um svona, en langar að mæta, að undirbúa sig?

Ég myndi segja að besta leiðin til að undirbúa sig er að vera ekkert að undirbúa sig, að passa bara að halda huganum opnum.

EN! Ef fólki langar að undirbúa sig, þá mæli ég með því að það hlusti á eitthvað af músíkinni frá Paddy Kingsland, sem var ötull þáttakandi í radíófónískri vinnustofu BBC, horfi á einn þátt eða svo af Edge of Darkness og hlusti svo á Green Album með Orbital áður en það heldur úr húsi.https://www.youtube.com/watch?v=4PG5PCd284o

Ég sé á plaggatinu að sveitin Good Moon Deer hitar upp. Hvað er Good Moon Deer? Ætti ég að fíla það?

Í fyrsta lagi er það ekki bara Good Moon Deer sem er að spila (hann er á föstudeginum sko), heldur kemur líka hin fallega skrýtna og dásamlega sveit DEEP PEAK fram með PCA á Paloma á föstudeginum. Bæði böndin standa fyrir mismunandi hliðar íslenskrar raftónlistar. Good Moon Deer er léttfeti sem fremur fagurlega sniðna rafstrúktúra, meðan DEEP PEAK er eins og að fljóta í klístruðum líknarbelgsvökva sem einungis brotnir meistarar nýjaldar synþamúsíkur geta skapað.

Eftir því sem ég hef heyrt er bæði áhættu- og kostnaðarsamt að flytja inn tónlistarmenn. Hvað veldur eiginlega að þú ert að svoleiðis? Hvað kom þér af stað? Hvað þarftu að selja marga miða til að koma út á sléttu? Ertu að reyna verða ríkur, eða liggja einhverjar aðrar hvatir að baki þessu framtaki?

Aðalástæðan fyrir því að ég geri nokkurn skapaðan hlut í lífinu er sú að mér eiturleiðist status kvó. Ég hef því mikla þörf fyrir því að kynna til sögunnar element, tónlist, listamenn eða skrif, sem geta hrist aðeins upp í hlutunum, sem lætur fólk undrast, „Af hverju höfum við ekki sagt, heyrt eða gert þetta áður?“ Af hverju er ég að standa í þessu tiltekna verkefni núna? Já sko það eru svona hinar og þessar aðstæður sem valda því að mér tekst að fá gistingu og slíkt á mjög góðu verði, sem gerir mér kleift að bjóða tónlistarmönnum utan úr heimi upp á annað en að sofa í sófanum mínum með kettinum Stalín.

Og verða ríkur? HAHAHAHA. Þessi var góður. Ef ég vildi verða ríkur myndi ég líklega skipuleggja reglulegan viðburð þar sem hópur skemmtikrafta kemur saman og fremur uppblásinn, ofkeyrðan kabarett sem samanstendur af ábreiðum af lögum betur þekktra tónlistarmanna, með meðfylgjandi korporatsponsi og hallærislegum sjónvarpsauglýsingum. En kannski er sá markaður að verða mettur?

Á endanum er ég bara að gera þetta af þrá og þörf fyrir að fá hingað músík sem ég sjálfur myndi glaður borga fyrir að sjá…

Myndirðu segja að „hefðbundnir tónleikahaldarar“ væru ekki að standa sig? Eru þeir ekki með á nótunum? Hvað finnst þér um það sem hefur verið flutt til landsins síðustu ár? Erum við Íslendingar að fá gott sýnishorn af því sem er þarna úti? Eða eru einhverjir æðislega áhugaverðir listamenn sem við erum að missa af því það er ekki nóg af okkur til þess að viðhalda heilbrigðu samfélagi áhugafólks um skrýtna músík?

