Dramatúrgar þurfa líka að fara til tannlæknis

Ímeilviðtal við Snæbjörn Brynjarsson varðandi Ég ♥︎ Reykjavík, skjaldarmerki, og list fyrir börn

Ég ♥︎ Reykjavík er fjölskyldusýning eftir Aude Busson, Sólveigu Guðmundsdóttur og Snæbjörn Brynjarsson sem frumsýnd verður á Lókal í dag. Til að forvitnast meira um sýninguna var Snæbjörn Brynjarsson dreginn í ímeilviðtal. Viðtalið er langt. Passið ykkur á því. Og þróast á endanum meira út í rabb um dramatúrgíu, peninga og eitthvað þannig. Gjörið þið svo vel.

Heill og sæll, Ég ♥︎ Reykjavík, hvernig fæddist þetta verk?

Þótt að verkið eigi sér langan aðdraganda og hafi þróast með samvinnu minni, Sólveigar Guðmundsdóttur og Aude, þá er óhætt að segja að Aude eigi upprunalegu hugmyndina. Ég hugsa að það spretti að hluta til upp úr fyrri verkefnum, eins og vinnu hennar með Mindgroup. Á fyrri Lókal gerði hún verkið Map of the world með þeim sem gekk út á að leyfa áhorfendum að teikna sitt eigið heimskort og opinbera þannig hvað þau sæju sem mikilvægan og ómikilvægan part af heiminum.

Að vissu leyti erum við að gera svipað með því að fókusa á hvernig börn upplifa umhverfi sitt. Hvað þau sjá sem mikilvægt, athyglisvert, hvernig þau nálgast umhverfið sitt með eigin mýtológíu og uppreisnargjarnri forvitni.

Þið sýnið verkið á Lókal. Leiklistarhátíð sem gefur sig út fyrir að skapa heildræna upplifun. Sem gerir það að verkum að Ég ♥︎ Reykjavík er ætlað eitthvað ákveðið hlutverk innan þeirrar heildar. Í kynningartexta á lókal.is er meðal annars talað um borg leyndardóma og töfra – væntanlega með vísan í verkið ykkar. Ég ímynda mér að eitt helsta úrlausnarefnið við að búa til fjölskyldusýningu að nafni Ég ♥︎ Reykjavík sem sýnd sé á Lókal sé að koma í veg fyrir að hún verði sjálfsblekking og afneitun á skít. Ertu sammála þessu mati?

Já, allavega upp að vissu marki. Við erum síður en svo að fela borgina. Ferðalag áhorfenda er meðal annars um skólphreinsistöð, tóm bílastæði, polla sem eru fullir af plastrusli og sígarettustubbum, sumsé borgina eins og hún blasir við forvitnum krökkum. Þá hef ég sjálfur í huga hvernig ég lék mér að því að klifra um inn á byggingarlóðum, upp eftir járnstöngum og steypuklumpum, og á öðrum bannsvæðum. Við viljum kanna bönnin. Ég held líka að trúðs-meþódan sem Sólveig beitir í leikstjórninni styrki þessi element. Sannleikurinn er athyglisverður. Og Reykjavík er borg í þróun sem er ekkert endilega öll jákvæð. Það má spyrja sig hvort að túristavæðingin sé að ógna vistkerfi borgarinnar og við hiklaust spyrjum þeirrar spurningar. (Svo gæti líka verið að túristavæðingin sé frábær af því að túristar eru yfirleitt miklu skemmtilegra fólk en íbúarnir sjálfir).

Það læðist að manni sá grunur að verkið fjalli kannski alls ekki um Reykjavík. Að það gæti fjallað um hvaða borg sem er. Hvaða nærumhverfi sem er ef út í það er farið. Er Reykjavík nauðsynleg sviðsmynd eða mætti skipta henni út fyrir aðra sviðsmynd?

Hvaða staður sem er getur orðið sviðsmyndin. Við unnum með krökkum á Akureyri með það í huga að þeirra frásögn og útgáfa að Akureyri gæti orðið verkið sem við sýndum. Við viljum gjarnan prufa sýninguna á öðrum stöðum, hvort sem það eru aðrir bæjir, borgir eða önnur hverfi. Þéttbýlið er samt líkast til nauðsynlegt. Við þurfum ógnina sem felst í öryggisverðinum sem þú þekkir ekki, í því að brjótast inn á staði sem eru ekki leyfilegir. Við viljum að krakkarnir og foreldrarnir spyrji sig: fyrir hverja er borgin? Hvers vegna megum við ekki fara þangað, hvaðan kemur valdið sem lokar þessi svæði af? Þetta eru hættulegar spurningar og gott að spyrja sig að þeim snemma.

