Barnaleg gleðisprengja. Um Matthildi í Borgarleikhúsinu og barnamenningu

Barnamenning hefur oft og tíðum verið sett skörinni lægra en önnur menning og venjulega litið framhjá henni í gagnrýnni umræðu, hún er oft ekki tekin alvarlega og sett á hilluna sem eitthvað sem sé ekki þess virði að pæla í neitt frekar. Í þessu samhengi má helst nefna barnabókmenntir, en þær hafa iðulega verið taldar lægra form bókmennta hér á landi og víðar og kemur það skýrt fram í því hversu litla faglega gagnrýni barnabækur fá. Ef einhver gagnrýni sprettur upp er iðulega slengt upp setningunni að þetta sé nú “bara barnabók” sem á þar af leiðandi að eyða öllum frekari hugsunum um verkin sem slík. Leikhúsin hafa þó undanfarin ár staðið sig einkar vel í því að gefa barnamenningu það pláss sem hún á skilið og sett upp sýningar á heimsmælikvarða og sett alla sína hæfileika og fagfólk til að búa til sem besta upplifun. Barnamenning er nefninlega ekki einungis menning barna, heldur einnig þeirra sem voru eitt sinn börn.

Þessi upphafning barnamenningar í leikhúsum landsins með sýningum á borð við Bláa Hnöttinn, Billy Elliot, Ronju Ræningjadóttur og svo núna Matthildi er eitthvað sem bókaútgáfa á Íslandi og rithöfundastéttinn mætti taka til fyrirmyndar. Sú aldagróna hefð að hampa einungis þeim sem skrifa svokallaðar fagurbókmenntir um tilvistarkreppu og angist fullorðins fólks er alveg góð og gild, en það mætti og ætti að fara að beina meira sjónum að yngri kynslóðum eða yngri sögum og hvað þær hafa að segja okkur. Kannski fá slíkar sýningar einmitt meira vægi af því að fólk telur það ekki til barnamenningar? Matthildur er til dæmis flokkuð sem söngleikur en ekki sem barnaleikrit. Er það mögulega tilraun okkar til að vilja eigna okkur einhvern hluta af barnamenningu, en markaðssetjum upp á nýtt til þess eins að sleppa við að segja að okkur langi alla að sjá eitthvað barnatengt. Einhver tilhneiging sem kemur út frá fastmótuðum hugmyndum okkar um að barnamenning sé að einhverju leyti lægri öðrum og þar af leiðandi getum við ekki viljað sjá neitt því tengt á fullorðinsaldri. Við þurfum að fara að meta afurðir barnamenningar út frá þeirra eigin verðleikum. Orðið barnalegt hefur jafnvel öðlast slæmt merkingargildi í samfélaginu, en það er iðulega notað til að útskýra eitthvað sem einfalt. Í titli mínum hér er það þó ætlað sem mikið hrós.

Borgarleikhúsið hóf nú í marsmánuði sýningar á söngleiknum Matthildi í leikstjórn Bergs Þór Ingólfssonar. Ég ætla mér hér að flokka sýninguna undir barnamenningu því mér finnst hún eiga það skilið, en Matthildur er byggð á barnabók eftir breska rithöfundinn Roald Dahl sem á ferli sínum skrifaði ótal barnabækur sem hafa farið sigurför um heiminn og verið kvikmyndaðar eða leikgerðar á einn eða annan hátt. Stór hluti leikhópsins er á barnsaldri og þar á meðal titilhlutverkið. Söngleikurinn var upphaflega sviðsettur af Royal Shakespeare Company árið 2010 en var síðar færður yfir í Cambridge leikhúsið á West End. Leiktexti er eftir Dennis Kelly og tónlist og söngtextar eftir Tim Minchin. Gísli Rúnar Jónsson hefur íslenskað textana fyrir uppsetningu Borgarleikhússins.

Sýningin eða sagan fjallar um það að láta ekki mótlætið skilgreina sig, að standa upp gegn yfirvaldinu, um vináttu og að standa saman. Hún fjallar einnig um mikilvægi lesturs. Matthildur les mjög mikið og er hún þar af leiðandi mjög klár ung stúlka. Hún finnur huggun sína í bókum en sýningin reynir að sýna hvernig lestur eflir sköpunargáfu og hvernig bækur geta umvafið mann nýjum heimi sem getur verið björg okkar þegar erfiðleikar steðja að í raunheimi. Matthildur á ofbeldisfulla foreldra sem afneita henni og því eru bækur í fyrstu hennar einu vinir. Sagan og boðskapur hennar um lestur á jafnvel enn betur við í dag heldur en hann gerði þegar Roald Dahl gaf út skáldsögu sína árið 1988. Að undanförnu hefur verið talað um hvernig læsi hefur hrakað hjá skólabörnum, reynt hefur verið að efla lestrarkennslu og áhuga hjá ungum krökkum fyrir lestri með ýmsu móti. Sýningin heimfærir söguna yfir á nútímann og sýnir okkur helstu afvegaleiðandi tækninýjungarnar sem sagðar eru hafa haft áhrif á lestur yngri kynslóða. Snjalltæki og sjónvarp. Þessi nálgun er skemmtileg og vel gerð og vekur hún upp vangaveltur um samtímann, um lestur og áhrif foreldra á börn. Minna var gert úr galdrahæfileikum Matthildar í söngleiknum, en mér fannst það ekki skemma fyrir, enda var fókusinn á mun margslungnari hugðarefnum sem auðvelt er að tengja við.

