„Ekki vissi ég að þú værir í löggunni!“ – viðtal við Bryndísi Björgvinsdóttur

Á meðan ég les hana hugsa ég: Hafnfirðingabrandarinn eftir Bryndísi Björgvinsdóttir er bók af því tagi sem gæti kannski bjargað heilli kynslóð frá ólæsi. Ekki bara er hún skemmtileg – bæði ha-ha skemmtileg og áhugaverð – heldur er líka nógu gott tempó í henni til að halda athyglisbrostnustu lesendum við efnið. Hún ætti auðvitað að vera undir öllum jólatrjám á aðfangadag – en ekki síst trjám þeirra sem þykja ólíklegir til að teygja sig í bók annars.

Kannski er það sjálfhverfan sem fær mig til að hugsa svona – Hafnfirðingabrandarinn fjallar um unglinga á tíunda áratugnum og ég var unglingur á tíunda áratugnum. Hún á þá allavega erindi til allra næntísunglinga sem vilja muna eftir sjálfum sér.

Starafugl skiptist á nokkrum tölvupóstum við Bryndísi í síðustu viku – tók af henni tal um bókina sem leiddi auðvitað út í tal um veruleikann, bókmenntirnar, rithöfundastarfið og allt hitt.

Bjargvætturinn í bókinni

EÖN: Fyrst – takk fyrir frábæra bók. Ég hef ekki lesið unglingabók í ríflega 20 ár, þetta var í alvöru mjög hressandi (og sú sem ég las fyrir 20 árum var ekkert mjög góð). Þetta er svolítið einsog að ganga í ungdóm á ný, fá snert af gelgjunni, einhverri tegund af græskuleysi sem hefur í för með sér forvitni sem er kannski ekki óttalaus en allavega óttaskert. Þetta með æskuna og að finnast maður eiginlega vera ósigrandi á sama tíma og manni finnst allt vera fullkomlega óyfirstíganlegt og ómögulegt.

Eitt af því fyrsta sem ég byrjaði að hugsa um við lesturinn var representasjón – fulltrúun, má ekki nota það sem orð (ég er að spyrja að þessu á degi íslenskrar tungu). Maður fær reglulega inngjöf af sic-transit-gloria-mundi-fréttum af börnum og því að þau kunni ekkert að lesa neitt nema Facebookstatusa, fyrir svo utan allt hitt með móralinn og hvað sé við hæfi. Er ekki hætt við að unglingabókahöfundurinn festist í einhvers konar bjargvættarhlutverki? Fari að reyna að stoppa börnin frá því að stunda kynlíf og drekka brennivín og reyna að sannfæra þau um að sitja bara alltaf heima og lesa og passa sig að falla ekki á samræmdu prófunum? Ekki það ég hafi upplifað bókina þína sem er einhverja predikun, vel að merkja.

BB: Jú, ég held að það sé nokkuð til í því. Ekki þó kannski að höfundurinn festist í því hlutverki en að hann setji sig í ákveðnar stellingar. Í fyrsta lagi er málfar og orðanotkun alltaf ákveðið áhyggjuefni því slíkt breytist hratt á milli árganga í grunnskólum landsins. Ég hef verið að lesa í unglingadeildum undanfarið og nánast enginn hefur þekkt orð eins og „flippari“ eða „skoppari“ sem þóttu mjög töff þegar ég var yngri. Sumir höfundar treysta sér kannski ekki til að skrifa „unglingaleg“ samtöl og láta þá koma fram að aðalsöguhetjan sé gömul sál – og forn í máli. Og þá geta þeir bara skrifað eins og þeim hentar best. Í Hafnfirðingabrandaranum reyndi ég að hafa textann skýran og hnitmiðaðan án þess að einfalda orðanotkunina. Aðalsöguhetjan notar til dæmis orð úr Íslendingasögunum – sem hún er að lesa í skólanum – og allskonar frasa sem við þekkjum úr fjölmiðlum eða opinbera kerfinu (eins og „foreldrar og forráðamenn“) en þá leitast ég við að hafa samhengi samræðunnar eða frásagnarinnar það skýrt að orðin ættu að skiljast vel – þrátt fyrir að vera kannski sjaldgæf.

