Þannig að við svörum spurningu yfirskiftar virðist sú sannlega vera raunin. Síbylja útvarpstöðvanna spilar í sífellu allslags ástaróða er fjalla um þá hamingju að vera ástfanginn eða sorgina sem sambandslitum og ástleysi kann að fylgja. Dægurlagatextarnir eru eins og gengur og gerist í mismunandi formi, söguformi, einhvers konar abstrakt formi, rímnaformi og þar fram eftir götunum. Auðvitað er þetta gömul saga og ný, vissulega, sannlega og klárlega er bent á hið auðheyranlega. Hitt er svo annað mál að allajafna pælum við ekki svo mjög í því sem sagt, sungið og gólað er á öldum ljósvakanna. Nægir vanalega að lagið sé eggjandi, taktvisst eða þá þægilegt í bakgrunni vinnustaðar. Allah forði oss frá að hlusta á eitthvað sem hreyfir við öðru en lendum og kynfærum.
En ef, en ef við tækjum nú upp á þeirri iðju að velta vöngum yfir innihaldi dægurlagatexta er næsta víst að við kæmumst að þeirri staðreynd að bróðurpartur þeirra er óttalegur leirburður og bull; einhverju rími er klastrað saman sem oftlega „meikar“ ekki „sens“. Eru þar textar Stefáns nokkurs Hilmarssonar framarlega í flokki þótt iðulega sé leitast eftir að klæða þá í einhvers konar gáfulegan búning.
Hvað um það.
Ást og ástleysi er oftlega blandað saman við neðanþindarmál í dægurlagatextum. Slíkt er einkum algengt meðal hinna svokölluðu sveitaballahljómsveita og er hljómsveitin Skítamórall fremst meðal jafningja á því sviði þótt Tvíhöfða hafi tekist að fanga viðlíka textagerð hvað best með lagi sínu „Ú kæra vina“. Finna má lag það á hljómplötunni Sleikir hamstur. Viðlag þess fangar andann fullkomlega:
Ú… kæra vina, lofðu mér ást þína að sjá
Úúú… já þú veist hvað ég vil fá
Ú… kæra vina, lof mér að sofa þér hjá
úhúhú lof mér að riðlast þér á
Já, þeir drengir yfirleitt þeir hugsa aðeins um eitt og push it real good.
Nú ber svo við að enn eitt ástarlagið hljómar ótt og títt. Hér er um lagið „Hvað ef ég get ekki elskað“ eftir Friðrik Ómarsson sem sumir vilja meina að sé tónlistarmaður, aðrir skemmtikrafur, og enn aðrir Epal-hommi. Sjálfan sér hann sig sem ástlausan einstakling, allavega ef taka má mið af texta umrædds lags. Og eins og að eiga börn þá eru það að sjálfsögðu sjálfsögð mannréttindi að búa að ást, að einhver elski mann og þá ekki bara mamma og pabbi. Allir ættu að kinnroðalaust að eiga rétt á börnum og ást. Sjáið bara Michael Jackson! Feitir eiga einnig rétt á því að vera kallaðir grannir, ljótir fallegir og erkibjánar gáfumenni. Aukinheldur eiga allir rétt á kynlífi þótt allir eigi jafnframt rétt á því að vera ekki nauðgað.
Hvað um það.
Téð lag tók þátt í undankeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva á Íslandi og komst nálægt því að verða hlutskarpast. Kannski hefði tón- og textasmíðinn hrósað sigri hefði það heitið „Hvað ef ég get ekki hatað“ og fjallaði um nauðsyn þess að berja frá sér í hatursfullum heimi og vera fremstur í fláttskap og vélum. Einnig hefði vafalítið hjálpað ef lagið atarna hefði ekki hljómað eins og hvert annað leiðinlegt og óeftirminnilegt lag sem spilað er ótt og títt en fellur síðan (Jehóva Gamla testamentisins sé lof) í gleymskunnar ódáð.
Sé nú allrar sanngirni gætt þá er þetta lag hvorki betra né verra en hvert annað lag af þessu sauða-gól-húsi.
Auðvitað hefði verið best ef lagið hefði verið eftir Hatara og borið með sé eitthvað ferskari strauma. Því máski er kominn tími á eitthvað sem ekki er sauðmeinlaust, eitthvað sem klárlega hefir burði til að verða að bitbeini og það ekki bara á Djöflaeyjunni; eitthvað sem máski fær fólk til að leiða hugann að annars konar ástleysi og hatri sem felur eitthvað annað í sér en væl yfir því að geta eigi fundið ást í hjarta eða lunga, pung eða skaufa, eggjastokkum eða sníp. Kannski þurfum við á því að halda að aðeins sé fokkað í þessu geimi og þá ekki á Óttarr Proppé í ríkistjórn kind a way. Líklegast verður þó að telja að eftir fokkið verði fyllt á tankinn og ekið af stað fram af brúninni. En hei! Það verður í BDSM og með stæl.
Nóg um það. Lítum á textann.
Hvað ef ég get ekki elskað?
Það á að vera sjálfsagt
talið ósköp eðlilegt
og á allra færi
en ég get ekki að því gert.
Þau segja mér hætt’essu drengur
allir finni sína leið.
En ég stend einn í neyð.
Í fyrsta erindi sjáum við að gólari/vælari (já við vitum að þetta er gildishlaðin orðanotkun) er í krísu. Erindið gefur ekki til kynna hver sá tilvistarvandi sé en heiti lags leiðir okkur klárlega fyrir sjónir að ástæðan sé að viðkomandi getur ekki elskað. Jafnframt hefir hann fengið þau samfélagslegu skilaboð að slíkt eigi að vera hvers manns og konu og xxxx færi. Hann hefir það því skítt, er í andlegri neyð.