Er erfitt að elska Reykjavík?

Nei. En hafa ber í huga að manni líkar við einhvern út af kostum þeirra, en elskar þá út af göllunum.

Ég hef séð eitt verk eftir Aude. Svörður fyrir sálina, frá árinu 2011. Rosalega fallegt verk. Mig rámar í það að mér hafi fundist það hálfgert þrekvirki hvernig hún gat látið hugmyndir sem manni finnst ljótar eins og þjóð, sjálfsmynd þjóðar, sjálfsmyndarframleiðslu þjóðar – virka á mann sem fallegar í tilgangi sínum. Án þess þó að manni finndist nokkurn tímann að það væri verið að troða ofan í kokið á manni einhverri helvítis þjóðrembu eða lygum eða ógeði.

Vald, sígarettustubbar, plastrusl og hjarta. Manni verður hugsað til Zizek á ruslahaugnum. Ég skal alveg viðurkenna að það var ekki það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég sá titilinn, pósterinn og kynningarefnið. Reykjavík fær mann til að hugsa um hipstera, Airwaves, 101. Hugmyndina um hipp og kúl Reykjavík, frjálslyndu Reykjavík, ferðamannaReykjavík, áfram Reykjavík. Síðan kemur fjölskyldusýning á alþjóðlegri leiklistarhátíð í Reykjavík með titilinn Ég ♥︎ Reykjavík. Og það fyrsta sem maður hugsar er „ókei, sjitt. Þetta verður alveg hræðilegt.“ Ég ætlaði að fara að spyrja þig af hverju ykkur hefði ekki dottið í hug að gera sýninguna ÉG HATA REYKJAVÍK – FJÖLSKYLDUSÝNING, en sú sýning er kannski innifalinn í sýningunni líka. Gölluð borg og frekar ljót og ómerkileg en við getum alveg elskað hana samt – eða öllu heldur verðum að gera það, eitthvað þannig?

ég-elska-Reykjavík2Við erum allavega ekki að gera lofgjörð til Reykjavíkur. Útgangspunkturinn er að sjá hana með augum barna, það er að segja við spyrjum þau hvað þeim finnst, biðjum þau um að segja okkur sögur úr borginni sinni og sitt álit. „Kúl Reykjavík“ er vissulega til staðar, það er ekki annað hægt en að velta fyrir sér hvaða áhrif túristavæðingin hefur á borgina og við komumst ekki hjá því að velta vægi þess fyrir okkur á meðan við gengum gegnum borgina. Það eru margar jákvæðar hliðar á túristavæðingunni í mínum huga. Það er þeim að þakka að Reykjavík er ekki lengur einsleit borg, þeirra sýn á borgina dregur fram hluti sem okkur „lókal“ fólkinu hefði ekki dottið í hug að líta á sem fallega. Hipstervæðing seinustu ára hefur bjargað okkur frá steypuhörmungum fyrri áratuga. Til dæmis hugsa ég að það sé ekki umdeilt lengur að bjarga gömlum húsum við Laugarveginn frá niðurníðslu þótt það hafi verið það fyrir fimm árum.

Á sama tíma er verið að hola miðbæinn að innan. Þar sem áður voru íbúar eru núna airbnb leigur og húsnæðisverð of hátt fyrir almenning, og hótelin eru kannski álver okkar kynslóðar?

Þetta er sýning fyrir börn, en mér finnst ekki að þótt eitthvað sé stílað inn á ungan aldurshóp að það megi ekki spyrja alvöru spurninga. List verður ekki minna krítísk með því að vera fyrir börn, ef eitthvað er þá gefst tækifæri til þess að spyrja miklu meira „fúndamental“ spurninga af því að áhorfendurnir ganga að færri hlutum sem vísum. „Hvernig hús gera okkur hamingjusöm?“ hljómar kannski einfeldningslega, en ég er nokkuð stoltur af þeirri spurningu.

Hefur þetta verið langt ferli?

Já já. Bara svona meðallangt ferli fyrir íslenska sýningu hugsa ég. Aude byrjaði hugmyndavinnu sína fyrir löngu en ég og Sólveig komum inn í þetta rétt fyrir seinustu jól. Í febrúar vorum við með vinnustofur fyrir krakka í Vesturbæjarskóla og síðan á Akureyri. Eftir það var löng pása þar sem við unnum aðeins áfram með efniviðinn úr þeim vinnustofum. Meginvinnan var svo í sumar, við höfum öll verið að síðan um miðjan júlí. Sýningin sjálf varð til á mjög stuttum tíma þegar við höfðum njörvað niður umhverfið, þá tóku hindranir þess að ritstýra sögunum og viðburðum göngunnar.