Hitt er miklu erfiðara. Þegar við skrifum fyrir börn og unglinga þá vitum við vel að þau eiga sér yfirleitt einhvern fullorðinn umyggjusaman aðila (t.d. „foreldra eða forráðamenn“!) sem kíkir á það sem þau eru að lesa eða gera í tölvunni og vill hafa skoðun á því – sem verður að teljast mjög eðlilegt. Árið 1992 kom til að mynda út unglingabókin Bak við bláu augun eftir Þorgrím Þráinsson og í henni var víst kynlífssena – án þess að ég viti hvernig hún er enda máttum við krakkarnir ekki taka hana á bókasafninu skólans. Á sama tíma og við vitum vel að unglingar í 10unda bekk eru byrjaðir að gera allskonar hluti sem tengjast áfengi og jafnvel kynlífi þá erum við fullorðna fólkið mjög sammála um að slíkt eigi ekki finnast í unglingabókum nema þá að sterkur boðskapur um að slíkt sé „ótímabært“ fylgi með. Við erum mun frekar til í að skrifa bækur þar sem morð eða glæpir koma við sögu fyrir börn og unglinga enda deyja margir t.d. í Harry Potter en enginn stundar kynlíf eða fer á fyllerí – þú veist, samt eru þau á heimavist!

Klara sem er aðalsöguhetjan í Hafnfirðingabrandaranum er ekki jafn fullkomin og stelpur eru gjarnan í unglingabókum. Hún er ekki það dugleg að læra heima (sofnar yfir lestrinum og hermir eftir öðrum í skólanum) og ákvað sjálf að hætta í tónlistarnáminu. Hún virðist ekki þola íþróttir heldur. Og hún er með kynhvöt – og veltir fyrir sér hvort hún stefni í að vera með kynhvöt á við kanínu. Hún reyndir einu sinni að fá strák með sér heim en hann komst ekki. Þetta var svona mín leið til að finna einhvern milliveg. Að leyfa henni að vera gölluð og að hafa kynhvöt – án þess að það leiði nokkuð af sér og án þess að hún sé slæm fyrirmynd heldur.

EÖN: Ég hef einmitt oft velt því fyrir mér með orðfærið hvort það fari ekki betur á því að vera með ókunnugleg orð heldur en að eltast við eitthvert samtímaslangur – því slangur sem er þegar í umferð og allir eru farnir að nota verður að orðaleppum á meðan ný og ókunnug orð eru fersk. Besta dæmið um þetta, sem ég man, eru Gauragangsbækurnar – Ormur og Ranúr tala sitt eigið slangur. Það er auðvitað talsvert af þessu líka í Hafnfirðingabrandaranum – fyrir sakir næntís orðalags. Ég geld svolítinn varhug við rithöfundum sem eru með táningabörnin sín til ráðgjafar um slangrið, því kapphlaupið við þann tíðaranda er alltaf tapað. Rithöfundurinn verður – alveg einsog í öllum öðrum bókum – að stýra málfarinu sjálfur og velja sína fagurfræði af betri ástæðum en þeirri að það sé í móð.

Það er að sama skapi merkilegt að narratífur fyrir unglinga skuli einblína á sorg og gleði og reiði en láta gredduna alveg vera.

Veruleikamelankólía og ævisögulega aðferðin

Mig langar að spyrja þig aðeins út í veruleikann. Fremst í bókinni stendur skrifað:

Saga þessi er skáldsaga. Hún er skrifuð til minningar um frænda minn og frænku sem ég kynntist aldrei og mun aldrei geta skrifað um af sannindum. Sagan er lauslega byggð á munnlegum frásögnum sem varðveist hafa innan fjölskyldunnar af þeim tveimur. Með von um nánari kynni á annarri plánetu eða annarri vídd.

Hvers vegna að nota veruleikann frekar en að skálda bara frá grunni? Er eitthvað í því sjálfu, að þarna sé veruleiki, sem heillar – er kannski hætt við að hrein fantasía, jafnvel þó að hún sé realísk, missi jarðtenginguna?

BB: hafnfirðingabrandarinnMig langaði til að skrifa sögu sem gerist í Hafnarfirði af því að mér þykir vænt um Hafnarfjörð. Og ég veit ekki til þess að það hafi verið gert síðan Guðrún Helgadóttir skrifaði Sitji Guðs englar-bækurnar sínar. Landslagið þar er dramatískt með öllu þessu hrauni og mér fannst kjörið að láta atburði gerast einnig á eina kaffihúsinu í bænum en Súfistinn var lengi vel sá staður. Ég er heldur melankólísk og með því að sitja við skriftir í Reykjavík, en hugsa um æskuslóðirnar í Hafnarfirði, komu fram tilfinningar sem ég leitaðist síðan við að koma í orð og færa inn í söguna. Þannig er sagan fyndin en hún er stundum líka sorgleg eða þung og myrk. Þetta hjálpaði mér við að rifja upp tilfinningar sem ég – eins og margir aðrir – tengi við unglingsárin, sem er að hafa þessar miklar væntingar til jafnvel smæstu gjörða (eins og að fara út í sjoppu eða með vinum á kaffihús) og upplifa líka ákveðin vonbrigði sí og æ. Þegar ég skrifaði söguna var ég hrifin af félagslegu raunsæi og ég held að það hjálpi þá talsvert að staðsetja hana í veruleikanum með allri sinni fortíð, ryki, veseni og þekktum stöðum – sem lesandinn hefur jafnvel sjálfur komið til og á því auðveldara með að sjá fyrir sér. Ég held reyndar að fantasían geti gert þetta líka – á sinn hátt. En kannski er nú eitthvað erfiðara að fást við félagslegt raunsæi í fantasíuheimi. Eða hvað? Hvað myndi Mike Leigh segja við því?

