RIFF: Boyhood

Sú mynd sem mig langaði mest að sjá á RIFF að þessu sinni var Ungdómur (Boyhood) eftir leikstjórann Robert Linklater, höfund þrenningarinnar góðu, Before Sunrise, Before Sunset og Before Midnight. Ég var einnig mjög hrifinn af fyrstu myndum Linklaters, Slacker, sem fjallar um nokkra dásamlega stefnulausa slæpingja í Austin, Texs, og svo Dazed and Confused, sem er ein fallegasta unglingamynd allra tíma, og hafði því hlakkað til að sjá Boyhood síðan ég frétti fyrst af henni fyrir allnokkru.

En hvað getur maður svo sem sagt um svona mynd? Jú, eins og flestir vita var hún tekin upp yfir ellefu ára tímabil, frá maí 2002 fram til október 2013, og því sjáum við hvernig lykilpersónurnar eldast, breytast, þroskast, hrörna og dafna í raun og veru – þessi staðreynd ein sér gerir myndina auðvitað einstaka í kvikmyndasögunni. Sem nægir þó auðvitað ekki til þess að úr verði góð og heilsteypt mynd.

Ég sá Boyhood með tveimur vinum mínum, slungnum fréttaháki og hjartahreinum lögfræðingi. Annar þeirra gaukaði því að mér skömmu fyrir sýningu að hann hefði ekki farið í bíó mjög, mjög lengi, að síðast hefði hann líklega séð Legó-myndina vinsælu. Mér finnst það dálítið hressilegur samanburður: Legó-myndin vs. Boyhood. Legó-myndin – og ég var NB gallharður legóstrákur; fyrstu skáldsögurnar mínar voru samdar úr legókubbum – er beinskeytt og miskunnarlaus afþreying sem þjarmar markvisst að skilningarvitunum í um það bil níutíu mínútur eða svo í því algenga markmiði að gleðja (og deyfa) áhorfendur sem mest á sem skemmstum tíma. Og það tekst líka stórvel upp! Höfundarnir ná meira að segja að gæða söguna auðmeltri þykjustuheimspeki sem virkar alls ekkert svo grunnhyggnisleg meðan á fjörinu stendur (allavegana keypti ég hana alveg). Ungdómur er hins vegar ekki hressandi deyfingarlyf heldur gluggi inn í líf nokkurra persóna sem færast ekki um skjáinn til þess eins að skemmta okkur heldur til þess að hreyfa við okkur. (Og í tilviki þessarar tilfinningahríslu tókst það og gott betur.) Saman varpa Legó-myndin og Ungdómur dálítið góðu ljósi á muninn á afþreyingu og listaverki; afþreyingin deyfir (og skemmtir), listaverkið örvar (og eflir). Og Boyhood er svo sannarlega listaverk. (En Legó-myndin, jah, ekki.)

Mér varð líka hugsað til skemmtilegu langlokunnar hans Karl Ove Knausgårds, Barátta mín (Min kamp). Boyhood á það sammerkt þeirri (býsna mögnuðu) sex binda ritræpu (ég hef reyndar bara lesið fyrstu þrjú) að laða fram skáldskapinn í því sem er banalt, dæmigert, kunnuglegt, augnablikið og hversdagurinn eru aldrei hafin upp í „veldi skáldskaparins“ heldur er lífinu lýst á eins ómengaðan og hreinan hátt og hægt er, samtöl eru lummó og (stundum) óáhugaverð og stefnulaus, heilu senurnar lausar við alla spennu, við fylgjumst bara með aðalpersónunni, Mason, bralla það sem allir gera; hann liggur í grasinu, spilar tölvuleiki, missir athyglina í kennslustund, smakkar vín í fyrsta skipti, á vandræðaleg samtöl við fyrrverandi kærustu, leitar á sínum rólega hraða að tilgangi lífsins – og einmitt þaðan sprettur skáldskapurinn. Úr þessari rembingslausu, þolinmóðu nálgun sem segir lífið sé bútasaumur úr öllum litlu, auðgleymanlegu atvikunum ekki síður en þeim stóru og æpandi.

Ég rakst á þessa fínu grein sem súmmerar betur upp efnisþráð myndarinnar. Ég ætla frekar bara að nýta tímann til að hvetja alla til að sjá þessa fallegu og gefandi mynd sem allra fyrst. Og jafnvel með mér, því að ég ætla að sjá hana aftur við fyrsta tækifæri.

Sverrir er dálítið ómótaður kvikmyndaunnandi. Hann er höfundur Kvíðasnillinganna, skáldsögu sem kom út hjá Forlaginu nú í september.