Ég held að „hefðbundnir tónleikahaldarar,“ eins og þú segir, séu að standa sig alveg ágætlega. Þeir eru að gefa bolnum það sem hann vill. Skemmtun. Og við eigum nóg af henni. Verður að halda íslenskum menningariðnaði gangandi, þannig hann leggi til í efnahagsvöxt þjóðarinnar. Í þeim skilningi eru tónleikahaldarar að gera ótrúlega góða hluti.

pye2En eru íslendingar sem þjóð að missa af allskonar skemmtilegu? Ég myndi svara því játandi. Mjög svo. Tökum elektró og klúbbamúsík sem dæmi. Þessa stundina býr Ísland ekki að neinni klúbbamenningu. Hér eru barir sem búa að plötusnúðum sem spila hinar og þessar gerðir klúbbamúsíkur. Það er stór munur þarna á, hvað varðar andrúmsloft, tónlistarval og muninn á því að fara út til að dansa og því að skreppa á pöbbarölt og búgía smávegis. Íslendingar dansa svo sannarlega við góð lög en þeir eru ekki mikið að sækjast eftir því nýjasta, mest spennandi sem er í gangi—og plötusnúðarnir eru fæstir að sjá þeim fyrir svoleiðis tónum. Þetta þýðir að á mörgum sviðum er Ísland eftirá hvað varðar suma stíla, hljóma og tónlistarmenn. Það sást til dæmis vandræðalega vel á Secret Solstice hátíðinni í sumar sem leið, þar sem margir af ferskustu músíköntum og plötusnúðum Lundúna mættu og spiluðu músík sem heyrist nánast aldrei á Íslandi. Heimamenn voru að mestu ringlaðir meðan þeir spiluðu, og sóttust í staðinn eftir að dansa við sína venjulegu plötusnúða sem buðu upp á hallærislegt, leiðinlegt tech house—því það er það eina sem fólk þekkir.

En ekkert er varanlegt. Senur og hljómar þróast, deyja og kollvarpast. Það er allskonar fólk þarna úti, þar á meðal við FALK félagar (og líka leibel eins og Ladyboy Records og BORG, og útvarpsþættir eins og Plútó á FM Xtra), sem er að gera sitt besta til að hrista upp í því sem má kalla heimóttarlegt viðhorf Íslendinga til tónlistar.

Ætlarðu að flytja inn fleiri músíkanta? En flytja þá út? Ertu með fimm ára áætlun? Verðurðu á endanum svona Grímur Atlason óvinsællar, skrýtilegrar rafóhljóðatónlistar?

Það er nú bara einn Grímur Atlason, og það er feykinóg.

Þú skrifaðir einusinni fullt um músík fyrir blaðið þarna, Grapevine. En, nú er ekki svo algengt að sjá þig skrifaðan fyrir greinum. Hvað gerðist? Þú varst stundum frekar svona brútal þegar þú skrifaðir um bönd—urðu hótanir um líkamsmeiðingar og ofbeldi að lokum til að hrekja þig frá því að skrifa um músík?

Þar sem við erum að ræða mig sjálfan, þá er einfalda svarið það að batavegurinn frá þunglyndi og alkóhólisma hefur sett svona svoldið strik í reikninginn árið 2014, vægast sagt. En, þar sem ég er hægt og rólega að skríða úr skóginum hef ég átt í nokkuð exístensíalískri krísu hvað varðar tónlistarskrif. Var ég dólgslegur eða brútal? Bara þegar þörf var á. Ég hef aldrei haft sérstakar áhyggjur af líkamsmeiðingum í kjölfarið (flestir miðbæjaríslendingar eru meira í því að stunda sína fíntjúnuðu passive-aggressjón – reyndar hefur fólk alveg hótað að kæra mig fyrir ærumeiðingar, hahaha), mitt vandamál var eins og áður sagði meira svona tilvistarkreppulegt. Ég er í raun frekar lélegur skríbent að því leytinu að ég hef yfirleitt frekar góða hugmynd um hvað mig langar að segja, en þarf að kafa í gegnum tvo metra af þokurugli og slýi til að komast að því … og það er rosa vesen. Að auki varð sá verknaður að vera krítískur á verk annarra oft til þess að ég var tvöfalt krítískari á sjálfan mig, mínar hvatir til að skrifa og gæði dóma minna. Ég eiginlega fláði mig þar til ekkert var eftir. Þegar ég skrifaði dóminn um plötu Ben Frost, Aurora, í vor var ég eiginlega bara búinn.

