Ókomnar drunur: Um Drón eftir Halldór Armand

„Í fyrsta lagi eru þau … mjög smekkleg. Predator-drónið er mjög falleg hönnun, óaðfinnanlegt þannig séð. Alveg eins og þekkt vörumerki eða þýskir bílar eða gínur í gluggum alþjóðlegra verslunarkeðja – einhver sem kann sitt fag hefur verið ráðinn til að hanna þau, skilurðu mig?“

Drón. Drónar. Druntar. Flygildi. Mannleysur. Fjar- eða sjálfstýrð fljúgandi fjölmúlavíl sem eru notuð sífellt meira og víðar allt í kringum okkur: í heimsendingarþjónustu, við fréttamyndatökur, við löggæslu, við hernaðar-, iðnaðar- og persónunjósnir. Þau eru orðin slík almannaeign að first person drone racing er orðið að alþjóðlegri áhorfsíþrótt. Þau eru orðin það algeng að oftar en einu sinni hefur legið við árekstrum þeirra við farþegaflugvélar.

„Þau svífa fyrir ofan skýin í algjörri friðsæld, þau gefa frá sér hljóðlátar og samfelldar drunur. […] En á sama tíma eru þau skýrasta táknið um mannlega grimmd, andlitslaus drápsvél sem hefur hvorki meðvitund né finnur fyrir samúð […]“

Sú mynd sem vokir samt miskunnarlausast yfir huga okkar er fyrrnefnt Predator-drón (höfundur bókarinnar notar orðið drón í hvorugkyni og til samræmis er því fylgt í þessari rýni). Vítisvélin sem veldur því að börn í Pakistan eru farin að óttast heiðan himin yfir höfði sér. Sem hefur valdið róttækustu breytingu í stríðstækni Bandaríkjanna (já, því öðrum ríkjum með sömu tækni er ekki enn til að dreifa) í áraraðir. Notkun Predator- og Reaper-drónanna hefur svo aftur vakið endurnýjaðan ótta við hryðjuverk, því fyrst Bandaríkjastjórn er farin að beita mannlausum loftförum í stríði er ekkert því til fyrirstöðu að drónum af almennum markaði verði beitt í hryðjuverkaárásum.

Þá hló marbendill.

Drón eftir Halldór Armand byrjar á fjarstýrðri flugskeytaárás á ferðamiðstöðina á Þingvöllum. Með þessari árás, já, nánast saurgun á þessum „friðlýsta helgistað allra Íslendinga“ kippir höfundur lesanda út fyrir hvunndagslega þægindarammann – honum er greinilega ekkert heilagt. Þægilegasta stellingin við lesturinn er að lesa Drón sem vísindaskáldsögu, enda er tækni og samspil hennar við daglegt líf gegnumgangandi þráður í bókinni. Hún er stúdía á lífinu í viðstöðulausu neyslusamfélagi, á núningnum sem myndast á átakaflötum tækni og mennsku. Á köflum allt að því dystópísk.

Tökum nokkur dæmi: App sem magnar upp þráðlausar sendingar (wifi) úr umhverfinu og spilar þær sem mínímalískt teknó í gegnum heyrnartæki þess sem gengur með það. FPS-skotleikur þar sem spilarinn þarf í fyrri hluta leiksins að skjóta sig í gegnum heilt stríð, og í seinni hlutanum að heyja annað stríð við þunglamalegt skrifræðisbákn sem örkumlaður uppgjafarhermaður. Bók sem samanstendur af tístum 675 höfunda þar sem þeir deila með Twitter hugsunum sínum um bókina sem þeir eru að skrifa (og allar bækurnar 675 enn óútgefnar þegar tístabókin kemur á markað). Raunveruleikaþátturinn Back to Normal! sem gengur út á að hópur af geðsjúklingum er lokaður inni í Big Brother umhverfi, geðlyfjaskammtur þeirra minnkaður smátt og smátt og þátttakendur kosnir í burtu einn og einn í senn, þar til skemmtilegasti geðsjúklingurinn stendur uppi sem sigurvegari.

Tvö af þessum dæmum eru úr bókinni. Hin tvö eru úr raunveruleikanum. Að greina hvort er hvað er skilið eftir sem æfing fyrir lesandann. Vísindaskáldskapurinn er farinn að renna saman við lýsingar á tækninni sem var á nettilboði hjá Hópkaupum í fyrradag.

„Heimurinn er kerfi. Líkaminn er kerfi.“

Halldór Armand er ungur og tiltölulega lítt þekktur höfundur sem hefur að mér vitandi ekki gefið út áður nema nóvellutvíeykið Vince Vaughn í skýjunum sem kom út í fyrra, við góðar undirtektir. Hana hef ég því miður ekki lesið, en mér skilst að viðfangsefnið í báðum bókum sé svipað: vandamál frægðarinnar á tímum faraldursmyndbanda, krufning á athyglisbrostnu neyslusamfélagi og sífellt nánari tengsl þráðlausrar tölvutækni við mannslíkamann og miðtaugakerfið.