Ingimar og Hallbera sem ég tileinka bókina hafa veitt mér ákveðin innblástur en óbeint því ég kynntist þeim aldrei og þau dóu bæði barnslaus. Hann drukknaði 1959 en hún lést í Steubenville í Bandaríkjunum 1993. Innan fjölskyldunnar hafa hins vegar varðveist sögur af þeim, sem lýsa þeim sem einkar áhugaverðum persónum. Ég safnaði saman nokkrum sögum (en enn þann dag í dag heyrir ég svo nýjar sögur af þeim) og nýtti þær til að móta tvær persónur sem endurspegla eldri kynslóðina. Þetta eru þó aðallega einskonar gamansögur en gjarnan með sorglegri undirtóni. Ingimar var til að mynda lagður í einelti líklegast vegna þess að hann fór ótroðnar slóðir og hugsaði öðruvísi og „stærra“ en margir, eins og t.d. um lífræna ræktun og sjálfbærni – árið 1940. Hann var grænmetisæta og stundaði yoga. Hallbera þótti vera góður sögumaður, ýkti talsvert og gat verið skapmikil. Ég hef lengi litið upp til hennar því hún fór einnig ótroðnar slóðir en á annan hátt en Ingimar – var einkar sjálfstæð og gustmikil. Lét ekki segja sér fyrir verkum. Og hún flutti til Ameríku sem mér finnst alltaf sýna mikinn kjark. Að fara ein svona langt frá Hafnarfirði og fjölskyldunni á þessum tíma. Ef ég væri vanur og góður rithöfundur og gömul í hempunni gæti ég kannski skrifað betri bók um þau tvö. En líklegast hef ég áhugann og aðdáun mína á ýkjum og gamansögum frá Hallberu.

EÖN: Hafnfirðingabrandarinn gerist á tíunda áratugnum þegar þú varst unglingur, í Hafnarfirði þar sem þú ólst upp, og fjallar um stelpu sem borðar mjög mikið nammi (ef ég kalla upp mynd af þér í huganum þá er líka á myndinni nammi- eða snakkpoki). Hversu mikið af Klöru er í þér, af þér í Klöru?

BB: Slatti af mér í henni og henni í mér. Að sjálfsögðu. Enda vita allir sem hafa lesið bókina að Klara er sjálfhverf, tilfinningarík, svolítið snobbuð (finnst skrýtið að fólk sé að byrja saman ef það er í hægferð í dönsku) og þó nokkur tækifærissinni – en til að mynda varð hún ekki skotin í Skúla fyrr en hún fréttir af því að öðrum stelpum í skólanum finnist mikið til hans koma. Og ýmislegt annað í fari Klöru kannast ég líka við – að vera hálfgerður gallagripur og alltaf í baráttu við sjálfa sig.

En síðan er þetta víxlverkandi. Ég ákvað til dæmis að hún ætti að hlusta á Nirvana því ég tengdi þá hljómsveit við 10unda áratuginn en í kjölfarið fór ég líka að hlusta mikið á hljómsveitina en þegar ég var sjálf á hennar aldri hefði ég líklegast ekki getað nefnt eitt lag með hljómsveitinni. En Klara á alls ekki að endurspegla mig sérstaklega heldur einhverskonar tilfinningalegt ferðalag, líkt og aðrir karakterar sem gegna svipuðu hlutverki, eins og t.d. Holden Caulfield úr the Catcher in the Rye sem gefin var út 1951 en talar enn þá til okkar. Það gladdi mig þess vegna mikið þegar pabbi minn sem er 74 ára sagðist sjá sig í Klöru og að gamlar tilfinningar sem hann tengdir við unglingsárin sín hafi rifjast upp fyrir honum. Og það sama sagði bróðir minn sem er 41 árs.

