Um sálfræðiþrillerinn og glæpasöguna Afhjúpun Olivers eftir írska rithöfundinn Liz Nugent. Portfolio publishing gefur út. Verkið kom út árið 2018. 227 síður. Á frummálinu kom verkið út 2014. Og heitir Unraveling Oliver. Valur Gunnarsson er höfundur þýðingar.
Ég hafði búist við meiri viðbrögðum þegar ég kýldi hana í fyrsta sinn. Hún lá bara á gólfinu og neri á sér kjálkann. Starði á mig þögul. Það var ekki einu sinni að sjá að henni væri brugðið. (bls. 5)
Ég kom heim kvöldið sem Alice gekk of langt og fálmaði með lyklinum að skránni. Ég gekk inn í borðstofuna. Hún lá ekki á gólfinu, guðsmildi… Enginn marblettur. Enn þá. Ég leit á hana. Brosti. Trékassinn sem ég hafði notað undir öll mín innstu leyndarmál lá opinn á borðinu á ganginum. Lokið gapti, lásinn brotinn, innihaldið saurgað.
„Lygari!“ sagði hún brostinni röddu.
Það var ljóst að ætlun hennar var að gera út af við mig. Í annað sinn sem ég sló Alice gat ég ekki hætt. (bls.12)
Þannig hefst sagan. Á heimilisofbeldi. Oliver Ryan, heimsþekktur barnabókarithöfundur gengur í skrokk á eiginkonu sinni, Alice, svo um munar. Eftir þau viðskipti á hún sér vart viðreisnar von, verður að líkindum að grænmeti. Ofbeldisverkið er samt ekki aðalglæpur sögunnar. Við taka frásagnir sem smátt og smátt afhjúpa, líkt og nafnið gefur til kynna, aðalpersónuna.
Saga Liz skiptist í 24 kafla auk eftirmála Olivers. Notast er við ólík sjónarhorn í köflunum með því að láta mismunandi persónur hafa orðið í fyrstu persónu. Form sem William Faulkner notaði til að mynda í As I Lay Dying (1930) og Einar Kárason í sumum verka sinna. Til dæmis í Stormi (2003).
Í umræddu verki hafa tíu persónur orðið. Frásagnir þeirra kjarnast í kringum Oliver og þær persónur sem tengjast honum á einhvern hátt. Í kjölfar ofbeldisins reyna persónur þessar að átta sig á hví Oliver tók upp á því að berja konu sína. Lesandinn les sig að því hvaða leyndarmál, myrku leyndarmál hann felur.
Sjálfur hefir Oliver oftast orðið. Rekur hann sögu sína og upplýsir hvaða mann hann hefir að geyma. Skemmst er frá því að segja að Oliver er ógeðfelldur maður. Hvernig hann talar um menn og málefni gerir það lýðnum ljóst. Hann kemur þroskahömluðum bróður konu sinnar, Eugene, fyrir á hæli, í trássi við vilja konu sinnar, af því hann er fyrir honum og kallar hann hálfvitabróður auk þess sem hann þolir ekki gamalt fólk (bls. 9 og 10). Almennt lítur hann á konur almennt sem fýsnasvalandi hluti.
Hann kvæntist Alice af hagkvæmissjónarmiðum, hann fær hús í kaupbæti og hún myndskreytir sögur hans. En helsta ástæða ástar Alice á Oliver eru sögur hans sem hún elskar af lífi og sál. Fyrirgefur hún honum flest sakir þessara sagna.
Vissulega fengum við húsið, en [sic] hálfvitabróðirinn fylgdi með. Húsið er ágætis dyngja“. (bls.11)
Aukinheldur heldur hann framhjá henni villt og galið og nýtir sér og þjónustu vændiskvenna. Þetta hefir hann um portkonur að segja: „Manni finnst að þær ættu að reyna að gera sig aðlaðandi með starfið í huga. En nei, þær voru aðeins að selja gatið, pakkningin skipti ekki máli.“ (bls. 12)
Jafnframt verður ljóst að hlutskipti Olivers í æsku og á unglingsárunum var ekki öfundsvert. Hlutskipti það má rekja til föður hans sem afneitaði honum, lagði fæð á hann og kom honum fyrir í kaþólskum heimavistarskóla um leið og hann gat. Þangað heimsækir faðir hans, sem er fyrrverandi prestur, hann kannski einu sinni á ári. Eftir að heimavistarskóla lýkur er ekki stuðnings að vænta frá föðurnum. Hann lokar alveg á Oliver sem augljóslega fellur það þungt.