Söguhetja Dróns er Heiðrún, táningsstelpa, undrabarn í fótbolta og sumarstarfsmaður hjá Reykjavíkurborg. Fjölskylda hennar samanstendur af tölvunördinum litla bróður hennar, móður hennar og föður (sem er þungt haldinn af heimsendaþráhyggju) og heimsfrægri ömmu hennar og nöfnu. Vinkona Heiðrúnar og vinnufélagar hjá borginni koma einnig við sögu, sem og forsætisráðherra Íslands (í útúrdúr sem hefði sennilega að skaðlitlu mátt missa sín). Einn stærsti karakter sögunnar er svo tæknin sjálf: hún er sínálæg, heilu og hálfu kaflarnir skrifaðir sem SMS, spjallskilaboð eða tölvupóstar, á köflum öðlast hún jafnvel sína eigin rödd sem gjammar á lesandann úr útvörpum, sjónvörpum, tölvuskjám, snjallsímum, þannig að minnti mig dálítið á White Noise eftir Don Delillo – bók sem mér finnst Drón eiga sitthvað skylt við.

Eftir áðurnefnda upphafssprengingu er horfið til baka og sagt frá daglegu lífi Heiðrúnar og því hvernig hana fer smám saman að gruna að heiftarlegir túrverkir sem hún fær standi í einhverjum óljósum tengslum við dularfullar og handahófskenndar drónaárásir hingað og þangað um heiminn. Af þessu spretta ýmsar pælingar um tengsl mannslíkamans og tækninnar, oft frjóar og skemmtilegar aflestrar, en þó er niðurlagið hálfgerður antíklímax – mér fannst bókin enda eins og hálfkláraður þanki sem höfundur hefði ekki mannað sig upp í að taka alla leið (hvert? það veit ég ekki en mig langar að vita það). Þetta gerir þó minna til þar sem styrkur bókarinnar liggur annars staðar en í söguþræðinum og niðurlaginu – áfangastaðurinn skiptir minna máli en ferðalagið.

(Túrverkir. Ég fór að hugsa um kynjavinkilinn: þetta að karlmaður á ofanverðum þrítugsaldri miðli fantasíu um nútímann í gegnum raunsæjar lýsingar á búkraunum táningsstúlku. Sem síðan er rýnt af miðaldra smáborgurum í flókainniskóm. Ég treysti mér ekki til að brjóta þetta til mergjar, en vinkillinn er þarna.)

Halldór Armand skrifar fantagóðan texta. Frásögnin er oftar en ekki leiftrandi skemmtileg aflestrar og hann hefur firnagott vald á íslenskri tungu. Hann hefur gaman af að reyna á þanþol tungumálsins (jafnvel aðeins of gaman, væri ég spurður), sérstaklega með því að teygja mál sitt í málsgreinar sem aldrei virðast ætla að taka enda: sumar þeirra breiða úr sér svo blaðsíðum skiptir. Í Drón er að minnsta kosti ein opna af þéttskrifuðum texta þar sem ekki er einn einasti punktur. Þetta er stíll sem er ekki allra; stundum hreif hann mig heilshugar með, stundum fékk hann mig til að hrista höfuðið í uppgjöf og ósk um að höfundur hefði tónað niður í sér stælana.

(Hér langar mig að skrifa eitthvað yfirlætislegt um að þetta sé nú ungur og efnilegur höfundur sem eigi eftir að hlaupa af sér hornin og móta sér sinn eigin stíl og svona. En það væri, jú, yfirlætislegt. Að því sögðu finnst mér það samt og ég vona að hann geri það.)

Bókin er stútfull af vinjettum og útúrdúrum sem draga fram fáránleikann og fegurðina í því hversdaglega. Höfundur er háfleygur – stundum svo að vaxið fer að renna af vængjunum – og umræður sögupersóna eiga til að vera of stirðar til að maður trúi þeim sem töluðu máli. En myndirnar sem hann dregur upp lýsa sýn á Ísland sem er bæði fersk, kaldhæðin og ísmeygilega falleg: Prestur sem lofsyngur leikjatölvu á samfélagsmiðlum. Gæludýr sem heitir í höfuðið á tækniundri. Og fegurð Kringlunnar dregin fram svo mér hefur hún aldrei jafnfögur sýnst.

Við eltum uppáhaldsrithöfundinn okkar á Twitter. Sendum snapchat-vídeó af okkur að fara með uppáhaldstilvitnun úr bókinni sem við erum að lesa. Tökum self-oss af okkur með Jóni Kalman þar sem hann slömmar á Kexinu. Er orðið hægt að skrifa trúverðuga skáldsögu sem gerist í nútímanum öðruvísi en hún fjalli að minnsta kosti að hluta til um samspil tækninnar við líf okkar? Hversu lengi enn verður mögulegt að skrifa um það hversdagslíf sem lesandinn sér allt í kringum sig öðruvísi en með meðulum vísindaskáldsögunnar? Hvenær verður samtímaskáldsagan formlega lækkuð í tign og gerð að undirgrein vísindaskáldskapar, við hliðina á öðrum, spekúlatífari dystópíuskáldskap? Við lestur Dróns læddist að mér sá þanki að samtímaskáldsagan eins og við höfum þekkt hana sé kannski dauðvona eftir allt saman – að samtímaskáldsaga sem ekki fjalli öðrum þræði um nýjustu tækni og vísindi sé ekki samtímaskáldsaga heldur endurlit, steingervingur, leiftur frá liðinni öld. Að það styttist í að verði illmögulegt að skrifa um daglegt nútímalíf öðruvísi en með aðferðum vísindaskáldskapar. Drón er ekki gallalaus skáldsaga. En undir niðri drynur í henni fyrirheit um eitthvað sem enn er ókomið. Og ætti þá að þykja til allnokkurs barist.