Takk, Kristinn

Mig langar að taka þátt í nýhafinni kurteisisvæðingu þessa vefrits og þakka Kristni Sigurði Sigurðssyni fyrir þakkarpistil hans til Snæbjarnar Brynjarssonar. Ég er nefnilega raunverulega þakklátur að einhver skuli vekja athygli á þeirri staðreynd hve Þjóðleikhúsið sé mikið borgarleikhús. Kristinn er auðvitað kjaftfor – sem er oft skemmtilegt – en það eyðileggur dálítið annars ágæta grein að stilla Sjón og Benedikt Erlingssyni upp sem sérstökum óvinum landsbyggðarinnar. Sú umræða snérist um hvort ríkið ætti að styrkja leikhúsrekstur yfir höfuð eða ekki, ekki hvernig það yrði framkvæmt.

En samt – það má alveg ímynda sér að Þjóðleikhúshatur Elliða Vignissonar sé einfaldlega sprottið af því að hafa alist upp í Eyjum og lesið og heyrt af alls kyns spennandi leikverkum, án þess að geta séð þau sjálfur. Það er í raun ekkert óeðlilegt að út frá þeirri tilfinningu spretti sú tilfinning að þetta hafi ekki verið hans leikhús. Þannig að á meðan Reykjavíkurbúar fárast yfir vegarframkvæmdum á vegum sem þeir þurfa ekki að keyra þá fárast landsbyggðin yfir leikhúsi sem hún getur ekki séð.

Og rétt eins og það svíður þegar arðbærum auðlindum okkar er úthlutað fáeinum sægreifum þá svíður líka þegar menningarlegum auðlindum okkar er flestum dælt í sama póstnúmerið. Og ég ætla bara að leyfa mér að fullyrða að þetta skipti miklu meira máli fyrir búsetu fólks en vegaframkvæmdir. Vondar samgöngur kunna vissulega að hrekja fólk í burtu en fólk flytur ekki í borgir út af því það langar svo að upplifa hringtorg og umferðarljós. Fólk flytur í borgir út af því þar er eitthvað að gerast. Þar eru atvinnutækifæri á daginn og skemmtun á kvöldin.

Það eru svipaðar ástæður fyrir því að fólk ferðast. Auðvitað er maður stundum að leita að kyrrð og ró, tíðindaleysi og einveru. En algengasta ástæðan er sú að maður sé að heimsækja vini eða ættingja – eða út af því það er eitthvað að gerast. Ég hef engin sérstök tengsl við Patreksfjörð, Grundarfjörð eða Suðureyri en samt hef ég komið reglulega á alla þessa staði undanfarin ár út af kvikmyndahátíðum og leiklistarhátíðum. Þegar maður heimsækir hins vegar smábæ á tíðindalitlum sumardegi þá kíkir maður kannski á kaffihúsið, sjoppuna og safnið – ef bærinn býr svo vel að státa af öllu þessu – og fer svo. Oftast án þess að hafa kynnst neinum.

Það hefur orðið afskaplega jákvæð þróun með sífellt fleiri menningarhátíðum á landsbyggðinni undanfarin ár. En þarna má samt gera betur – og eitt af því felst í auknu samstarfi á milli heimamanna og borgarbúa. Þjóðleikhúsið mætti vera miklu duglegra að setja upp farandsýningar – merkilegt nokk hefur Borgarleikhúsið verið öllu duglegri við það undanfarin ár. Ekki út af því það sé skylda leikhússins – líklega frekar út af því fráfarandi borgarleikhússtjóri hafði starfað á Akureyri áður og gerði sér einfaldlega grein fyrir því að samstarfið var gott fyrir báða aðila. Á svo fjölbreytilegan hátt. Fólk lærir af hvort öðru, fær að ferðast, myndar tengsl og fær tilbreytingu í lífið.