Eftir átta ár í heimavistarskólanum kynnist hann Stanley sem hefir þetta um hann að segja:
Þegar Oliver varð vinsæll undir nafninu Vincent Dax var ég feginn að heyra að honum gengi svona vel, vegna þess að eftir því sem ég best man átti hann fremur ömurlega æsku, jafnvel á írskan mælikvarða. (bls. 81)
Faðir Olivers segir móður hans hafa verið skækju. Það er allt sem hann segir um hana. Faðirinn eignast fjölskyldu, vinnur fyrir kirkjuna og sýnir fjölskyldunni og syni sínum Philip umhyggju og kærleik eins og Oliver kemst að eftir dauða hans.
Faðir minn umhyggjusamur? Kærleiksríkur? Ég hafði gert ráð fyrir að hann kæmi fram við fjölskyldu sína á álíka harðbrjósta hátt og hann kom framvið mig. (bls. 176)
Þegar ég var ungur, mjög ungur, áður en ég fór til Frakklands þarna um sumarið reyndi ég hvað ég gat til að verða góð manneskja. Ég hafði eytt ævinni í að reyna að ganga í augun á manni sem neitaði að viðurkenna að ég væri til. (bls. 126)
Þótt Oliver sé óljúf skepna má hafa samúð með honum. Má og spyrja sig þeirrar spurningar hvað gerir mann að því sem maður er? Eða hvað gerir Oliver að því sem hann er? Hér spila inn aðstæður hans, samfélagið sem er gegnsýrt af kaþólskum anda, heimóttarskap, ótta við hið frábrugðna, ótta við hneyksli í „frómu“ landi þar sem „[s]amkynhneigð var ekki afglæpavædd […] fyrr en 1993.“ (bls. 49)
Og með orðum Philips, hálfbróður Olivers, má setja þetta svona upp:
Kannski hefði líf hans ratað í annan farveg ef við hefðum alist upp saman. (bls. 129)
Hvernig gat faðirinn sem ég þekkti yfirgefið barn svona miskunnarlaust þegar hann hafði ávallt komið framvið mig með hlýju og væntumþykju. Hvernig gat hann hafa neitað mér um bróður. Hvernig gat hann hatað saklaust barn, hvernig svo sem móðirin hafði verið. (bls. 139)
Frásögnin spannar sögu Olivers, ekki línulega þó, frá vöggu, árið 1953 til geðveikrahælis árið 2012. Aðrar persónur sem orðið hafa eru t.a.m. Barney, fyrrum kærasti Alice. Einföld sál, ekki svo fríður en hrifinn mjög af Alice. Oliver stakk undan honum og segir að hann sé „augljóslega einn af lúserum þessa lífs“. (bls. 39) Michael, vinur Olivers, sem Oliver vingast við í kringum 1973 gagngert til þess að kynnast fallegri systur hans, Lauru. Michael er „sódó“ og hugfanginn af Oliver sem hneigist skýrt til kvenna. Oliver hefir ekki mikið álit á hommum og telur að Michael þurfi að ríða konu til vinna meinbug á holdlegum fýsnum í garð kynbræðra sinna.
