Úr bókinni We Go to the Gallery

Penguin hótar að kæra listamann fyrir paródíu

Bókin Go to the Gallery eftir bresku satíristana og systkinin Miriam og Ezra Elia er í senn vinaleg paródía á hinar frægu bresku barnabækur um systkinin Peter og Jane, sem kenna börnum eitt og annað um heiminn og tungumálið, og grimmileg paródía á listheiminn. Hún var gefin út með aðstoð Kickstarter fjármögnunar og seldist fyrsta upplagið nær upp áður en babb kom í bátinn. Bókaútgáfan Penguin UK hefur hótað að kæra Miriam Elia fyrir höfundaréttarbrot – þótt raunar sé alls óvíst hvaða höfundarétt hún á að hafa brotið – eyði hún ekki öllu upplagi bókarinnar, eftir að hún hefur selt fyrir kostnaði. Útgáfan hefur líka sakað hana um framleiðslu kláms. Elia-systkinin hafa sagst ekki munu beygja sig heldur fara í hart. Í yfirlýsingu segja þau meðal annars:

Takist Penguin ætlunarverk sitt mun öll satirísk nútímalist – með sinni ríkulegu hefð af gleðilegum umsnúningi á táknmyndum poppheimsins og vörumerkjum, frá Picasso til Lichensteins – falla að fótum stórfyrirtækja og trúföstum lögfræðingum þeirra. Þeir munu aldrei finna bækurnar sem þeir vilja eyða og fari þeir með mig fyrir rétt mun ég berjast, sama hversu langan tíma það tekur. En ég þarfnast hjálpar ykkar. Líki ykkur verkin og viljið þið að þau verði gefin almennilega út sendið þá tölvupóst á wegotothegallery@gmail.com. Ég hef fljótlega söfnun í baráttusjóð til þess að hjálpa til við lögfræðikostnað.

Hægt er að fræðast meira um málið á heimasíðu Hyperallergic.