Mér þætti reyndar agalegt ef einhver héldi það að bókin sé einfaldlega skrifuð í kringum mína reynslu af 10unda bekk og það sé allt og sumt því það gerir ansi lítið úr allri þeirri vinnu sem felst í því að búa til söguframvindu með samtölum og uppákomum, móta strúktúr, skapa spennu og lýsingar á tilfinningaheimi sem á að vera mun frekar sammannlegar og ná þannig út fyrir þessar agnarsmáa reynslu höfundarins tengda einhverju stuttu tímabili í lífi hans – sem í mínu tilkviki var ekki einu sinni í frásögur færandi. Mér finnst að þessu mætti líkja því við að vera hönnuður og leggja hart að sér að handgera fallegan hlut sem í ofanálag virkar vel – en fá síðan þau viðbrögð að þetta sú nú bara eitthvað dót sem viðkomandi fann ofan í skúffu heima hjá sér.

Eitt af því sem ég lærði af sköpunarferlinu er að þegar maður vinnur svona lengi að einni sögu – kemur að henni aftur og aftur yfir langt tímabil – þá verður hún marglaga. Hún vísar þannig látlaust út fyrir sig því alls konar innblástur er nýttur til að hnika við sögunni, bæta hana og koma henni áfram. Þannig koma margir að sögunni og mótun hennar – og sumt furðulegra en annað. Til að mynda las ég ævisögu Kurt Cobain á meðan Klara var enn í mótum og þá tók hún að erfa eitthvað af persónueinkennum hans. Allt í einu var hún orðin heldur neikvæður kvíðasjúklingur og fíkill. Og ekki gat það verið heróín eða áfengi sem hún misnotar – það varð að vera nammi því þetta tengist allt saman auðvitað fyrstu spurningunni um hvað sé leyfilegt að gera í barna- og unglingabókum. Seinni heimstyrjölind kemur einnig inn í söguna en þá var ég að lesa Sláturhús fimm eftir annan Kurt og einnig Mennina með bleika þríhyrninginn. Svona liðu tvö eða þrjú ár og stundum man ég ekki lengur hvað ég var að hugsa eða pæla þegar ég skrifaði suma hlutana.

EÖN: Þessi snertipunktur veruleika og skáldskapar er svo áhugaverður. Skáldskapur er auðvitað allur byggður á manns eigin reynslu – og oft verða hálfskyggðar sögur að uppsprettu fyrir eitthvað miklu meira. Þegar glittir í eitthvað spennandi, án þess að maður þekki allan sannleikann, getur maður farið að fantasera um hann á annan hátt. En svo er líka merkilegt þetta með hvað maður setur af sjálfum sér í skáldsagnapersónur – og hvað aðrir geta svo lesið úr þeim í mann eða fólkið í kringum mann, eða þykjast sjá. Stundum er það ótrúlega langsótt. En ég man þegar að Eitur fyrir byrjendur, önnur skáldsagan mín, kom út á sænsku fyrir nokkrum árum og ég las hana í rútunni á leiðinni á bókmenntahátíð í Umeå – sú bók fjallar engan veginn um mig eða neinn sem stendur nærri mér, en það var ótrúlega mikið af hlutum sem rifjuðust samt upp fyrir mér við lesturinn. Næstum einsog ég væri að lesa gamla dagbók. Matur sem ég eldaði stundum, bíll sem ég sá á götu, einhverjir útlitseiginleikar – en svo líka bara hugmyndir og þankar sem voru svo lifandi fyrir manni nokkrum árum áður. Þannig er allt sem maður skrifar að sjálfsögðu hluti af sjálfum manni (þótt það sé ekki endilega markmiðið að spegla sjálfan sig). Það hefur m.a.s. hvarflað að mér að Illska – með öllum sínum persónum og á spani sínu um tíma og rúm – sé líka einhvers konar smásmuguleg greining á mínu eigin sálarlífi (þótt enginn græði kannski á þeim lestri nema ég).

Konur, karlar og Hafnarfjörður

Mig langar að spyrja þig aðeins meira út í staðinn – eða staðinn-í-bókmenntunum. Bókmenntir hafa löngum verið tæki til að skrifa um staði, til að afmarka mengi fólks sérstaklega – þjóðir, landshluta, borgir, bæi, jafnvel tilteknar fjölskyldur, og auðvitað stéttir. Ég veit ekki alveg hvernig er best að orða það – hvað er Hafnarfjörður fyrir þér? Hvað er hafnfirðingur? Rómantík og nostalgía – sjálfsmyndarbygging eða afbygging?