Oliver er bósi og heldur t.d. framhjá konu sinni með Moyu. Moya er vergjörn, sjálfselsk og hégómagjörn leikkona. Raunar óttaleg hryggðarmynd. Hún er jafnframt nágrannakona þeirra hjóna, Olivers og Alice. Á hún þá ósk heita að þau verði par. Hún telur Alice, sem er lýst sem látlausri, ómannblendinni og meðalfríðri honum ekki samboðin. Oliver sjálfur er ánægður með konu sína af því hún er þæg og auðmjúk, elskar hann og leyfir honum að ráða því sem hann vill ráða:
Alice var látlaus, trygglynd, þagmælsk og góð. Alice var öruggt skjól frá martröðum mínum. Ég hafði aldrei haft sömu ástríðu fyrir Alice og Lauru, en þar til fyrir þremur mánuðum síðan höfðum við átt gott líf saman. (bls. 39)
Líf Olivers var þó ekki eintómt mótlæti. Hann er bráðmyndarlegur og dökkur yfirlitum, dekkri yfirlitum en gengur og gerist í Írlandi. Og:
Orðspor mitt var að vera dularfullur einfari og konur, sem alltaf þurfa að vera að skipta sér af, töldu hver á fætur annarri að þær gætu ráðið gátuna. Kannski vildu þær ganga mér í móðurstað? (bls. 35)
Og með orðum Michaels: „Oliver var ráðgáta.“ (bls. 25)
Vendipunktur í lífi Olivers og sögunnar er sumarferð hans, Lauru og Michaels til Frakklands þar sem þau vinna á vínekru skammt frá Bordeaux. Sumar þetta varð, með orðum Michaels „fullt af lífsnautnum, sem virðist nú vera skelfilega óviðeigandi í ljósi þess harmleiks sem síðar átti sér stað.“ (bls.55) Laura og Oliver eru fallegt par og kemst samband þeirra nálægt því að verðskulda orðið ást.
Oliver:
Ég hafði áður verið með fallegum stúlkum sem hafði öllum mistekist að snerta við hinum meintu tilfinningum mínum. (bls. 36)
Michael:
Hún var afar hamingjusöm með honum. Ég var afbrýðisamur. (bls. 26)
En „[e]kkert er sanngjarnt í ástum eða í lífinu yfirhöfuð“ (bls. 39) og margt getur breyst á örskammri stund sem það og gerir. Oliver tekur ástfóstri við hin sagnaglaða föður Véronique, sem rekur staðinn, og son hennar Jean-Luc. „Laura hélt því fram að Oliver hefði tekið sér Monsieur í föðurstað.“ (bls. 72). Ást þessi hrindir af stað atburðarrás sem ekki verður rekin nánar.
Verk þetta er með ágætum og ekki eins formúlukennt og margar stöllur þess í geira þessum. Fyrir þær sakir einar má mæla með verkinu. Fleira kemur þó til.
Sagan er öðruvísi en margar af svipuðu sauðahúsi. Sögur sem hefjast á glæp sem í framhaldinu er leitast við að finna út hver framdi. Hér er vitað hver er sekur en ekki er vitað hver sekt hans er. Þegar það kemur í ljós verður jafnframt ástæðan fyrir barsmíðunum í ljós svo og hver Oliver er.
Auk þess er hægt að tala um lög. Also, hér er ekki um blátt áfram glæpasögu að ræða heldur er unnið með samfélagsbreytingar; tíðaranda sem leyfir fólki ekki að vera það sem það er, ótta við hneyksli og sjálfsvitund og það á dýpri máta en gengur og gerist í viðlíka sögum.
Michael:
Ég var staðráðinn í að skammast mín ekki sama hvað kirkjan og lögin sögðu. Móðir mín gerði sitt allra besta til að koma mér aftur í skápinn, en ég harðneitaði. (bls. 73)
Fyrir vikið þarf fólk að leika hlutverk og svo er það auðvitað spurningin um hvað hefði getað orðið hafði málum verið öðruvísi háttað. Nú, sagan virkar líka ágætlega sem spennusaga, ráðgáta. En er hún, eins og flestar slíkar einnota þegar þær eru lesnar út frá ráðgátunni. Svarið er ekki flókið. Verkið má þó lesa aftur út frá hinum hliðunum.
Íslenski textinn virkar ágætlega og hnýtur lesandi um fátt. Hefði þó mátt við betri prófarkarlestri til að forðast klaufaleg mistök sem finna má víðsvegar í verki.
Niðurstaða: Ekki slæmt verk og um margt áhugavert.
*Yfirskrift umfjöllunar er fengin úr bókinni sem til umfjöllunar er. Bls. 173.