AFSAKANIR er plata eftir tónlistarmanninn Auði sem kom út í lok ársins 2018. Í febrúar fylgdi hann plötunni eftir með tuttugu mínútna stuttmynd undir sama nafni, einskonar frásögn plötunnar á sjónrænu formi. Á plötunni fær Auður með sér í lið ýmis þekkt nöfn úr tónlistarheiminum, af yngri kynslóð rappsins, hip hops og r&b á Íslandi. Platan er þó merkt undir tónlistarstefnunum “dance” og “electronic” en það má segja að við séum komin á þann stað að það sé nánast ómögulegt að skilgreina plötur og lög út frá vissum tónlistarstefnum. Stefnur hafa blandast og kallast hvor á aðra og útkomuna er erfitt að skilgreina, en í þessu tilviki er hún ansi djúsí. Útgáfurisinn Sony Entertainment gefur út en öll lög á plötunni eru með íslenskum texta. Það er nýjung, þar sem Auður skapaði sér nafn með lögum á borð við I’d Love og með fyrri plötu sinni Alone sem kom út árið 2017. Það sem Auður býður okkur upp á með íslenskunni í AFSAKANIR er nánari tenging við samfélagsgerðina hér á landi, meiri dýpt inn í hugðar- og yrkisefni og snjallari leik að orðum og samtímavísunum. Honum var á dögunum veitt verðlaun fyrir lagahöfundur ársins og fyrir raftónlistarplötu ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum.
D og B ræddu plötuna AFSAKANIR í Google docs samræðu, sem birtist hér í formi gagnrýni:
D: Afsakanir eru mín fyrstu kynni af tónlistarsköpun Auðar, og ég furða mig á því. Nú er ég búin að éta allt upp sem hann hefur gefið frá sér. Fyrri lög eru falleg en þessi plata gefur mér einhverja sérstaka ánægjutilfinningu. Það er einhver einfaldleiki í textunum sem heillar. Engar krúsídúllur í kringum neitt, enginn háfleygur stíll í orðanotkun, bara sterk íslenska, hversdagsleiki og skiljanleg skilaboð í samræðustíl. Hljómurinn virðist virkilega ferskur. Einnig er frábært hvernig hann er að taka á alls kyns málefnum sem hafa verið tabú, eins og umfjöllun um geðsjúkdóma sem er iðulega skreytt á einhvern hátt í tónlist eða rómantíseruð. Hérna er ekkert kjaftæði, engir leyndardómar. Þetta er eins og nýja stefnan í ljóðgerð. (Er það ný stefna?) Ætli það mætti ekki kalla þetta bít-skáldskap? Þetta rímar auðvitað mjög vel við hvernig öll listsköpun í dag á að vera svo fjári nærri persónulífi listamannsins. Núna pæli ég náttúrulega mest í textunum og kannski gott að taka það fram að ég er enginn tónlistarsérfræðingur. Í grunninn er ég bara lítill og áhugasamur bókmennta- og menningarfræðingur og horfi mest á orðanotkun og fíling.
B: Já, textinn er gríðarlega áberandi þema í þessu verki en það var samspil texta, takts og flæðis sem heillaði mig. Textarnir er afhjúpandi, eins og í dagbók, og titlar laganna undirstrika það. Hann tekur hlustanda í gegnum nokkur stig sambandsslita, geðsveiflna og hins sígilda sjálfsefa sem einkennir þrítugsaldurinn. Strax við fyrstu hlustun hugsaði ég „hvað gerði hann henni?“ sem sannar að ég á erfitt með að aðskilja listamann og manneskju. En það eru greinilega einhverskonar raunverulegar tilfinningar á bakvið og raunveruleikinn er helsta umfjöllunarefnið, þetta gráa, hráa, þetta sem við setjum ekki endilega á samfélagsmiðla. Laglínurnar eru viðkunnanlegar en ekki fyrirsjáanlegar, þær taka mann oft á óvæntan stað, eins og til dæmis í MANÍSKUR, þegar eftir 3 mínútur að lagið fær allt aðra ásýnd (“Allir elska grímuna, þar til hún kemur af”) og úr verður brú yfir í ÞREYTTUR. Auður leikur sér sannarlega með tungumálið og það er búið að skrifa nokkrum sinnum um „hver er munurinn á rútínu og vítahring“, en það er í laginu FREÐINN þar sem Auður er hvað mestur hálfviti.