BB: Fyrst hitt, sem þú nefndir, um að skáldskapur sé auðvitað alltaf byggður á manns eigin reynslu. Nú hef ég aldrei lært bókmenntafræði og þekki ekki þessar mismunandi nálgangir sem þar eru kenndar. Ég hef hins vegar verið að velta fyrir mér hvort að þetta geti útskýrt að einhverju leyti þá staðreynd að aðeins 1/3 þeirra sem fá ritlaun séu konur – en þær eru 1/3 umsækjanda og þrátt fyrir það eru þær meirihluta nemenda í ritlist við HÍ og hafa verið lengi. Það þýðir að fyrir hverja konu á ritlaunum erum við með tvo skrifandi karlmenn á sömu launum. Stelpum og konum er gjarnan innrætt einskonar hógværð. Við eigum ekki að vera að trana okkur fram, gjamma, vera bekkjartrúðar eða beina kastljósinu að sjálfum okkur. En þegar við skoðum síðan skáldskap á þessum nótum – hvar megi koma auga á höfundinn í sögunni og hvað í verkinu sé hans reynsla og annað í þeim dúr – þá gerist það óhjákvæmilega, að höfundinum hlýtur að líða eins og hann sé að trana sér fram og sé athyglissjúkur. Að hann haldi að hann sjálfur sé það merkilegur að hann þurfi að skrifa bók um það og láta prenta hana út í mörg þúsund eintökum. Þannig verður alltaf ákveðin sjálfhverfa fléttuð inn í skáldskapinn hvort sem maður leitast beint við að gera slíkt eða ekki. Ég velti fyrir mér hvort að konum finnist slíkt vera meira óviðeigandi og erfiðara en körlunum vegna þessarar félagsmótunar hógværðar.

Nú er þetta ómótuð hugsun en ég segi þetta vegna þess að kvenkyns höfundur mætti á höfundakvöld í Gunnarshúsi um daginn til að tala um bókina sína og minntist þá einnig á að sér þætti jólavertíðin erfið og helst þyrfti hún að fara á heilsuhælið í Hveragerði á eftir. Á undan henni hafði eldri maður mætt með verk sitt sem fjallar um hans yngri ár og hann minntist aldrei á að honum þætti það óþægilegt eða að hann stefndi á Hveragerði eftir áramót. Og kannski getur þetta þá útskýrt líka af hverju konur skrifa frekar barnabækur eða fantasíur. Eitthvað sem er ekki félagslegt raunsæi og gerist þá ekki í veruleikanum.

Í framhaldi af þessu hef ég einmitt líka verið að leita svara við spurningunni af hverju Steinar Bragi sé sá fyrsti til að ríða á vaðið þegar það kemur að stórri sögu sem er fyrst og fremst um kynferðisofbeldi á konum. Hefði verið erfiðara fyrir konu að stíga fram með sambærilegt verk? Hefði fólk þá frekar velt fyrir sér hvort þetta væri einhver reynsla höfundarins sjálfs sem hún væri að vinna hér úr (eitthvað sem hún lenti í eða vinkona hennar) – frekar en að hún hafi bara kjark til að takast á við þessi mál á óvæginn hátt eins og við segjum Steinar Braga gera? En auðvitað er höfundurinn alltaf að einhverju leyti í verkinu og fólk vill gera mismikið úr því. Og þetta gerist víst alltaf: Ég veit að Tolkien var ekki hress með það að fólk væri að líkja honum við Bilbó Baggins og aðstæðum í Miðgarði við reynslu hans af Fyrri heimstyrjöldinni. Vonnegut sá við svona lestri og segir einfaldlega í fyrsta kaflanum að Sláturhúsi fimm að þetta hafi allt saman gerst – meira eða minna. Og svo er aðalsöguhetjunni rænt af geimverum.

Svo er það Hafnarfjörður. Það er svo erfitt að líta í eigin barm til að reyna að greina eigin sjálfsmynd og úr hverju hún er. Hafnfirðingabrandarinn heitir þessu nafni af því að Hafnfirðingabrandarar voru vinsælir hér fyrir áratug eða tveimur (þegar Hafnarfjörður var að stækka og marka sér sess sem annar stærsti bær landsins) og gengu út á það að Hafnfirðingar væru vitleysingar. Hins vegar getum við einnig skoðað þessa brandara sem sögur um fólk sem er uppátækjasamt og er tilbúið til að prófa nýja hluti til að sjá hvernig þeir virka. Ég held að Hafnfirðingar hafi að nokkru leyti þessa sjálfsmynd. Að þeir séu gamansamir, taki hlutunum ekki of alvarlega, séu heldur listrænir eða miklir íþróttamenn – og svo að þeir búi í alveg sérstökum bæ.

