Ritstjórnarpistill: Eina ástin sem skiptir máli

Starafugl lauk sínu fyrsta heila vikuflugi á laugardag með birtingu á færslu í flokki „tónlistar vikunnar“ – þar sem Haukur S. Magnússon velti því fyrir sér hvort að poppmúsík væri búin að missa bitið, hvort hún hneykslaði engan lengur, og rifjaði upp dauðateygjurnar, svo að segja, The Downward Spiral með Nine Inch Nails og heimildarmyndina The Closure Pt 1.

Haukur skrifaði meðal annars:

Einhver gæti ímyndað sér að, rétt eins og djassmúsík og ljóðlist (og mörg önnur list), hafi poppmúsík verið stofnanavædd, að allar tilraunir til hennar séu að lokum samdar inní formið, gerðar til heiðurs fyrirrennurum, stílæfingar og tribjúts. Aðrir gætu hugsað sem svo að þráfelld viðleitni poppara til að reyna á þanþol hneykslunarmarka og víkka út landamæri hins ásættanlega hafi að endanum borið árangur, að eftir því sem heilögum kúm var varpað á bálið hafi þær á endanum klárast.

Það er margt í þessum (frábæra) pistli sem slær ritstjóra menningarrits sem vill kannski frekar hneykslast en hneyksla, hvetja til hneykslunar, hvetja til þess að fólk leyfi sér að finna til listaverka og tala um það upphátt (frekar en til dæmis að yppta öxlum eða fussa í laumi) og ákalli jafnvel Drottinn almáttugan á innsoginu og krefjist þess að eitthvað verði gert. Það er eitthvað í mér sem segir að þetta sinnuleysi, þessi skortur á eðlilegum viðbrögðum við listaverkum, sé hálfgerður sjúkdómur, einhver doði. Svona einsog að missa lyktarskynið. Ef maður getur ekki tekið andköf, getur maður þá elskað? Finnur maður yfir höfuð til? Ég vona að mér fyrirgefist þau borgaralegheit að vitna í Shakespeare – beint af bloggi Hannesar Hólmsteins, vel að merkja – en „blæðir okkur ekki af stungum? hlæjum við ekki af kitlum? deyjum við ekki af eitri? og hefnum við ekki ranglætis?“. Og bæta við: Fussum við ekki yfir illa skrifuðum bókum? Reiðumst við ekki illa spilandi hljómsveitum? Ofbýður okkur ekki siðleysi hvar sem það birtist – einnig í listaverkum?

Sindri Eldon sagði líka í viðtali á föstudag að allir ættu sannleikann skilið, en við það má bæta að voða fáir virðast treysta sér til að veita hann nema hann sé mjög þægilegur fyrir þann sem er að hlusta. Einhver sagði að góður gagnrýnandi þyrfti að vera hálfsiðblindur til að endast eitthvað í starfi. Gagnrýnandi sem kann bara að hrífast með, en kann ekki að hneykslast, gagnrýnandi sem getur ekki reiðst fyrir hönd listarinnar sem hann segist elska, er að lokum bara lóð á vogarskál þeirrar meðvirkni sem skipar listinni á bekk með öðrum borgaralegum skreytingum, þar sem enginn munur er á laginu sem þú hlustar á og jólakúlunni á trénu: þau fylla upp í rýmið og glitra. Og ekkert meira. Fullburða gagnrýnandi verður að bera miklar tilfinningar til listarinnar sem hann rýnir. Og sé slíkur gagnrýnandi ekki hálfsiðblindur er hætt við að hann bugist fljótt og örugglega. Það þarf ekki til að listamenn veitist að honum úti á götu – meira að segja Sindri Eldon segist ekki hafa orðið fyrir miklu aðkasti, og ef hann þarf ekki að kvarta þarf það sjálfsagt enginn – heldur er nóg að gagnrýnandinn gangi sjálfur um með samviskubit yfir orðum sínum. Það líður engum vel að pota í aðra. Að gera aðra leiða. Og finnst engum gaman að heyra svo hvísl um að hann hafi sett kvikmyndagerðarmann á hausinn með meinfýsni sinni eða sé bara bitur, misheppnaður listamaður sjálfur. Og það skiptir engu máli þótt maður hrífist oftar og meira en maður hneykslast – maður er fúli kallinn ef maður er ekki alltaf í stuði. En sá sem elskar listina getur ekki elskað öll listaverk – þaðan af síður.

