Það er alrangt. Þetta er fáránleg hugmynd. Ekki svaravert einusinni. Ég hef akkúrat ekkert um það að segja. Vertu ekki að búast við einhverri yfirlýsingu frá mér. Eða jú annars. Ég vil fá kjólinn minn til baka. Þú mátt segja þeim það.
Ekki af því að hann gæti ekki átt heima á safni. Vertu nú ekki að gera mér upp einhvern aumkunarverðan barnaskap. Ef einhver setur hann á safn þá er hann de facto orðinn safngripur. Og áhugaverður sem slíkur, í samhengi við umhverfið og söguna. Í samhengi við samhengið. Málið er bara að þennan kjól keypti ég í Feneyjum, daginn sem ég útskrifaðist, og borgaði fyrir hann hverja einustu líru sem ég átti til í fórum mínum. Og ég smellpassa ennþá í hann, hundrað og fjórum árum seinna. Skrifaðu það!
Ég get alveg greint þér frá lyklinum að langlífi mínu. Það er svo sem ekkert dónalegt. En þá verðurðu líka að segja kollegum þínum að hætta að hringja. Þetta er voðalega leiðinlegt og ég hef miklu meira áríðandi hluti að gera. Til dæmis er ég að skrifa bók um Sartre. Langlífið þakka ég svifryksböðum og stríði. Það er náttúrulega fleira sem kemur til. En þetta er svona það helsta. Ég mæli sterklega með því að búa nálægt hraðbraut. Sjálf hef ég lengi búið við Miklubrautina og sef aldrei öðruvísi en með alla glugga opna.
Og jújú, það má nú svo sem vel vera að Marinetti hafi einhvern tíma haldið við konu í svona bláum flauelskjól. Hann hefði allavega ekki talið það eftir sér. Konu með litlar svartar englavarir, einhverja sem hló þegar hann skálaði fyrir kvenfyrirlitningunni og stríðinu. Og það getur líka alveg verið að þessi kona hafi verið sú fyrsta til að útskrifast úr arkitektaskóla Akademíunnar í Feneyjum. En það var allavega ekki ég. Hins vegar er sársaukalaust að ljóstra því upp að það var ég sem hann kallaði litla vélbyssu. Ég veit fyrir víst að hann hafði mig í huga þegar hann sagði þetta um hundrað-hestafla vélina sem öskrar af sprengikrafti óþolinmæðinnar.
Enda barðist ég heldur ekki í fjórtán stríðum til einskis.
Nei, ég er sko enginn fútúristi. Það er alrangt að ég upphefji ofbeldi. Ég er náttúruvinur. Ég aðhyllist lögmál náttúrunnar. Ekki náttúruverndarsinni, alls ekki skrifa það. Mannkynið hefur sjaldnar verið heimskara en daginn sem það byrjaði að tala um að náttúran þyrfti á vernd að halda. Vernd okkar! Vernd fyrir okkur! Valdagröðustu despótar sögunnar gátu ekki skrúfað hrokann upp í svoleiðis hæðir. Sem þýðir auðvitað að þetta er fyrir sitt leyti dálítið sjarmerandi allt saman. Ef það fylgdi ekki alltaf þetta taugaveiklunarvæl. Hvað í veröldinni er til dæmis að svifryki? Svifrykið á Miklubrautinni – það er fullkomlega náttúrulegt. Náttúruleg útkoma af náttúrulegri hegðun dýrategundar sem til skamms tíma hefur gengið framúrskarandi vel í samkeppninni um náttúruvalið. Að útrýma öðrum tegundum er nú eiginlega bara skylda hverrar þeirrar lífveru sem á annað borð kemur sér í stöðu til að geta gert það. Kannski við tortímum sjálfum okkur í leiðinni, það er svo sem náttúruleg hegðun líka. Þú sérð að það þarf að rýma svolítið til hérna.
Það er bara vitleysa að náttúran sé sérstaklega gefin fyrir gegnblautan mosa og viðkvæmt gæsavarp og eitthvert svoleiðis dót. Hvaðan hefurðu það? Það er augljóst að náttúran kann best að meta öfgar. Almennilegan kulda til dæmis. Vetnissprengingar og hörku. Ekki eitthvað svona blautt og fínstillt lífríki úti í mýri eins og við höfum hér. Nei, náttúran hefur mest gaman af því að horfa á harða hluti skella hvorn á öðrum á miklum hraða. Náttúran er þriggja ára. Hún vill árekstra. Síendurtekna. Sársaukalausa. Og svo alls konar gastegundir inn á milli.
Fasisti? Já, auðvitað er ég fasisti.
En það er rangt að ég hafi átt í ástarsambandi við Filippo Tommaso Marinetti. Og það er líka rangt, hitt sem þú sagðir að ég hafi hringt í þig. Skárra væri það nú. Ekki myndi ég ganga með börn fyrir þig. Og eignast eintómar blóðlausar kveifar? Ég er viss um að þú ert þessi manngerð sem andar bara með einum hluta líkamans. Týpa sem kafnar allt of auðveldlega.
Jájá. Góða nótt sjálfur.
Keisaramörgæsir er fyrsta bók Þórdísar.