Hafnarfjörður er ekki úthverfi Reykjavíkur. Ég verð alveg brjáluð ef einhver ætlar að halda því fram að Hafnarfjörður sé útverfi. Sá aðili hefur þá ekkert vit á sögu staðarins eða hvað einkennir bæi umfram úthverfi. Fyrir mér er Hafnarfjörður rómantískur og nostalgískur því þar bjó ég fyrstu 20 ár ævinnar og gott betur. Hann hefur áhrif á sjálfsmyndina og ég hef enn ekki getað afbyggt hana að ráði – nema þá kannski með því að afbyggja Hafnfirðingabrandara og segja: Nei, við erum ekki vitlaus – við erum opin, tökum okkum sjálfum ekki of alvarlega og erum til í að skoða hlutina frá mörgum sjónarhornum. Ég er mikill Hafnfirðingur en stundum langar mig alveg til að vera meira cosmopolitan.

EÖN: Ég þekki engan sem hefur gaman af jólabókaflóðinu – ég er sjálfur í viðstöðulausu kvíðakasti yfir hverri einustu útgáfu, ekki bara á Íslandi heldur líka núna í Svíþjóð og Danmörku, gúgla mér fimmtán sinnum á dag með öndina í hálsinum yfir því sem ég gæti rekist á (velgengni dregur heldur ekkert úr hégómagirnd manns eða kvíða, hugsanlega gerir hún mann bara verri). Ef að eldri höfundinum finnst þetta ekki óþægilegt þá gæti það hreinlega verið kynslóðaspurning – það er ekki víst að eldri kynslóðum finnist þær jafn skuldbundnar markaðnum eða að þær séu jafn investeraðar í athyglinni.

Brett Easton Ellis hefur talað um að millenial kynslóðin, sem er þá fólk fætt frá 1980 til 2000 (ég er 1978) séu bara aumingjar – „generation wuss“ – að hún þoli einfaldlega ekki krítík (ekki að íslenska jólabókaflóðið – eða önnur jólabókaflóð – séu svona krítísk reyndar). Hann hefur bent á að sum vefrit – t.d. Buzzfeed – hafi hreinlega hætt að birta neikvæða rýni. Í samtali við gítarleikarann og söngvarann í Vampire Weekend, Ezra Koenig, sem er einmitt millenial kom Ezra samt með dálítið áhugaverðan punkt um að þetta sé fyrsta kynslóð listamanna sem kemur á sjónarsviðið á tímum tafarlausra viðbragða. Fyrir 40 árum fengu frægir tónlistarmenn kannski annað veifið bunka af blaðadómum frá umboðsmanninum sínum sem þeir gátu þá annað hvort lesið eða hent – möguleikinn var fyrir hendi að hunsa hann. En í dag gefurðu út 500 blaðsíðna skáldsögu á hádegi og klukkan eitt er fólk farið að tísta á twitter um útlit, innihald og svo framvegis – það eru komment á öllum viðtölum, það sem við segjum á Facebook endar í DV með fleiri kommentum og svo framvegis og svo framvegis. Og þetta er rosalegt álag – meira að segja bara það að reyna að hunsa þetta allt saman er álag. Að gúgla sér ekki er andlegt stress, það er eitthvað sem fólk, einsog ég allavega, sem er með internetið í fingrunum allan daginn, þarf að gera aktíft. Og kannski eru eldri höfundar bara betri í að dylja taugaveiklun sína.

BB: Já, ég ætla nú ekki að fara að fullyrða neitt um líðan allra karla og vona bara að sem flestir séu afslappaðir og hressir. En núna langar mig samt til að viðurkenna að mér fannst mjög gaman í jólabókaflóðinu 2011 en þá var ég með barnabók um húsflugur. Bókin kom út með pompi og prakt þar sem hún hafði unnið til verðlauna. Það var talsvert auðveldara að fylgja henni eftir þar sem hún var þegar komin með gullstimpil á kápuna – nema kannski þegar fólk fór að lesa pólitískar skoðanir mínar út frá baráttu flugnanna við stríðsherra í fjarlægu landi. Hvort ég væri að tala máli NATÓ eða kannski Talíbana – og hafði fólk misjafnar skoðanir á því hvort væri verra.

En mér finnst þetta svolítið óhugnanleg stemmning sem þú lýsir og það er að ég held rétt að hún býður einnig upp á ákveðna klikkun vegna hraða og stærðar internetsins. Hefðin hefur verið sú að rithöfundurinn er yfirleitt einn að baki skáldsögunnar sem þýðir að hann þarf að horfa upp á ljósmynd af sjálfum sér við hliðina á kannski slæmum dómi upp á eina stjörnu – í blaði sem er dreift inn á heimili allra sem maður þekkir. Þá væri líklegast skárra að vera í tónlist og í hljómsveit og geta leitað til hinna meðlimanna til að agnúast út í þennan glataða dóm.