D: Já ég er greinilega líka smá föst í því að geta ekki aðskilið manneskjuna frá listinni. Ég er einmitt mikið búin að pæla í hans lífi eftir hlustunina. En það er alveg margt í textunum sem allir geta tengt við. Auðvitað er það líka gríðarlega algengt og á sama tíma ósjálfrátt að maður fari að tengja sig inn í textana út frá eigin reynslu. Í því liggur einmitt galdurinn við þetta, að tengja og á sama tíma líða eins og þetta sé svo mikil opinberun. Annað sem er frábært við þessa plötu er að hann fær með sér svo ótrúlega margbreytilega og flotta tónlistarmenn með sér í lið, og skapar oft svo fallegar andstæður sem virka. Ég dýrka til dæmis lagið 2020 þar sem hin ólíklega samvinna milli ClubDub, Auðar og svo söngvarans Valdimars skapar þessa dýnamík sem er í einhverskonar margröddun. Ef það er hægt að tala um margröddun í tónlist (nú skýtur bókmenntafræðinni aftur upp ósjálfrátt). Það gerir eitthvað magnað þegar maður heyrir ólíkar raddir syngja saman.
B: Já, ég held að það sem er skemmtilegt við þetta verk sé allskonar áhrif sem blandast vel saman. Ég er líka mjög sammála þér hvað 2020 varðar, innkoma Valdimars er dásamleg. Fyrst við erum í bókmenntalegum gír þá fíla ég hvernig titillinn vísar í að sjá eitthvað skýrt, (2020 vision eins og sagt er á ensku) og textinn fjallar um framtíðina. Notkun gestasöngvara sem fylgja narratívu laganna ýtir líka undir þetta sammannlega í textunum, við erum öll viðkvæm og erum að reyna okkar besta. Innkoma Brynjars úr ClubDub er í miklu uppáhaldi. Margröddun er akkúrat hugtakið sem á við hér, ólíkar raddir sem kallast á en hafa samhljóm og skapa þannig nýtt samhengi. Viðlagið hennar GDRN í MANÍSKUR er pínu eins og af öðrum heimi, sem kannski undirstrikar ástand maníunnar. Með þessari stuttmynd, sem hefst í dimmri íbúð í Þingholtunum ýtir Auður enn meira undir það að hlustendur og áhorfendur tengja hann sjálfan við og við sjáum senur sem við könnumst við. Birnir og Brynjar úr ClubDub sækja Auði, kalla hann Audda og þar með mást þessi skil enn meir. Hann er “bara góður” en áhorfendur sjá í gegnum grímuna og þrátt fyrir að eiga alla þessa félaga endar hann einn í bænum.
D: Það er einmitt þetta sama stef í gegnum alla plötuna, einhver ástarsorg og svo sjáum við hann í stuttmyndinni reyna í sífellu að hringja í einhvern sem er með slökkt á farsímanum. Ég held að það sem gerir þessa plötu einmitt svona virkilega viðkunnanlega til áhlustunar sé þessi einlægni og hreinskilni út í gegn. Sammannlegur breyskleikinn. Það að við getum öll gert mistök og erum í sífellu þroskaferli. Jafnvel væri hægt að hlusta á plötuna sem einhverskonar framvindu þar sem hann öðlast sífellt meiri sjálfsskilning. Ég fór síðan að hugsa það í bílnum á leiðinni heim áðan að jú vissulega er það hefð í dag í svona r&b plötum að hafa gestasöngvara með svo þetta er ekkert nýdæmi. Hinsvegar finnst mér hérna vera meiri áhersla á að bara láta allt flakka og tala frá hjartanu. Jú hann er kannski hálfvitinn í þessari sögu en mér fannst það gott því ég hlustaði á það eins og draugar fortíðar minnar, fávitar fortíðar, væru að tala við mig í gegnum lagið. Biðjast afsökunar kannski. Lokalagið HVÍTUR OG TVÍTUGUR er síðan náttúrulega bara eins og einhver sálarmessa í sjálfu sér.