Og í sannleika sagt: þá er öllum skítsama. Fólk segir kannski að því sé ekki skítsama, en því er skítsama. Flestir eru allt eins líklegir að brunda broskörlunum sínum og lækum yfir steríla alræðislista frá BuzzFeed og eitthvað sem gerir heiðarlega tilraun til að stunda samræðu og færa hana áfram.

Segðu mér frá sambandi Íslendinga við gagnrýni.

Það er ekkert samband, því fólk gagnrýnir ekki. Þetta er oft vegna þess að þegar fólk skýtur upp kollinum og ætlar að stunda gagnrýni þarf það að díla við allskonar særð egó, ótta og óöryggi, sem koma fram dulbúnar sem „krafa um fagmennsku“. Oft, ef gagnrýnandi hefur eitthvað að segja um tiltekna menningarstofnun, sama hve blítt og framúrstefnulegt fólkið sem stendur þar að baki kann að virðast, þá tekur það því sem persónulegri árás á sig sjálft og sitt viðurværi. Og viðbrögðin eru jafnan nastí, en um leið furðulega banal.

Á sama tíma vilja flestar tilraunir til menningarlegrar umræðu jafnan kollsteypast á endanum þar sem fólk lætur sér nægja að skiptast á gömlum, ódýrum tuggum, sem það telur vera djúpa innsýn. Svona eins og „tónlist er tónlist.“ Hvað í fjandanum á það að þýða?!?!

Það tók mig nokkurn tíma að átta mig á því að flest fólk, ég sjálfur meðtalinn, hefur yfirleitt ekki hugmynd um hvað það er að tala, en ef það er sjarmerandi meðan það segir sitt innantóma bull er vel tekið í það og það jafnvel lofað fyrir að setja fram djúpa speki.

Heldurðu að beinskeyttari, aggressívari og/eða virkari gagnrýni gæti orðið íslenskri tónlist til góðs?

Ég held ekki sérstaklega að gagnrýni þurfi alltaf að vera „aggressív“ (en ef það er eitthvað drasl sem er að sparka í er ég alveg til í að munda stígvélin). Hinsvegar er virkileg þörf á virkari og HEIÐARLEGRI gagnrýni. Á Íslandi finnur maður ansi víða hræðilegt „groupthink“—á öllum sviðum samfélagsins—og það er skiljanlegt, því svoleiðis veitir öryggi og getur hjálpað fólki að komast af. Maður verður að fylgja línunni til þess að detta ekki af henni, eins og þeir segja. En ef maður sest í bjór eða kaffi með músíköntum fær maður að heyra hvað þeim finnst í raun um tónlistina sem jafningjar þeirra fremja og maður lærir hægt og rólega að mýtan um að „allir í íslenskri músík elski hvorn annan og hjálpi til eins og hægt“ er bara bull og kjaftæði. Heiðarleg, einlæg gagnrýni er það erfiðasta sem hægt er að gera á Íslandi og svoleiðis er alls ekki fyrir alla. Þú verður nánast bókað hundsaður og settur til hliðar ef þú leitast við að varpa ljósi á aðrar hliðar menningarinnar en menningarbransinn sjálfur vill flagga. Fólk sem leggur í að stunda svoleiðis gerir það bókað af köllun, ekki til gamans.

Hver er annars að spá í tónlistarrýni? Hver les svoleiðis?

Hún skiptir suma máli, en mín tilfinning er sú að fólk sem talar um tónlist—ekki bara hvernig tiltekin verk eru góð eða slæm, heldur af hverju þau eru ein sog þau eru og hvað það þýði fyrir samfélagið—sé hægt og rólega að hverfa af sjónarsviðinu. Megnið af tónlistarskrifum dagsins í dag er um hvernig tónlistin virkar sem efni (e. „content“) frekar en list, sem hefur það hlutverk eitt að fylla í rými, því við þurfum að hafa endalausan straum fyrir framan okkur svo okkur leiðist örugglega ekki.

Eitthvað að lokum?

Kíktu á tónleikana. Skemmtu þér vel! Bjóddu vinum þínum! Og óvinum! En láttu okkur endilega vita hverjir eru hvað, svo við getum haldið þeim aðskildum.

PYE CORNER AUDIO