Hvað kostar svona lagað mikla peninga?

Ég veit það ekki nákvæmlega en ég skammast mín ekki fyrir að hafa þegið þriggja vikna listamannalaun fyrir tveggja mánaða vinnutíma (ef ég dreg frá þá vinnu sem ég vann á kvöldin). Aðalkostnaðurinn er fólgin í launum okkar þriggja og svo nokkrum atriðum innan sýningarinnar, eins og leigu á einum sal.

Guð minn, ekki skammast þín! Mér finnst reyndar peningahliðin skemmtileg. Það hefur örugglega eitthvað með það að gera að skil ekki peninga, skrópaði í báða hvernig-á-að-sækja-um-styrki kúrsana þegar ég var í listaháskólanum, og svo það að ég skil ekki hvernig nokkur maður getur borgað leigu af því að vera listamaður, fá kannski í besta falli listamannalaun í þrjár vikur á ári. Mér finnst eins og það hljóti að vera eitthvað þarna sem enginn hefur sagt mér. Því það að búa til listaverk er jú vinna, leiga og matur kosta peninga og þriggja vikna listamannalaun duga manni varla í tvo mánuði. Satt best að segja er ég innilega fasineraður af öllum starfandi listamönnum. Ekki af því það sé eitthvað merkilegt að vera listamaður, þannig séð, heldur hvernig þeir fari eiginlega að því að ná endum saman.

Helst myndi ég vilja senda spurningalista á alla starfandi listamenn. Lífstílsþátt jafnvel.

Hvernig ferðu eiginlega að þessu?
Hvað borgarðu í leigu á mánuði?
Borðarðu ekkert nema núðlur?
Hvenær fórstu seinast til tannlæknis?
Selurðu eiturlyf í frístundum þínum?

Ég ætla ekki rukka þig um svör við þessum spurningum. Ekki núna allavegana. Þó svörin yrði án efa áhugaverð. En listamannalaun já. (Jú, og síðan hitt, hvernig nokkur listamaður geti látið bjóða sér það að fá kannski greitt fyrir vinnu sína, og þá eitthvað andskotans smotterí, eða þá ekki neitt – eins og er með listamenn sem standa í því að sækja um listamannalaun. En ég ætla heldur ekki að rukka þig um svörin við því).

En fyrir forvitnissakir. Það kemur fram á lókal.is og í fréttatilkynningunni frá ykkur að þið hafið fengið styrk frá mennta-og menningarmálaráðuneytinu. Það fer einhver merkilegur kapall í gang í hausnum á mér þegar ég les þessa setningu. „Styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneyti.“ Sami kapall og fer í gang þegar ég sé póster frá sjálfstæðum leikhópi með skjaldarmerkinu í horninu og áletrun menntamálaráðuneytisins. Ég velti því fyrir mér af hverju er verið að segja mér þetta? Af hverju er verið að taka þetta fram? Og ég verð alveg bara innilega nojaður. Eru þau stolt, er þetta birt sem einhverskonar gæðastimpill, að sýningin sé ekki eitthvað amatör rusl heldur prófessjonal stöff? Er þetta liður í neytendavernd, að láta fólk vita, vara það við að verkið sé styrkt af stofnun, aðila, sem gæti haft hag af því að fólk sjái veröldina með ákveðnum hætti frekar en öðrum – eða ef til vill það sem ég teldi líklegast – að menntamálaráðuneytið setji það sem eitthvert skilyrði fyrir styrkveitingu að það fái að hafa lógóið sitt á auglýsingapósternum og í leikskránni? Eða kannski allt þrennt?

Sorry með mig.

Skil þig. Ef maður fær einhvern pening frá leiklistarsjóði eða listamannalaunum þá þarf maður að taka fram mennta- og menningarráðuneytið sem styrktaraðila. Allavega verða þeir fúlir ef leikhópar minnast ekki á þá, ég hef aldrei séð lógóið þeirra inn í bók eða aftan á málverki hinsvegar.