Ég las dagbækur Kurt Cobain nýverið, svona eins og fólk gerir, en hann skyldi eftir sig fjall af dagbókum og bréfum sem hafa verið gefin út og hægt er að panta á Amazon. Ég lærði ýmislegt af þeirri lesningu. Eins og að sjálfsefinn og óánægjan verða alltaf til staðar – jafnvel þótt það gangi virkilega vel. Þú lýsir þessu einmitt líka, Eiríkur. Og að eina gæfan eða hamingjan sem fæst fyrir víst við listiðkun er sú vellíðan sem listamaðurinn finnur þegar sköpunin á sér stað og hann getur gleymt sér í henni. Kannski þess vegna segjast svo margir skrifa fyrst og fremst fyrir sjálfa sig. Þótt þeir viti auðvitað líka að þetta sé flóknara en svo. En það veit maður þó fyrir víst.

Gat nú verið: pólitík!

EÖN: Að því sögðu er augljóslega kynjahalli í bókmenntunum og á ritlaununum. Ég hef reyndar ekki skoðað það sérstaklega með tilliti ritlauna en mér sýnist það verða verra eftir því sem við skoðum eldri höfunda – og þar kemur kannski til bæði að ástandið sé að skána (sem maður vonar) og að áhugi á bókmenntum kvenna fari dvínandi eftir því sem þær verða eldri. Það væri þá í samræmi við áhuga á konum í öðrum „skemmtanaiðnaði“ þar sem konur þykja fyrst og fremst spennandi meðan þær eru ungar og sætar. Þegar við vorum að vasast í Nýhil á sínum tíma var það meðal annars vegna þess að við áttum ekki aðgengi að forlögunum, sem sóttust frekar eftir ljóðabókum ungra kvenna en ungra karla. Ég veit nokkur dæmi þess að gengið hafi verið á eftir ungum konum með ljóðabækur en enginn sambærileg um unga karla – verðlaunahöfundurinn ég þarf m.a.s. að væla inn mínar ljóðabækur ef ég vil þær útgefnar. En ég hef líka velt því fyrir mér með sjálfan mig – ég átti mjög erfitt með að fá ritlaun í fyrsta skipti, það var ekki fyrren eftir margar bækur að ég fékk svo mikið sem krónu, hvort að það mótlæti hafi kannski gert mig agressífari. Svona einsog ég skrifaði Illsku upp úr Gæsku, sem floppaði illa (frábær bók samt, ég lofa!) vegna þess að mér fannst að ef mér tækist ekki að umfaðma allan heiminn þá myndi ég bara deyja. Ég hef hugsað þetta líka í sambandi við alls kyns átaksverkefni, einsog Stelpur rokka, sem mér finnst samt frábært – þá er næstum einsog mér finnist eitthvað vanta í rokkið þegar rokkið er orðið að sumarbúðaverkefni í góðgerðastarfi. Vantar þetta sem Dave Grohl er alltaf að tala um í meme-myndum á Facebook um að maður verði bara að geta leyft sér að læsa sig inni í bílskúr með vinum sínum til að búa til hávaða og segja heiminum að fokka sér.

BB: Þetta viðtal er eiginlega farið að snúast um pólitík! Gat nú verið. Til að segja eitthvað um þetta mál þá hef ég verið að velta fyrir mér hvað verður um ungt fólk sem er alið upp af róttækum foreldrum. Hvar myndast þá rými til mótspyrnu og að fara ótroðnar slóðir? Til að mynda er eiginlega róttækara að ferma sig – en að gera það ekki – ef foreldrar manns eru trúlausir. Svo kemur tónlistarstjarna eins og Dave Grohl og leggur til að unga fólkið sé inni í bílskúr að segja öllum að fokka sér eins og hann og Cobain og Novoselic gerðu fyrir meira en 20 árum síðan. Og margir aðrir hafa líka gert svo lengi. Hversu rótttæk getur endurtekningin verið?

Varðandi Stelpur rokka þá er það minnsta kosti nýtt af nálinni og ekki var mikið að gerast áður en það verkefni varð til. Þess vegna finnst manni að það hljóti að vera að minnsta kosti verðug tilraun til að sjá hvort kynjahallinn í rokktónlistinni breytist. Við vitum það ekki enn þá. Og þó – kannski erum við byrjuð að sjá einhverjar breytingar núna sem kannski má rekja til þessa verkefnis – beint eða óbeint?

