Við búum í litlu samfélagi. Í litlum samfélögum getur stundum verið erfitt að segja hluti. Erfiðir hlutir eiga það til að liggja í láginni því allsstaðar eru tengsl og það getur skapað vesen. Það vill enginn vesen. Það er fátt betri vitnisburður um smæð samfélagsins en einmitt sú staðreynd að ég er að skrifa þennan pistil um skáldverk rithöfundarins sem býr bókstaflega hinum megin við götuna. Ég á 2, hún á 1. Það er svona stutt á milli. Hvað ef ég skrifa nú eitthvað misjafnt? Verða kaldar kveðjur á tröppunum í fyrramálið. Engin fleiri grillpartý?
En lítil samfélög þurfa menningu. Við þurfum að sinna þeim sem skapa, skrifa, mála, leika, spila. Gera allt þetta sem gefur lífinu meira gildi. Og við þurfum að lesa, hlusta og skrifa um hana. Annars gengur þetta ekki. Og það sem meira er, sagan sem Steinunn Ásmundsdóttir segir í sinni fyrstu skáldsögu, eða skáldævisögu eins og hún hefur nefnt hana, er saga sem verður að tala um. Það verður að lesa og tala um þessa bók því hún fjallar um það hvernig þögn og afskiptaleysi geta brotið, marið og eyðilagt. Drepið ef út í það er farið. Það sýnir hugrekki að skrifa þessa sögu, sérstaklega í litlu samfélagi.
Steinunni Ásmundsdóttur þekkja margir sem ljóðskáld enda hefur hún sent frá sér fimm ljóðabækur auk þess að hafa birt efni á eigin hugverkavef, yrkir.is. Það kom mér ekkert á óvart að verða þess áskynja að Steinunn er magnaður penni. En stíllinn á þessari fyrstu skáldsögu kom mér hins vegar aðeins á óvart. Þessi sanna saga sem þarna er rakin er sögð mjög blátt áfram, sérstaklega í byrjun. Það er nánast eins og verið sé að gefa skýrslu um ævi þessarar konu, sem í sögunni heitir Björg, og samskipti hennar við sína nánustu. Þetta þýðir samt ekki að lesningin sé þurr eða leiðinleg, því fer algjörlega fjarri. En ég upplifi það örlítið þannig að Steinunn beiti þessu bragði til þess að magna upp áhrifin af því sem á eftir að koma fram þegar á söguna líður. Þessi rólegi, mjúki og sefandi stíll gerir það að verkum að lesandinn er nánast óviðbúinn þegar hann er síðan ítrekað sleginn harkalega í andlitið með lýsingum á atburðum sem maður vill ekki trúa að séu sannir en eru það samt.
Þegar líður á bókina fer höfundurinn þó að sýna á sér ljóðrænni hliðar, oft þegar köflum er lokað, og það er sannkallaðar perlur að finna í textanum.
„Þegar Björgu er allri lokið reynir hún stundum að biðja foreldra sína um hjálp, en þau nema ekki skilaboðin fyrir örvæntingarþokunni sem liggur milli hennar og þeirra. Hún á ekki samleið með þeirra tegund af lífi, nær ekki lengur að snerta það. Hún hefur verið skilin eftir í hliðarveruleika sem gengur fyrir einsemd og hörku. Hún er sorg heimilisins sem ekki er talað um, í mesta lagi er einhverju hvíslað bældri armæðurödd.“
Manneskjusaga er harmsaga, það er ekki hægt að horfa fram hjá því og hún er erfið og átakanleg. En Steinunni tekst að færa okkur þessa sögu á þann hátt að það er engin áþján að lesa hana. Hún er vönduð og skrifuð af samúð og ákveðinni hluttekningu með flestum persónum hennar. En þó að flestar sögupersónur njóti nokkurs skilnings hjá höfundi er ljóst að undir niðri kraumar reiði og það er í sjálfu sér afrek að skila söguefninu frá sér á svona yfirvegaðan hátt þegar svo margt í sögunni gefur tilefni til annars. Þessi ískalda reiði og þungi beinist ekki síst að samfélagi sem þegir yfir misnotkun og ofbeldi og skapar þannig skjól fyrir ódæðisfólk sem eyðileggur líf.
Manneskjusaga er saga sem á erindi við okkur öll því við erum öll manneskjur. Við ættum öll að lesa þessa sögu því við skuldum hverjum einasta mölbrotna einstaklingi sem samfélag okkar hefur þagað í hel að horfast í augu við sögu þeirra, fella tár yfir örlögum þeirra og heita því svo að gera það sem í okkar valdi stendur til að þetta gerist aldrei aldrei aftur.
Dómurinn birtist á prenti í Austurglugganum.