Í endurteknum þætti af Listaukanum sem var fluttur á Gufunni á mánudag, ræddu þau Karen María Jónsdóttir og Magnús Þór Þorbergsson við þáttastjórnanda um RDF. Þau fóru yfir fyrstu dagana og ræddu meðal annars um form hátíðarinnar. RDF hefur nefnilega gengist undir frekar stórtækar breytingar á síðustu árum og þá ekki bara þá fjórskiptingu sem við sjáum í gangi núna heldur einnig þau stakkaskipti að nú er hátíðin meira en uppskeruhátíð danslistamanna, hún er orðin alhliða og opinn viðburður sem krefur áhorfendur um meira en bara að horfa á. Því eins og Karen og Magnús komu að þá er hátíðin þannig úr garði gerð að líta mætti á hana sjálfa sem eitt verkanna. Hverjir eru þá flytjendurnir? Jú, það eru gestirnir og hver sem er hefur tækifæri til að koma og taka þátt.
Það er nefnilega heilmikill performans í því að vera áhorfandi. Það birtist okkur kannski skýrast í hyllingu listamanna að lokinni sýningu, nú eða þeirri athöfn að labba út af verki. Það standa fæstir bara upp og strunsa út, heldur veltir maður fyrir sér í þaula hvort það sé þess virði og hvort maður hafi á annaðborð rétt til þess. Það er semi-skilyrt hegðun að klappa að lokinni leiksýningu – annað myndi í raun þýða algera útskúfun. Ímyndið ykkur að eftir verk á fjölum stórs leikhúss kæmu leikararnir fram fyrir tjöldin en enginn klappaði, enginn gerði neitt nema að einn af öðrum tíndust gestirnir hljóðlaust út. Einn lýsti því vel þegar að hann sagði söguna af því að vera staddur á sýningu þar sem hann sat fremst og í lok sýningarinnar byrjaði fólk að standa á fætur og klappa. Hann sjálfan langaði alls ekki til að standa á fætur en með því að sitja undir standandi lófataki varð gjörningurinn tvöfalt sterkari og í raun sterkari en raunveruleg andúð hans á verkinu. Svo hann stóð að lokum upp. Þessar pælingar voru meðal þeirra sem flutu um í heita potti Sundhallarinnar í umræðum á vegum RDF sem þar áttu sér stað á laugardaginn.
Þannig að við getum litið á hátíðina sjálfa sem verk og mér finnst það í raun nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt að líta svo á að hér sé hópur listamanna að læra á form vegna þess að þau eru að reyna að beina straumnum mjög meðvitað í ákveðinn farveg. Það þýðir að þau þurfa að taka áhættu með því að halda sig við hugmyndina þrátt fyrir að í upphafi geti það valdið því að ákveðinn hópur telur sig ekki eiga erindi á danshátíð. Ég er að vísa til samtals sem ég átti við einn dansara í fyrra sem sagði sig og aðra vilja sjá meira af hefðbundnum dansi á hátíðinni. Tæknilegum dansi sem framkallar undrun og stórar tilfinningar – sjónarspil væri kannski hægt að segja. Auðvitað á þessi krafa rétt á sér en það er allavega hægt að segja að það sem hefur verið í gangi sé önnur leið að sama marki. Einhver sagði að til þess að skilja eitthvað þyrfti að reyna að breyta því. Þetta er auðvitað flókin staða, hátíðin reynir að vera framsækin og ögrandi en þá er ekki þar með sagt að hún sé ekki á höttunum eftir ákveðnum stíl eða stefnu. Ég trúi því að þau séu að reyna kúratora eitthvað til grundvallar íslenskri kóreógrafíu héðan í frá.
Þarna er kannski gott tækifæri til að skipta yfir í að tala um verkin sem ég sá á föstudaginn. Það fyrsta, Radio Dance eftir Nödju Hjorton, var sjálfsævisögulegt verk þar sem Nadja saumaði saman sína eigin danssögu við atburði á hverjum tíma. Það mætti kannski sjá hliðstæður í verkinu og hátíðinni sjálfri; á meðan hátíðin stillti sér upp við hlið rokkstjarna og poppkúltúrs skaut Nadja popplögum inn á milli frásagna af sjálfri sér þar sem hún fór í fyrsta danstímann, varð skotin í strák og reyndi að fóta sig í listinni. Sýningin vakti upp spurninguna “hvað ef?” og þá tilbúnu nostalgíu sem fylgir því að líta aftur og velta því fyrir sér hvernig farið hefði fyrir manni ef eitthvað hefði farið á annan veg. Poppmenningin byggir að einhverju leyti á þessari fölsku nostalgíu, stöðugum enduróm, endurtekningu sögunnar og loforðinu um endurfæðingu – þú getur orðið það sem þú í raun vilt vera.
Því næst flutti Shalala fyrirlestur um jaðarsöngleiki eða Lecture on Borderline Musicals. Ég sá verkið reyndar ekki þarna á föstudaginn því ég hafði séð það tvisvar áður svo ég fór og fékk mér kebab á Mandi. Ég man hins vegar vel eftir því að þessi sýning framkallaði mjög stórar tilfinningar hjá mér. Erna og Valdi drápu á nokkrum hugmyndum og öðru sem hefur poppað upp í fyrri verkum Shalala, þau spila nokkur lög og leika senur, kynna karaktera og reyndu að hafa hemil á þeim á meðan á fyrirlestrinum stendur. Þau eru mjög góðir performerar, það verður ekki tekið af þeim, en það sem mér fannst kannski tilkomumest var dramatúrgían og hvernig þau sögugerðu sinn eigin feril. Þetta var að einhverju leyti magnum opus Shalala. Þá er ekki hægt að líta framhjá feminískri og queer orku sem kraumaði undir og braust út í lokin.
Um kvöldið var svo Danceoke sem ég svitnaði vel í og svo var það bara bjór og spjall á barnum. Takk fyrir mig RDF og við sjáumst á nýju ári!