Viðmiðin um heimsklassa eru mjög skýr og gaman er að sjá hversu mikið púður er lagt í allt, en það er jafnvel farið í lengstu lög að setja upp sögusvið og leikmynd fyrir senur sem eru ekki meira en þrjátíu sekúndur að lengd. Leikmyndin öll er stórkostleg og vá hvað það var mikil unun að horfa á öll smáatriðin í henni og þá sérstaklega hvernig bókaskáparnir hlykkjast óendanlega um sviðið í dulúðlegu grábláu mistri. Dansatriðin voru vel samansett og skemmtileg á að horfa og virkilega snjallt hvernig leikmyndin og leikmunir voru nýtt í atriði til að skapa heljarinnar sjónarspil og á sama tíma sem vísun í barnæsku. Má þá til dæmis nefna skólaborðin sem breytast skyndilega í hlaupahjól og risastórar leikgrindur sem snúast. Það er veisla fyrir augun að horfa á sviðið á hverri einustu mínútu. Leikmyndina gerði Ilmur Stefánsdóttir og er hún sú fremsta á þessu sviði, allavega miðað við verk hennar undanfarin misseri. Sýning er mjög hröð og lítið svigrúm gefið til að draga andann á milli atriða. Sem er mjög áhrifamikið, sérstaklega fyrir yngstu sýningargesti. Maður er bókstaflega sleginn í andlitið með það sem virðist eftir á að hyggja eins og risastór konfettísprengja og erfitt er að labba ekki hoppandi kátur út af sýningunni. Á sama tíma hefði maður stundum viljað geta melt hvert atriði fyrir sig en þau renna mjög leikandi saman. Það var mikil orka á sviðinu og þá sérstaklega í stóru hópatriðunum. Ég datt í barndóm þarna á tímabili. Það er eitt lag í sýningunni sem heitir ‘’Er ég verð stór’’ og fjallar um það að verða sterkari og minni gunga þegar maður er loksins orðinn fullorðinn og stór. En það eina sem ég gat hugsað var, vá hvað ég vildi að ég hefði verið þessi krakkar þegar ég var lítil.

Krakkarnir í sýningunni, yngstu meðlimir leikhópsins, stálu gjörsamlega senunni. Ég horfði á þau í undrun og aðdáun allan tímann. Þvílíkir hæfileikar. Þau voru eins og rokkstjörnur á sviðinu og minntu mig á alla flottu og hugrökku krakkana sem mæta hvern einasta föstudag á Austurvöll í verkfalli fyrir loftslagið. Í raun eiga persónurnar í Matthildi margt skylt með börnunum sem krefja stjórnvöld og atvinnulíf um aðgerðir til loftslagsmála. Þau eru að standa gegn yfirvaldinu sem er að gera eitthvað rangt. Þau lenda einmitt í svipuðu mótlæti, enginn hlustar á þau vegna þeirrar fastmótuðu hugmyndar samfélagsins að börn eru ekki fullgild inn í umræðuna. Sem rímar einmitt vel við sömu hugsun okkar til barnamenningar. En sýningin kennir okkur að það er ekki endilega allt satt og rétt sem þeir stærstu í samfélaginu segja og að margur er svo sannarlega knár þó hann sér smár.

Salka Ýr fór með hlutverk Matthildar í sýningunni sem ég fór á og stóð hún sig mjög vel. Hún var örugg á sviðinu, með sterka útgeislun og fallega söngrödd. Ég verð einnig að hrósa Þóreyju Lilju sem stóð sig hreint frábærlega sem vinkona Matthildar, hún var virkilega fyndin og skemmtileg og tel ég að þarna sé á ferð framtíðar gamanleikkona. Arnaldur Halldórsson var síðan mjög flottur sem Lars og súkkulaðikökuatriðið var ekki að valda neinum vonbrigðum í minni eftirvæntingu. Eins og ég sagði áður þá stóðu krakkarnir algjörlega upp úr og ég vildi að ég ætti snefil af þeim hæfileikum sem þau hafa upp á að bjóða. Að sjálfsögðu er maður farinn að kannast við mörg andlitin úr fyrri sýningum Borgarleikhússins.

Hefð hefur skapast á uppsetningum á þessum tiltekna söngleik að karlleikari leiki hlutverk skólastýrunnar illu, en Björgvin Frans stóð sig bara nokkuð vel sem Karítas Mínherfa. Hann náði góðu jafnvægi í því að ljá persónunni þessa illgirni í bland við skopleika, en að mínu mati hefur persónan ávallt haft kómískan undirtón, enda tilgangurinn með sögunni að sýna að þó að yfirvaldið virðist oft illgjarnt og grimmúðlegt sé það á sama tíma mannlegt og breyskt á einhvern hátt. Vala Kristín var síðan gjörsamlega dásamleg sem móðir Matthildar. Tónlistin er skemmtileg og textarnir vel heimfærðir yfir á íslensku en þetta er svona sýning þar sem mann langar strax að fara og syngja öll lögin í bílnum á leiðinni heim. Það sést vel á öllu að leikhópurinn er vel samstilltur og að hugsað er út í það kyrfilega að hvert einasta smáatriði sé þarna til að gleðja augað, eyrað og hjartað.

Í lokin verð ég að vitna í barnið, það er að segja í sjálfa mig fimm ára, þegar að ég fór á leikrit um Línu Langsokk og eftir sýninguna var ég svo ótrúlega ánægð að ég gat ekki annað en vælt í móður minni og sagt ákveðin “ég vildi að ég hefði farið áður”; sem að sjálfsögðu þýddi að ég vildi að ég gæti farið á sýninguna aftur og aftur. Og eru þetta líklegast stærstu meðmæli sem ég get gefið sýningu.