En einsog Haukur bendir á í pistli sínum eru það kannski ekki bara gagnrýnendur sem hafa hlandvolga afstöðu til listarinnar, heldur einnig áhorfendur, áheyrendur og lesendur. Sem kallar fram í hugann spurninguna um hænuna eða eggið. Eru gagnrýnendur sívolgir vegna þess að þeir eru í raun bara listneytendur með penna frekar en að þeir þjóni sérstöku hlutverki við túlkun listaverka, mótun hins almenna smekks, og jafnvel pólitískum markmiðum þar á ofan, þeir séu sendiherrar tiltekinna gilda (hver sem þau svo eru)? Eða eru listneytendur sinnulitlir vegna þess að menningarumræða fjölmiðlanna er á svo miklu lágflugi að engin hugsun eða samræða nær að festa rætur? Hver getur látið sig það einhverju skipta í raun hvort að einhver bíómynd fékk 12 verðlaun eða 13 í „útlöndum“? Hvaða hjörtu slá hraðar vitandi af því að draumahelgi rithöfundar sé með sætum stráki á Baja? Hvern varðar um hver er að skilja og hverjir voru að byrja saman? Er það metnaðarfull menningarfjölmiðlun að endurbirta fréttatilkynningar um þýðingarsamninga sem eru næstum í sigtinu, sölu á kvikmyndarétti sem verður nær aldrei að neinu, hálfbókað þriggja-pöbba tónleikaferðalag um gervallar suður Bretlandseyjar, og svo framvegis? Eru kannski engir listamenn á Íslandi, bara seleb? Er þetta kannski bara hismi, ódýrt uppfyllingarefni – og hvað er þá orðið af listinni? Er selebkúltúrinn kannski bæði lítilsvirðing við listina og undirróður gegn henni? Er kannski bara ekkert skrítið að þjóðfélag sem forgangsraðar menningarfjölmiðlun niður á botn óttist ekki tónlist frekar en það hrífst af henni? Jújú, gaman, fínn taktur – flottur stóri salurinn í Hörpu, góð akústík. Góð stemning gulli betri. Íslensk tónlist að standa sig rosa vel erlendis. Listamannalaunin rosa arðbær. Sjáiði bara túristana.

Þið afsakið, en mér finnst þessi umræða ekki gefa til kynna að við leyfum okkur að finna til menningarinnar. Að hún snerti við okkur. Og þar sem umræðan verður „faglegri“ einsog heitir hættir henni til að verða líka hálfóáþreifanleg – þar sem gagnrýnendur hafa oft litlar skoðanir á verkunum og leyfa sér að delera í lausu lofti. Það er kannski ljótt að segja það, en það mætti alveg þröngva miskunnarlausri stjörnugjöfinni upp á þá sem koma sér aldrei að efninu – þótt deleringarnar séu að sönnu oft áhugaverðari en selebhismið.

Og kannski er uppsprettu þessa tilfinningadoða alls ekki að finna hjá listneytendum, gagnrýnendum eða fjölmiðlum. Kannski er bara lítið fútt í listaverkunum. Og kannski er þetta blanda af öllu ofangreindu. Líklega er það sennilegt, enda nærist þetta allt hvert á öðru, listamenn af listneytendum og menningarfjölmiðlum, listneytendur af listamönnum og menningarfjölmiðlum, menningarfjölmiðlar af listamönnum og listneytendum og svo framvegis hring eftir hring. Og allir að drepast úr hungri.

Þegar ég var að byrja að gefa út var algengt að yngri höfundar – og já, þar á meðal ég – fengju þann stimpil að þeir væru að „reyna að hneyksla hneykslunarinnar vegna“. Ég man eftir því að finnast þetta léleg undanbrögð. Þeir sem þetta nefndu voru nefnilega undantekningalítið hneykslaðir og það leyndi sér einfaldlega ekkert. En einhvern tíma var ákveðið að það væri töff að hneyksla – og glaaaatað að hneykslast. Og það sem við misstum var kannski ekki hinn alræmdi sjokkeffekt – né heldur að listamenn héldu áfram að reyna að víkka öll þrengstu op smáborgaranna – heldur sá vani að leyfa okkur að finna til þess. Leyfa okkur að finnast listin siðferðislega ámælisverð. Kannski höfum við misst trúna á hið ævintýralega – glatað sakleysinu í síðpómóinu – misst trúna á hið gotneska, hið karnivalíska, misst trúna á skrímslin undir rúminu. En það sem kemur á óvart er að við þetta fullorðnuðumst við ekkert – veröldin virkar ekki hótinu núanseraðri, við erum jafn pólaríseruð í afstöðu okkar, jafn ófær um samræðu, og allt að minnsta kosti jafn svarthvítt og fyrr.