Þjóðmenningin

Hér má kannski koma með smá tillögu tengda uppáhaldsgæluverkefni ríkisstjórnarinnar: þjóðmenningu. Þjóðmenning er lítið spennandi þegar hún er vanhugsaðir bitlingar forsætisráðuneytisins í tilviljunarkennd verkefni. En hvernig væri að við prófum þessa þjóðmenningu: Þjóðleikhúsið ferðast með sem allra flest verk um landsbyggðina. Íburðarmestu verkin er kannski bara hægt að setja upp á stærstu stöðunum – en mörg einfaldari verk mætti setja upp nánast hvar sem er. Eðlilega yrðu sýningar oftast í stórum þéttbýliskjörnum – en það væri samt ástæða til þess að heimsækja minnstu plássin stundum líka. Þá mætti vel búa til ýmislegt meira í kringum þessa viðburði. Málstofur og spurt & svarað sýningar. Leiklistarspekúlant af svæðinu gæti kynnt verkið og innfæddur einleikari hitað upp. Svo mætti stækka hugmyndina, bjóða áhugaleikhúsum og öðrum minni leikhúsum, bæði af svæðinu og annars staðar frá, að vera með sýningar í sömu vikunni – þannig yrðu til ótal litlar leiklistarhátíðir um land allt. Sumar yrðu jafnvel stórar á endanum.

Svipaða aðferðafræði mætti svo heimfæra uppá aðra menningu með nauðsynlegum aðlögunum – hvort sem það eru bókmenntir eða bíó, myndlist eða tónlist. Og auðvitað sprengjum við molbúalega þjóðmenninguna við fyrsta tækifæri og leyfum útlendingum líka að taka þátt. Enda sprettur velgengni íslenskra tónlistarmanna og Vesturports að miklu leyti af því að lífæðinni til útlanda er haldið opinni. List snýst ósjaldan um að byggja brýr og það þarf brýr, loftbrýr sem og landbrýr, til þess að halda í henni lífinu.

Svo mætti vera miklu opnari og betri aðgangur fyrir leikhópa utan af landi til að sýna í Reykjavík – það mætti jafnvel byggja lítið gestaleikhús nálægt Þjóðleikhúsinu þar sem þau myndu fá inni – og bestu verkunum yrði svo boðið að sýna í Þjóðleikhúsinu sjálfu. Hver veit, kannski gæti það sömuleiðis verið fátækraleikhúsið sem Kristinn lýsir eftir?

Hinir brottfluttu

List er í vissum skilningi samtal og ég held að við þurfum að tala betur saman sem þjóð. Ekki út af þjóðerninu heldur út af því við erum að reka saman samfélag fyrir sameiginlegt skattfé.

Lýðræði virkar ekki ef fólk lætur sér duga að kjósa stöku sinnum. Það virkar ekki einu sinni þótt við höldum þjóðaratkvæðagreiðslur stöku sinnum líka. Það virkar ef fólk talar saman um samfélagið sem það vill. Og við gerum sáralítið af því. Við rífumst hins vegar meira en nóg og ég held við séum öll komin með nóg af hinum hefðbundnu íslensku rifrildum.

Nú vona ég að þið misskiljið mig ekki. Ég er ekki að hvetja fólk að hætta að rífast. Ég er bara að biðja fólk að hætta að rífast eftir fyrirsjáanlegum flokks- eða búsetulínum. Á meðan við rífumst um tilverurétt listarinnar en forðumst það að rífast um listina sjálfa þá er hún steindauð sem afl í þjóðfélaginu.

Það er einfaldlega forheimskandi að rífast endalaust um list og spítala – af þeirri einföldu ástæðu að samfélög þurfa bæði heilbrigðisþjónustu og menningu, þau fúnkera einfaldlega ekki annars. Það eru samfélög sem fólk yfirgefur.

Ég held við höfum séð ýmis dæmi þess undanfarin misseri að Ísland er hreinlega samfélag sem fúnkerar ekki. Fyrir því eru ýmsar ástæður – en hérna er ein: Það er of auðvelt að deila okkur og drottna. Stjórnvöld búa til óvini úr vondum útlendingum, úr landsbyggðartúttum eða miðbæjarrottum, úr þeim sem eru nógu langt í burtu – landfræðilega, hugmyndafræðilega eða stéttarlega. Og við erum stundum aðeins of fljót að stökkva á andlausasta og smellvænasta kommentaþráðinn á Facebook og rífast um skandal dagsins. En gleymum því stundum að rífast um skandal ársins.