Ég hef samt stundum verið hugsi vegna unga fólksins (nú getur maður ekki sagt orðið „hugsi“ án þess að hugsa um Hönnu Birnu) í dag sem er jafnvel kennt að vera – ekki að vera íhaldssöm – heldur róttæk af eldri kynslóðinni. Og hvernig það er gert: svona og svona. Og svo á að hugsa og tala: svona og svona. Við sjáum frekar unga listamenn stíga fram eins og Lönu del Rey með texta og myndbönd sem greina má sem frekar íhaldsama og nostalgíska. Þegar hún gaf út nýjustu plötuna sína, Ultraviolence, mátti heyra raddir þess efnis að hún væri ekki nógu feminísk í listsköpun sinni. Og að textarnir hennar væru ekki að gera nógu valdeflandi fyrir konur. Þá var einnig nefnt að hún væri ekki góð fyrirmynd. Kannski verður einmitt þetta eitt helsta umræðuefni næstu tíu eða tuttugu ára þegar það kemur að greiningu á hvers skonar list – að list unga fólksins sé aldrei nógu róttæk fyrir eldri kynslóðina.

En nú erum við líka aftur komin að kyni listamannsins og listsköpun hans. Lana del Rey var 28 ára þegar Ultraviolence kom út. Hún var eldri en Cobain þegar hann svipti sig lífi og hún var ekki að gera tónlist fyrir börn og þarf því ekki að vera fyrirmynd fyrir einn né neinn. Það er ömurlegt að troða listamanni í slíkt hlutverk (hafi hann engan áhuga á því sjálfur). Í öðru lagi getum við ekki heldur dæmt alla kvenkyns listamenn á grundvelli þess hversu róttækar þær eru og hversu valdeflandi list þeirra er fyrir allar konur út um allan heim – það er allt of stór krafa sem mjög fáir og jafnvel enginn getur staðið undir svo vel sé.

Ég held að um leið og við ætlum að skapa listaverk til að gera öðrum til geðs eða fylla kyrfilega upp í ákveðna hugmyndafræði þá sé stutt í að listamanninum fallist hendur og hann geri að endingu ekki neitt. Þess vegna er kannski mikilvægt að taka sig heldur ekki of alvarlega og leyfa sér að vera ófullkominn og sáttur við að gera ekki allt kórrétt. Eða eins og sálfræðingur einn sagði við mig um daginn: Ef það er 80% fínt þá er það 100%. (En þú gafst Hafnfirðingabrandaranum einnmitt 4 stjörnur af 5 á Goodreads um daginn. Ég verð eiginlega að líta á það sem 100% ánægju – svona í tilefni þessa!)

EÖN: Já, sjitt. Nú er ekki hægt að setja stjörnur á Goodreads án þess að höfundurinn viti – ætli það sé hægt að láta símann plinga á sig í hvert skipti? Það væri athugandi upp á nojuna. Þá væri nú gaman í jólabókaflóðinu. Ég hef tvisvar sinnum þurft að stoppa mig af að kommenta á umfjallanir um Illsku á Goodreads. En já – fjögurra stjörnu bók, alveg 80% (ég gef eiginlega engum fimm stjörnum, kannski Dostójevskí, hann er auðvitað 100%). 80% er auðvitað líka 0% – maður getur orðið alveg feykilega pirraður á aðfinnslum og fundist að minnsta gagnrýni eyðileggi allt.

Það er líka rosalega óþægilegt einmitt þegar fólk les sína eigin pólitík – eða einhverja mjög tiltekna pólitík – inn í bókmenntir og gleymir því að bækurnar eru fyrst og fremst listaverk, frásagnir en ekki manifestó. Það verður ekki endurtekið nógu oft.

En heyrðu, nú er þetta að verða mjög langt (ég röfla svo mikið í þessum spurningum), ég ven mig á að spyrja að einhverju léttu að lokum: Er það satt að hafnfirðingar læðist alltaf framhjá apótekum? Ferðu alltaf með stiga út í búð? Áttu þér eftirlætis hafnfirðingabrandara?

BB: Heldur betur. Uppáhalds Hafnarfjarðarbrandarinn minn er brandaralegt afrek þar sem hann nær að tvinna saman tvær erkitýpur úr brandarabransanum í eina og sama brandarann. Og um leið snertir hann mig auðvitað sérstaklega sem ljóshærðan Hafnfirðing. Eflaust þykir kannski ekkert sérstaklega töff að enda umræðu um listina og lífið á brandara en ég læt þetta tækifæri mér ekki úr greipum ganga enda hef ég miklar mætur á bröndurum: Ljóskan var að keyra í Hafnarfirði þegar löggan stoppaði hana og bað um að fá að sjá ökuskírteinið hennar. „Hvað er það?“ spurði hún. „Það er svona bleikt með mynd af þér“ svaraði lögreglan. Hún leitaði í veskinu þangað til hún fann bleika púðurdós, tók hana upp og opnaði og leit í spegilinn. „Er það þetta?“ spurði hún. Löggan tók dósina og leit í spegilinn og segir svo: „Nú! Ekki vissi ég það þú værir í lögreglunni!“