Skáldskapur vikunnar: Kraftaverkið Tammy eftir Feliz Lucia Molina

í þýðingu Kristínar Svövu Tómasdóttur, sem einnig skrifar ferðasögu

Síðasta sumar lagði ég leið mína í fyrsta skipti til vesturstrandar Bandaríkjanna, ásamt vinkonu minni Guðrúnu Elsu Bragadóttur sem stúderar bókmenntafræði þar vestra. Við pöntuðum okkur flug til hinnar mjög svo fyrirheitnu borgar San Francisco og hugðumst dvelja þar í rúma viku. Þegar við höfðum samband við tengiliði okkar á svæðinu, ljóðskáldin Alli Warren og Brandon Brown sem við kynntumst á alþjóðlegri ljóðahátíð Nýhils 2010, kom í ljós að einmitt á þessum tíma var fyrirhuguð ljóðahátíð í Oakland. Þannig æxlaðist það að við Guðrún Elsa vorum meðal gesta ljóðahátíðarinnar East Bay Poetry Summit fyrstu helgina í júlí.

Hátíðin var sannkallað ljóðapartí. Við misstum að vísu af lokagrillveislunni – vorum þá komnar yfir til San Fran að túristast í City Lights-bókabúðinni – en fórum á alla fimm upplestrana, frá fimmtudegi til laugardags, og hlýddum þar á fjölda bandarískra og kanadískra skálda. Eitt það skemmtilegasta við hátíðina var að upplestrarnir fóru fram á svo ólíkum stöðum; sumir voru haldnir í húsnæði ýmissa grasrótarsamtaka en aðrir fóru fram í heimahúsum sem gestgjafar opnuðu fyrir hátíðargestum eitt kvöld. Þar dreifðumst við um stofur, eldhús og garða og hátölurum var komið fyrir svo allir gætu heyrt. Fyrsta kvöldið sátum við Guðrún Elsa á huggulegum gangi fyrir framan eldhúsið, annað kvöldið í sjálfu eldhúsinu en þriðja kvöldið úti í garði.

Fyrir unnendur góðra ljóðaupplestra er óviðjafnanlegt að fá að kynnast því hvernig slíkt fer fram í útlandinu. Ég neita því ekki að töluverður söknuður eftir hinni horfnu alþjóðlegu ljóðahátíð Nýhils gerði vart við sig hjá mér í Oakland. Það er ýmislegt skemmtilegt að gerast í íslensku ljóðasenunni, en það er ekkert sem jafnast á við að blanda geði við ljóðskáld annars staðar frá og kynnast því sem þau eru að gera. „Ferskir vindar“ er klisja sem á ágætlega við í því samhengi.

Til að sefa þennan söknuð ákvað ég að gera örlítið prójekt úr för okkar á East Bay Poetry Summit og þýða nokkur ljóð eftir nokkur skáld sem lásu þar upp og mér fannst skemmtileg. Fyrsta þýðingin sem hér birtist er á ljóði eftir kaliforníska skáldið Feliz Luciu Molina, sem las upp á lokakvöldi hátíðarinnar. Ljóðið heitir Kraftaverkið Tammy og er úr ljóðabókinni Undercastle sem kom út árið 2013.

 

Kraftaverkið Tammy

Við 275 Westminster Street í Providence, Rhode Island
erum við föst í þessum líkama, á þessum stað.

Ég veit ekki hvað það þýðir að biðjast fyrir
en tilfinningin er eins og að pissa/senda sms/missa tönn.

Í snævi þöktum marsmánuði hanga hálfberir dagatalsgaurar fyrir ofan skjalaskáp.
Þegar enginn hringir stari ég á ströndina.
Þegar símarnir hringja ekki gaurast ég niðri á strönd.

Rödd segir: til að flytja skilaboðin í annað talhólf…
……………..Röð af kössum, munnar og glamrandi tennur í hverjum og einum. Ég tala inn í
……………………………………………………………………… raunverulegt myrkur.

Síminn hringir.
Einhverjum sem vantar á fótlegg er gefið samband; röddin sem vantar á fótlegg hefur nafn.
Fótleggurinn sem vantar heitir Tammy.
Tammy fær samband við Brian.
Enginn vill tala við Tammy af því að hún er alltaf svo erfið.
Ég held að Tammy sé kraftaverk.
Kraftaverk eru erfið; þau eru erfið fyrir alla.

Á 9. áratugnum hélt fólk að þroskaheft fólk væri kraftaverk. Ég veit það af því að ég þekki fólk sem rak sambýli full af þroskaheftu fólki í þrjátíu ár í Los Angeles í Kaliforníu.

……………..Allir grafnir undir nafni.
……………..Líkami liggur á köldu stálgólfi talhólfs.
……………..Martröð barnæsku minnar var að vera læst inni í herbergi úr stáli þar sem veggirnir þrengdust
……………..hægt að mér og krömdu mig loks í miðjunni.

Tammy stamar og tafsar á línunni, lögfræðingar fara út í hádegismat.
Þeir segja að maður eigi ekki að tala við Tammy en mig langar til þess. Ég fæ tíu dollara á klukkutíma fyrir að hlusta.
Gegnum myrk göt finn ég lyktina af Tammy –
rotinni tönn
fjölskyldu sem yfirgaf hana, lét hana rotna.
Ég þekki vandamál Tammy –
fótlegg sem vantar
talkennara sem vantar
getuna til að troðasvomörgumorðumíeinasetninguaðþaðfokkingskilurþaðenginn.

Ég flýt aftur inn í kristaltæran hrylling gaura/strandar/sólar.
Ég er ölvuð af grimmd þess að vera hérna á þessari skrifstofu.
Ég íhuga skýrleika lofts.
Ég er farin að ýta of oft á klukkutíma á vista.
Lofað sé andartakið því það hefur verið vistað.
Ég íhuga hvort það sem er inni í vistunartakkanum (handan himnaríkis og helvítis) sé úr lofti.
Í þessu vistaða andartaki höldum við áfram að deyja í hugskoti véla
Við færumst nær því að vanta fót og missa tennur
Við verðum æ líkari Tammy

 

Hér að neðan má svo sjá Molina lesa upp í Oakland. Meðal ljóðanna sem hún les er ljóðið um Tammy.