72: Purple Rain með Prince

Purple Rain hefst á eins konar predikun sem bráðnar út í eitíssmellinn Let’s Go Crazy – svo allt verður eitt, einsog í babtistakirkjum bandaríkjanna (eða réttara sagt, einsog þær kirkjur koma manni fyrir sjónir í bíómyndum), sviti, stuð, trú, harmur heimsins og líbídó:

Dearly beloved, we have gathered here today
To get through this thing called life
Electric word life it means forever and that’s a mighty long time
But I’m here to tell you there’s something else
The afterworld, a world of never ending happiness
You can always see the sun, day or night

So when you call up that shrink in Beverly Hills
You know the one Dr. Everything’ll Be Alright
Instead of asking him how much of your time is left?
Ask him how much of your mind, baby
‘Cause in this life things are much harder than in the afterworld
This life you’re on your own


Ég hef áður komið inn á þá staðreynd að Prince tilheyrir ekki mér, hann tilheyrir systur minni, en að svo miklu leyti sem ég tilheyri Prince þá tilheyri ég Purple Rain. Lög einsog þetta hér að ofan, titillagið, When Doves Cry, Baby I’m a Star og hið klámfengna Nikki Darling eiga eitthvað í mér. Þetta er ekki bara eðalpopp, þetta er líka upphafning – trúarleg, kynferðisleg og lífsjátandi upphafning. Ég nefndi það einhvers staðar að Prince ætti að hafa látið hafa eftir sér að hann hefði aldrei „sóað góðri standpínu“ – og ég hef bent á það a.m.k. tvisvar hvað tónlistin hans er hryllilega gröð. En hún er auðvitað miklu meira en það, ég veit ekki hvort það er smættun að hamra svona á því. Þetta er tónlist sem fjallar um ástina – ólík litbrigði hennar – og gerir það ótrúlega vel. En greddan er líka táknræn fyrir lífsþorsta – Prince er nokkurs konar frjósemisgoð.

Þegar ég var unglingur fóru vinir mínir alltaf á Hróarskeldu á sumrin en ég var – af ýmsum ástæðum – aldrei með. Hróarskelda er yfirleitt haldin einmitt um það leyti sem ég á afmæli og átti stóran þátt í því hversu illa mér hefur lengst af gengið að halda upp á afmælið mitt. En fyrir nokkrum árum – ætli það hafi ekki verið 2010 – var mér boðið að lesa upp á ljóðasviði á hátíðinni og fékk að launum flugfar og passa inn á hátíðina. Og ég fór auðvitað. Vinir mínir löngu orðnir alltof gamlir fyrir Hróarskeldu (fyrir utan þá sem voru hreinlega þarna í vinnunni – FM Belfast og Grímur Atlason). En Prince var heddlæner. Í minningunni spilaði hann á afmælisdaginn minn en það var víst þremur dögum síðar – hvað sem því leið hélt ég ekkert upp á afmælið mitt, skildi konuna mína og son minn eftir í norður Finnlandi og hafði engan til að halda upp á afmælið með. En ég fór á Prince tónleikana. Stóð aftast – það hafa verið einhverjir tugir þúsunda fyrir framan mig við stóra sviðið. Ég var fáránlega þreyttur, man ég, lúinn í fótunum – mér leið einsog gamalmenni. Og ég horfði á tónleikana og ég skildi hvað það þýðir að hafa súperstjörnuegó – að vera þessi kall sem er víst lítill í alvörunni en var míkróskópískur í fjarskanum en fylla samt upp í heiminn, láta hverja einustu mannveru í hópnum finna fyrir sér. Míkrófónninn hjálpar til en það er ekki bara hann. Það er eitthvað meira. Seint í prógraminu – kannski var það í endann – byrjaði svo eitthvað drón, duttu inn kunnuglegir tónar, vísbendingar, svo maður var kominn á tærnar, farinn að giska, er þetta … nei bíddu … jú, þetta er þarna … hvað er þetta? Svo brast á með Purple Rain og það var einsog að fá yfir sig flóðbylgju af tilfinningum. Ég hef oft saknað konunnar minnar en aldrei jafn mikið og þarna.

Og einsog á öllum góðum tónleikum tökum við fyrsta lagið aftur – þrjátíu árum síðar – ekki síst til að geta litið beint í sólgleraugun á þessum ótrúlega manni.

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Purple Rain með Prince hlustaði hann á hlaupandi í alls kyns hringi í Råby – og náði næstum að klára hana tvisvar áður en hann gafst upp og fór heim.