Ég líka ætti ekki að vera lofsyngja einungis þessi tvö lög (2020 og ÓSOFINN) en ég bara kemst ekki yfir það hvað þau gleðja mig mikið. Ég fattaði loks að það er eins og einhverskonar Disney tónn í strengjunum í laginu ÓSOFINN sem er að gleðja mig svona mikið á meðan 2020 er bara veisla út í gegn. Annars finnst mér allir gestasöngvararnir líka svo vel valdir.
B: Það sem er nýtt fyrir mér er að einhver sé svona óafsakandi veikur á geði. Auður hefur ekki farið í viðtöl tengd plötunni svo það er erfitt fyrir mig sem þekki hann ekki að reyna að aðskilja hans rödd og röddina í lögunum og mér líður einsog það sé meiningin að við eigum ekki að gera það, sú tilfinning stigmagnast eftir að hafa horft á stuttmyndina. En þetta, að vera óafsakandi veikur á geði, fara illa með manneskju, blanda dópi og geðlyfjum og fjalla um það í tónlist fylgir kannski því sem hefur verið að gerast í senunni. Eitthvað sem ég fór að taka eftir þegar Drake náði miklum vinsældum, að sífellt var talað um hann sem mjúka rapparann. Það er fallegt þegar listamenn leyfa sér þessa mýkt. Þetta er mjög í takt við tímann, að tala um geðheilbrigði. Við sem neytendur menningar erum kannski bara komin með ógeð á töffarastælum.
En svo við komum að verkum sem standa uppúr þá verð ég að segja að í hvert skipti sem ég byrja að hlusta á eitt lag af plötunni enda ég á að rúlla henni í gegn. Mér finnst eiginlega nauðsynlegt að hún sé samstætt verk. Því þú minnist á HVÍTUR OG TVÍTUGUR hérna áðan þá verð ég að segja að það lag snerti mig rosalega djúpt, en í augnablikinu er það MANÍSKUR sem ég byrja alltaf að hlusta á. Það er atriðið að geta sungið með GDRN og þessi brú sem ég minntist á áðan, hún er dásamleg.
FREÐINN er líka grúví og væri eitt og sér efni í myndband, eða allavega sé ég allskonar fyrir mér þegar ég hlusta á það og það er ekki síst notkun á aukahljóðum og endurtekningum sem fær mig til að gera það. Þú minntist á íslenskuna í samræðustíl hérna fyrst, það er það sem er fallegt við öll þessi lög en fór ofboðslega í taugarnar á mér fyrst í 2020 þegar sungið er „jafnvel þótt að hún brást“ – en fyrst ég er farin að syngja með „henni langar“ í laginu BOBA þá hlýt ég að jafna mig á þessu.