Peningamál listamanna eru í flestum tilvikum frekar þunglyndisleg, en sem betur fer hefur konan mín smá vinnu í Belgíu og ég hef einhverjar tekjur frá bókasölu og inn á milli þegar ég fer til Frakklands að vinna. Mér hefur aldrei tekist að fá „já“ við íslenskri styrkumsókn, þótt ég hafi skrifað margar, en kannski kann Aude einhverja brellu sem ég kann ekki. En ég held að þetta sé reyndar fyrsta umsókn hennar sem fær „já“.

En hvað með þig? Hvenær fórst þú seinast til tannlæknis, ég fór held ég fyrir tveimur árum seinast. Býrðu ennþá út í Finnlandi? Og ertu þá að vinna þar eða hvað dró þig þangað?

Jú, hvað með mig spyrðu. Jújú, ég er ennþá útí Finnlandi. Konan dró mig þangað. Hún er finnsk. Peningalega séð er ég blaðberi í feðraorlofi. Ég hugsa að peningamál blaðbera í hlutastarfi séu álíka þunglyndisleg og peningamál listamanna. En þó kannski eilítið minna þunglyndisleg, því blaðberar þurfa ekki að sækja um það sérstaklega, og vera háðir geðþótta hvort þeir fái greidd laun fyrir vinnuna sína eða ekki.

Annað sem ég er forvitinn að vita. Þú ert titlaður dramatúrg sýningarinnar. Að vera dramatúrg er svolítið eins og að vera frímúrari. Þetta er rosalega flottur titill en það veit enginn hvað þetta er. Sjálfur var ég einu sinni aðstoðardramatúrg í söngleik. Rosalega upp með mér, og hlakkaði til að komast að því hvað starfið myndi fela í sér. Snemma í ferlinu lést hinsvegar dramatúrginn og þurfti að hætta. Restin af ferlinu hjá mér fór svo í það að drekka kaffi og hanga út í sal. Fékk aldrei að vita leyndarmálið.  

Þú hefur vonandi fengið að gera eitthvað meira en að drekka kaffi?

Já já. Við tókum okkur nú bara þá titla sem okkur langaði í. Ég hefði getað titlað mig textasmið, ráðgjafa, eitthvað í þá áttina líka. Á tímabili vorum við að velta fyrir okkur að kalla okkur bara höfunda. Ég leit svo á frá byrjun að mitt hlutverk og Sólveigar væri að hjálpa hugmynd Aude að fæðast, það sprettur jú allt upphaflega frá henni, bæði styrkir og þessi pæling. Ég hef lítið að segja um raddbeitingu, trúðleik og annað sem víkur að leik, þar liggur ekki minn styrkur. Í staðinn hef ég lagt meira í texta verksins og verið svo innan handar við aðra hugmyndavinnu. Svona lítill hópur þarf auðvitað ekki jafn niðurnjörvuð hlutverk og stór sýningarhópur. (Og stórar sýningar þurfa þess reyndar ekki alltaf þó það sé ágætt að vita hver sjái um ljósin).

Annars finnst mér það algjört draumajobb að sitja, drekka kaffi og horfa á hvað aðrir gera á sviði. Helst súmmera skoðanir mínar og ráðleggingar bara í örfá orð. Dramatúrg er hilarious orð, eiginlega bara brandari. Næst þegar ég er í svoleiðis hlutverki þá kalla ég mig kannski bara hugmyndafræðing eða eitthvað álíka. Þetta er skemmtilega óskilgreint hlutverk en það er leiðinlegt þegar íslenskt leikhús reynir að umbreyta því í eitthvað praktískt eins og að verða nokkurs konar aðstoðarleikstjóri (eða leikskrárhöfundur/kaffibruggari, reddari). Það þarf einhverja á hliðarlínunni til að fylgjast með því að leikstjórinn fari ekki út í eitthvað rugl. (Eða til að ýta honum út í eitthvað rugl). Allavega, það er skemmtilega opin staða, kannski svolítið lýsandi fyrir nútímann, það eru sérfræðingar út um allt að búa sér til einhver hlutverk út um allt.

Jú, það var reyndar mjög skemmtilegt að sitja, drekka kaffi og horfa. Ég lýg því ekki. En jú, skemmtilega laust hlutverk – vel orðað.

En þá held ég að þetta sé bara farið að verða fínt hjá okkur. Eitthvað að lokum?

Nei, það hugsa ég ekki. Ekki nema þú viljir halda áfram með ritdeiluna okkar frá því síðast.

Er þetta ekki orðið alltof langt?

Ég ♥︎ Reykjavík verður frumsýnd í Reykjavík í dag, fimmtudaginn 28. ágúst, og er hluti af LÓKAL.