Í öllu þessi rifrildi erum við ófá í skotlínunni miðri sem vitum ekki hvert á að skjóta til baka. Við þessi brottfluttu, sem mann grunar stundum að sé stærstur hluti Reykvíkinga og nærsveitarmanna. Við missum kosningaréttinn í heimabyggð og verðum samt aldrei almennilega heima hjá okkur í borginni. Í allri umræðunni um landsbyggðarflótta erum við sjaldnast spurð: „Af hverju fóruð þið?“ og ennþá sjaldnar: „Af hverju komið þið ekki aftur?“

Við erum þessi meirihluti sem er reynt að skipa sér í fylkingar sem við tilheyrum ekki. Við erum þessi meirihluti sem hefur flutt einhvern tímann á ævinni. Þessi meirihluti sem hefur bæði farið á sjúkrahús og leikhús og vill fá að gera það áfram.

Takk, Snæbjörn

En það er rétt að geta þess að þessar hugmyndir mínar eru ekki nýjar. Þegar ég var að klára pistilinn rakst ég til dæmis á þessa útfærslu á þeim í gömlum pistli á Reykvélinni:

Hvers vegna ekki að hafa útibú frá Þjóðleikhúsinu eða Listasafni Íslands á nokkrum vel völdum stöðum út á landi? Eða aðrar menningarstofnanir sem gætu tekið á móti leiksýningum, danssýningum og kvikmyndum? Í Frakklandi og Þýskalandi eru leikhús í úthverfum og jafnvel smáþorpum sem geta keypt til sín sýningar. Ef slíkt kerfi væri við lýði myndum við í stað eins Þjóðleikhúss hafa mörg. Til dæmis fengi Ísafjarðarbær úthlutað ákveðnu fjármagni sem hann gæti nýtt til að kaupa sýningar; eina frá Borgarleikhúsinu, tvær frá sjálfstæðum leikhópum, eina frá Leikfélagi Akureyrar og kannski tvær frá Þjóðleikhúsinu. Þetta hljómar dýrt en það þarf ekki að vera það, þetta væri bara öðruvísi nýting á fjármagni sem við eyðum nú þegar. Á Ísafirði er til dæmis þegar aðstaða til að taka á móti leikhópum, það vantar bara fjármagn og listrænan stjórnanda til að velja inn í leikárið. Sá aðili gæti líka framleitt sitt eigið efni með því að bjóða listamönnum að koma til bæjarins að vinna, eða nýtt þá listamenn sem þegar eru til staðar til að framleiða sýningu sem leikhúsin á Egilstöðum og Reykjavík gætu hugsað sér að panta. Við erum að tala um nokkrar manneskjur með gráðu í menningarstjórnun, nokkra tæknimenn og ferðastyrki handa listamönnum, í bland við áframhaldandi verkefnastyrkjakerfi […]

Þetta er brot úr fantagóðum pistli sem vill svo til að er eftir áðurnefndan Snæbjörn Brynjarsson – þar sem hann er í raun búinn að svara fyrirfram öllum spurningum Kristins úr þakkarbréfi númer tvö. Það er alveg ástæða til að þakka Kristni líka fyrir að hafa leitt mig að honum eftir krókaleiðum.

Ég skal meira að segja alveg viðurkenna að ég íhugaði að henda mínum pistli og deila bara þessum gamla pistli á Facebook. En ég hætti við þegar ég áttaði mig á því að þótt það geti stundum verið þreytandi þá þarf að endurtaka góðar hugmyndir áður en þær komast til skila. Ef við skrifum nógu mikið, hugsum nógu mikið og ræðum nógu mikið saman þá er aldrei að vita að verðandi Þjóðleikhússtjóri eða jafnvel menningarmálaráðherrar fari óvart að hlusta.

Takk-debattinn:

Menning handa þjóð – nokkrar hugleiðingar um mikilvægi menningar og aðgengi að henni eftir Brynjar Snæbjörnsson (á Reykvélinni)
Lausnin – pistill innblásinn af málþingi um opinbera stefnu stóru leikhúsanna eftir Brynjar Snæbjörnsson (á Reykvélinni)
Takk Snæbjörn – fyrri hluti eftir Kristinn Sigurð Sigurðsson
Takk Snæbjörn – part II eftir Kristinn Sigurð Sigurðsson