D: Já, mýktin er yndisleg en það er einmitt þetta að við erum farin að kalla meira eftir verkum sem við teljum vera einlæg. Í tilkynningu á Facebook nefnir hann að umfjöllunarefni stuttmyndarinnar AFSAKANIR sé “persónulegt og viðkvæmt”. Svo þar er líklegast staðfesting á því, þó að við þurfum kannski alltaf að hafa til hliðsjónar forsendurnar, að þetta er gert fyrir almenna neyslu og hlýtur þá að vera sett á svið á einhvern hátt. En ég mögulega gerði smá mistök í upphafi að hlusta ekki eftir röðuninni á plötunni. Þannig gæti ég hafa klikkað á því að horfa á verkið sem heildstætt. Sem er að öllum líkindum eins og það er hugsað. Þó mér finnist ávallt mikilvægt að það sé einnig hægt að hlusta á hvert lag fyrir sig. Mér finnst textarnir flæða ótrúlega vel við taktinn og margar línur svo snilldarlega vel ofnar inn í þennan vef en mögulega ekki alveg gallalausir, og eru einmitt margir textasmiðir að klikka á almennri íslensku í dag. Sem er eitthvað sem mætti skoða. Tíðkast prófarkalestur almennt séð ekki í tónlistarheiminum? (Ég tók ekki eftir þessu í fyrstu en núna þegar þú minnist á þessa línu get ég ekki hætt að heyra villuna.) En ég er orðin gríðarlega spennt því ég sá í einhverri tilkynningu frá Auði á Instagram að næsta útgáfa yrði meira sólskin en að AFSAKANIR sé „rigning“ sem mér finnst falleg samlíking og lýsir þessari plötu í rauninni mjög vel.
B: Sko alls ekki skilja mig þannig að ég vilji að það sé eingöngu töluð „rétt“ íslenska. Ég er að segja að núna eru listamenn meira að leika sér með íslenskuna og það þurfi ekki að prófarkalesa! Það má taka sér skáldaleyfi og beygla gamlar íslenskureglur. Ég er að reyna að vera víðsýnni og ég var nokkuð fljót að fyrirgefa Jóa P og Króla þessa ákveðnu þágufallsýki. Mér finnst svo gaman að heyra tónlist á íslensku, ég tengi svo mun betur við þannig texta og segja ekki allir hvort sem er „mér langar“?
Talandi um rigningu þá finnst mér ein eftirminnilegasta línan af plötunni vera þegar hann talar um að þó það „rigni í allt sumar“ – ég tengdi það svo við sunnlenska sumarið sem var mikið talað um seinni hluta síðasta árs. Ég hlakka rosalega til að heyra meira sólskin frá Auði. Mér finnst þetta verk standa uppúr af því poppefni sem kom út í fyrra, þó ég sé stundum pirruð við mælanda þar sem mér finnst hann vera mikill hálfviti. Ég er ekki frá því að ég vona að það sé meira sólskin í hans lífi en virðist hafa verið þegar hann samdi þetta verk.
D: Nei, tónlistariðnaðurinn mætti mögulega íhuga þetta með prófarkalesturinn. Annars finnst mér textarnir hjá Auði svo snjallir. Já, ég held að það sé rétta orðið, þeir eru svo ótrúlega snjallir og skemmtileg skírskotun í dægurmenningu og samtímann sem fólk er að tengja við, eins og við sáum á útgáfutónleikunum hans í Gamla Bíó að þá er fólk alveg að syngja hástöfum með. Svo ég fagna því að það lítur út fyrir að næsta plata verður einnig á íslensku.
B: Já, vá, tónleikarnir voru frábærir. Það er mjög mikill texti í öllum lögunum og það var geggjað að sjá kraftinn í Auði, hvernig hann fór með textann og hljóp svo fram og til baka og dansaði inn á milli. Hann er frábær performer. Það situr líka í mér gleðin og einlægnin í flutningnum hans, svo ekki sé talað um hvað flutningurinn á lokalaginu, HVÍTUR OG TVÍTUGUR, var fallegur. Það gerði mikið að hafa hljómsveit á sviðinu. Þó það hafi ekki allt verið fullkomið í flutningi þá var ég mjög hrifin og hlakka rosalega til að heyra meira. Það er mjög fallegt hvað fólk tengir, það eru jú skin og skúrir til skiptis í lífi okkar allra.
D: Ætli það sé ekki innbyggt í genamynstri okkar hér á landi þetta ákall á sólskinið með eilífri rigningu í sálinni… en rigningin getur alveg verið góð, einmitt til að hreinsa.