Hér er gengið útfrá því að ástleysið sé af sálrænum toga. Vissulaga getum við einnig, af orðanna notkun, farið aðra túlkunarleið; að viðkomandi þjáist af stinningarvanda og sé því eigi fær um að elskast, njóta ásta. Það verður þó að teljast ólíklegt að svo sé þar sem slíkt má leysa með pillu eða læknishöndum. Ósennilegt er að einhver segði manni sem nær honum ekki upp að „allir finni sína leið“.Og þó …
Nú getum við spurt okkur: „er á allra manna færi að elska?“ Hér verður hver og einn að svara fyrir sig og hafa ber í huga að fólk kann að leggja mismunandi mat á hvað ást sé. Hvað sönn ást sé. Lítum bara til Ulrich Seidls* og Josef Fritlz.
Einnig má hafa í huga að ekki er svo langt síðan sambönd voru ekki byggð á ást, gagnkvæmri ást í það minnsta. Nú á sú hugmynd sannlega upp á pallborðið, hefir verið seld okkur, að sambönd eigi að byggjast á ást, að einstaklingar eigi að vera ástfangnir og halda Valentínusar daginn heilagan.
Þetta er auðvitað óbærilegt og kannski má hér finna andóf gegn þessari þrúgandi samfélagslegu kröfu. Það hafa ekkert allir efni á blómum! Það hafa ekki allir efni á ást. Það finnst meira að segja fólk sem hefir ekki efni á sportpakka Stöðvar 2!
Hvað ef ég get ekki elskað, ekki elskað neinn?
Af öllum þunga, með hjarta og lunga, finna allur til?
Segið mér hvað ef ég get ekki elskað neinn?
Ekki neinn?
Hér, í viðlagi, er klifað á hinu sama og sagt er í erindi. Áhugavert er að ást er lögð að jöfnu við að finna til (ekkert nýtt auðvitað). Gera má því skóna að ástarþjáning sé talinn eftirsóknarverð, að viðkomandi sé þá í hið minnsta fær um að elska. Þjáning ástleysins sé verri en áþján ástarinnar, sú kvöl sem af ást kann að hljótast eftir að hafa halað hana um borð en svo misst aftur í djúp sístækkandi víti viðtengingarháttarins.**
Dægurlagatextamælandi spyr okkur (segjum sem svo) undir lok erindis hvað sé ef hann fái ekki elskað, ekki elskað neinn. Við svörum:
Þá getur þú kannski snúið þér að því að semja lög um eitthvað annað en ástarbríma og ástarneyð. Þú getur fengið þér hund. Þú getur farið á Austurvöll og hatast út í Þjóðfylkinguna eða hælisleitendur, kannski báða hópa. Þú gætir líka ættleitt barn, hörundsdökkt barn frá svæði þar sem Guð ákvað að elska ekki. Þú gætir, eigir þú pening, fengið þér áskrift að sportpakkanum á Stöð 2. Ef það fyllir ekki upp í ástartómið má alltaf notast við vímugjafa.
Alltént er ágætt að finna sér eitthvað til dundurs uns ástin ber að dyrum, kannski í formi pítsasendils eða Vottar Jehóva. Nú ef ástin ber aldrei að dyrum þá þarftu ekki að glíma við ástarsorg ef svo kynni að fara að ástin brysti.
Ein spurning brennur þó á okkur: Hvernig ber að skilgreina ást? Hverju á maður að finna fyrir? Það er erfitt að setja mælikvarða á þetta, svo vantar líka alveg að vita hvað verðmiða mætti setja á.
Það er eitthvað brotið
eitthvað brotið inn í mér.
En sárin gróa og ég skil þau eftir hér.
Þau segja mér hætt’ essu drengur
allir finni sína leið.
En ég stend einn í neyð.
Okkur finnst þetta áhugavert. Sársauki þess að finna ekki ást, geta ekki elskað, skilur meira að segja eftir sár. En hvað felur það í sér að skilja þau eftir? Hvar eru þau skilin eftir? Og hvað er brotið? Jú, eitthvað en á það ekki fremur við þegar ástarsorg knýr dyra? Þetta er alltént óvenjuleg nálgun á ástleysið, brotið hjarta af ástleysi, að geta ekki elskað. Allajafna er hjartað brotið vegna ástar. Kannski miltað sé staður ástleysins, brisið eða lifrin?
(Ég spyr) hvað ef ég get ekki elskað, ekki elskað neinn?
Af öllum þunga, með hjarta og lunga, finna allur til?
Segið mér hvað ef ég get ekki elskað neinn?
Viðlag. Ekki miklu við skrifin að bæta nema að hrósa fyrir nýja nálgun; að elska með lunga. Vel til fundið. Einnig mætti elska karlpunga og Stútunga, Niflunga og silunga fyrir þumlunga á meðal öldunga af ógnarþunga og síunga. Hvað ef ég get ekki elskað þær kornungar, ó mín þjó(ð)tunga.
Er ég einn þessum sporum í
ég á bágt með að trúa því
ég heyri hætt’essu drengur
en hrópa út í neyð!
Ég get ekki elskað neinn.
Ég get ekki elskað neinn.
Er ég einn þessum sporum í
ég á bágt með að trúa því.
Þetta er orðið gott. Við höldum að best fari á því að hlusta á annað lag sem setja mætti undir svipaðan hatt og eyða ekki meiri tíma í þetta.
*Fjandinn sjálfur hvað Ulrich Seidl er samt góður kvikmyndgerðarmaður.
**Vel að merkja ætti að nota meira af viðtengingarhætti í íslensku.