Skáldskapur vikunnar: Idjót eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur

 

Það er idjót sem eltir mig

alla daga, það geiflar sig og grípur hnífapör
á lofti
klifrar hljóðlega í gardínum, enginn
sér það nema ég

og tafarlaust, til að forðast misskilning: ég
elska idjótið mitt

hata það samt þegar það
sefur
eða hermir eftir mér af rótblindri hæðni, slíkt
gerist (oft), en hann er sterkbyggður (þetta er
karlkyns idjót, nóterið) og lýsir af
honum
líkamlegi þokkinn, stundum eins og vanti í hann
tennur, augnaráðið er
tómt

[enginn getur sorðið idjótið
mitt (enda tilfinningalaust) en hann
getur snöggtekið
mig, þetta virkar óréttlátt en virkar]

*
idjótið mitt er í hvítri, gjarnan kámugri
baðmullartreyju frá 17. öld,
gisinni
svo sést í glansandi kassa, geirvörtur
og hann er snoðklipptur (já, það má segja
hann idjótið)

það er gott að eiga
idjót
þegar dagarnir gliðna, þegar draumar
bresta, þegar ung kona stendur
andspænis óyfirstíganlegum vanda,
sérkennilegu vali –
þá lít ég á idjótið mitt sem hvílir á hækjum sér
í þröngu horni og
glottir svo skín í gapandi gómana,
ranghvolfir augum

ég kæmist ekki í gegnum þetta líf án slíkrar
handleiðslu, þið vitið, styrks

hann
strýkur iljar mínar alabastri þegar
við erum ein, færir til
glansandi hnén

*
ég veit ekki hvort mörg idjót
eru mállaus eins og mitt (eitt stamar, annað
skrollar …) en
mér flýgur ekki í hug að
kvarta

hann er sá eini sem
veit í hvernig myrkri ég vil sofa
og er fullkomlega háður mér um mat

Úr bókinni Kátt skinn (og gloría).