RAF

Bíó: Þú hefur oft séð Heckler & Koch MP5

Innanríkisráðuneytið og undirstofnanir þess leiða okkur öll á undarlegar slóðir. Ég vissi ekki fyrr en í dag að vefurinn IMDB, Internet Movie Database, á sér einhvers konar bjagaða hliðstæðu í vefnum IMFDB, Internet Movie Firearms Database. Þar má lesa um hvaða skotvopn hafa birst í hvaða kvikmyndum gegnum tíðina.

Úr kvikmyndinni The Siege.

Úr kvikmyndinni The Siege.

Vélbyssan MP5, sem lögreglan hefur útvegað sér, hefur samkvæmt vefnum birst í töluverðum fjölda kvikmynda, þó engri á skrá fyrr en árið 1984 að hún var notuð af liðþjálfanum Jorgensen í myndinni Sheena: Queen of the Jungle. Árið 1985 var hún notuð í Baby: Secret of the Lost Legend, og er þar beitt af hermönnum, að því er virðist til að ráða niðurlögum risaeðlu. Síðan birtist vopnið í höndum sérdeildarmanna, vopnasala, breskra sérsveitarliða, lögreglumanna í baráttu við sænska bandamenn þýsku hryðjuverkasveitanna RAF, hermanna, hryðjuverkasveitar í Chicago, FBI-liða, sérsveitarliða í New York, í höndum serbneska hermannsins Goran, og, árið 2000, í höndum varðmanna fyrirtækisins BioCyte í Mission: Impossible II. Sama ár er vopnið notað af gíslabjörgunarsveit FBI í myndinni The Cell, fleiri breskum sérsveitarliðum, undercover löggunni Brian O’Connor í The Fast and the Furious. Antonio Banderas og Lucy Liu notuðu víst bæði vopnið í myndinni Ballistic: Ecks vs. Sever sem virðist hafa gleymst jafnóðum og hún kom út, árið 2002, sem FBI- og DIA-liðar, en DIA er einhvers konar varnarmálaklúbbur.

Úr kvikmyndinni Lockout (2012).

Úr kvikmyndinni Lockout (2012).

Fleiri sérsveitir, lögreglumaður í umsátri um bankaræningja, ásamt bankaræningjum í annarri mynd, og já, það ágerist upp úr 2004 að lögreglumenn utan sérsveita noti vopnin. Ágerist í þeim skilningi að þeir virðast leynast inn á milli, til dæmis í Gotham-borg, en síðustu skráningar eru þessar: Í Argo er vopninu brugðið af írönskum byltingarvarðliðum, í Zero Dark Thirty sem fjallar um leit sérsveita bandaríska sjóhersins að Osama Bin Laden er það notað af annars ótilgreindum vígamanni, í Shutzengel er því beitt af sérsveitarliða, í Maximum Conviction af merc sem virðist heiti yfir einhvers konar njósnara. Í myndinni Casa de mi Padre er vopnið mundað af böðli, í The Dark Knight Rises, já Batman-myndinni, er það loks aftur notað af lögreglusveitum, í Cockneys vs. Zombies af sérvopnaðri sveit og í indónesísku myndinni The Raid 2 er vopnið aftur í höndum böðuls, svo ég þýði henchman tilhlýðilega án þess að hafa séð myndina, kannski var það leigumorðingi.

Það var víst ekki Hitchcock heldur Anton Tsjekhov sem sagði: “Ef þú segir í fyrsta kafla að riffill hangi á veggnum verður að hleypa af honum í kafla tvö eða þrjú. Ef ekki á að skjóta af honum á hann ekki að hanga þarna.” Þetta voru auðvitað ekki ráðleggingar til lögreglusveita eða ráðuneytanna yfir þeim heldur dramalistafólks og Biggi lögga er búinn að segja að hann þoli ekki byssur fyrir utan að við fengum þær að gjöf og ekki viltu móðga Norðmenn svo hér er áreiðanlega ekkert undarlegt á ferðinni, eins og nú verður lagt kapp á að útskýra fyrir okkur. Þú verður að skilja að við lifum ekki í Disney-landi, þetta er svona í Iron Man, hvers vegna ætti málum að vera eitthvað öðruvísi háttað hjá okkur?

Úr kvikmyndinni Argo.

Úr kvikmyndinni Argo.

Myndin sem fylgir þessari færslu er einkennismerki hryðjuverkasveitanna Roter Armee Fraktion, sem stundum er nefnd Baader-Meinhof samtökin, í höfuð stofnendanna. Vopnið í lógóinu er MP5.