Úr Skuggaveiði


Rökkrið
vefst utan um
þennan helming
jarðarinnar
einsog túrban
um höfuð
víðföruls

Svarta hryssan
sem strauk í gær
er ósýnileg í nóttinni

Flugvél varpar skuggakrossi
á skefjalausa snjóbreiðuna
Mannabein hulin, horfin, nöguð
Kjarkaðir landpóstar
Villtir strokukrakkar
Kjánar að sanna karlmennsku sína
fyrir glottandi dauðanum
Krókloppnar sögupersónur
í leit að lesanda

Landið er ekki leikvöllur
Það krefst virðingar
Krefst komugjalds
af smáum dýrum og snoppufríðum
Undir skelinni
dylst tóm

Frostaveturinn mikli
Ískaldar stillur öll kvöld
og fífldjörf norðurljós
ærslafullt stjörnublik á næturhimni
einsog öll sveitin
væri innilokuð
í höfði súrrealista

Fréttir af ísbjörnum
tíðari en gestakomur
og flestir gestir
ísbirnir


Sindri, sem er fæddur 1970, hefur gefið út fjölda bóka fyrir börn og fullorðna. Ljóðin þrjú eru úr nýrri bók, Skuggaveiði. Sögur gefa út.