Hvatinn að stofnun Starafugls var ekki síst einhvers konar óþol eða öfund. Ég hef verið viðloðandi skandinavískar menningarkreðsur í nokkur ár og eðlilegt nokk þá er umræðan sem þar fer fram með meiri litbrigðum og tilþrifum en sú íslenska. Norðurlöndin eru flest einfaldlega margfalt fjölmennari en Ísland, með fullri virðingu. Hvað tilþrifin varðar munar ekki minnstu um menningardebattinn, þessa viðstöðulausu tilraun til þess að hafa eitthvað í sigtinu og takast á um það frá öllum hugsanlegum sjónarhornum, ekki af dónaskap heldur afdráttarleysi. Og það munar um að fjölmiðlar hvetji bæði til hans og haldi honum gangandi – ekki bara af mannúðarástæðum heldur líka hreinum gróðasjónarmiðum. Fólk smellir á hlekkina og kaupir blöðin til að lesa nýjasta innleggið, um það þarf ekkert að deila. Og þetta smitar sér út í menningarlífið – menningarlífið svarar áhuganum og áhuginn vex af ríkulegu og oft erfiðu og krefjandi menningarlífi. En ef allir eru bara sammála um að allt sé frábært – og engu sé við það að bæta – þá er auðvitað ekkert til að tala um.

Þótt sjokkið sé ekki gróteskt, ekki gotneskt eða karnivalískt – þótt enginn kippi sér lengur upp við Twisted Sister – þá lifir sjokkið nú samt góðu lífi sums staðar. Því var sem dæmi ekki tekið með jafnaðargeði í Svíþjóð þegar sænska myndlistarkonan Anna Odell gerði sér upp taugaáfall og lét læsa sig inni á geðsjúkraspítala. Ljóðabók hins danska Yahyas Hassan var ekki tekið með jafnaðargeði – líkt og greint hefur verið frá á Starafugli – og seldist í kjölfarið í 100 þúsund eintökum, þar af ábyggilega 90 þúsund á innsoginu. Því var ekki tekið með jafnaðargeði þegar sænski rapparinn Timbuktu stakk upp á því í einu laga sinna að formaður Svíþjóðardemókratana, rasistinn Jimmie Åkeson, yrði laminn gulur og blár og hífður upp í flaggstöng – og því var ekki tekið með jafnargeði þegar íhaldsþingmaðurinn Per Westerberg neitaði af þessum sökum að mæta á verðlaunaathöfn sem haldin var Timbuktu til heiðurs.

Menntamálaráðherra Svía, Lena Adelsohn-Liljeroth, skar fyrsta bitann úr klofinu – og umskar kökukonuna.

Menntamálaráðherra Svía, Lena Adelsohn-Liljeroth, skar fyrsta bitann – umskar kökukonuna og gaf henni síðan bita.

Því var ekki tekið með jafnaðargeði þegar afró-sænski listamaðurinn Makode Linde stillti fram köku í laginu einsog svört nakin kona á World Art Day – þess var krafist að menntamálaráðherra, sem var fenginn til að skera kökuna, segði af sér. Þetta eru vissulega dæmi um realískari tök á siðferðismálum en í hinu karnivalíska hárrokki eða hinum óhlutbundna hávaðametal – og vissulega ekki alltaf tekist á um neina hreina fagurfræði (hafi það nokkurn tíma verið gert, sé hrein fagurfræði einu sinni til – listin er hluti af lífinu, ekki eitthvað utan við það). En því fer sem betur fer víðs fjarri að máttur listarinnar til að þenja samfélagið til hins ítrasta sé uppurinn, þótt það takist það ekki öllum og þótt samfélagið streitist oft á móti og vilji bara hafa það kósí.

Það er mín einlæga skoðun – segi ég einsog frambjóðandi til sveitarstjórnar – að hér skipti samspil og átök menningar og menningarfjölmiðlunar lykilmáli. Að rétt einsog listin er bitlaus og lítils verð ef við leyfum henni að breytast í borgaralegt skraut (eða síðbóhemskt krúttdútl) þá gildi hið sama um menningarfjölmiðlun. Og það sé mikilvægt að þegar listin hrópi svari fjölmiðlar, að þegar fjölmiðlar hrópi svari listin. Þótt það kosti ærumissi, þótt það kosti tár, þótt það kosti svita og sjálfboðavinnu langt fram á nætur, svefnleysi, fátækt, hark og hárreytingar (á sínu eigin hári og annarra). Þá sé það þess virði. Því eina ástin sem skiptir máli er sú ósérhlífna og linnulausa.