Úr uppfærslu Royal Shakespeare Company á Cardenio.

Óreiða á sviði

Söguþráður
Hertoginn Angelo og tvo sonu. Sá yngri, Henriquez, er flagari og villingur og þegar hann sendir vin sinn Julio til hirðarinnar að sækja fé til að kaupa hest fá Angelo go eldri bróðirinn, hinn göfugi Roderick, hann til að njósna um uppátæki svarta sauðarins. Henriquez er í óða önn að tæla unga sveitastúlku, Violante, til fylgilags við sig, en þegar hún verst ásóknum hans nauðgar hann henni. Meðan Julio er við hirðina gefst Henriquez líka færi á að fara á fjörurnar við Leonoru, heitmey Julios. Þó hún verjist honum líst föður hennar heldur en ekki á ráðahaginn, enda nýji vonbiðillinn betur ættaður en sá fyrri. Hún kemur bréfi til Julios, sem rétt nær heim til að verða vitni að brúðkaupinu. Hann er hrakinn á brott af mönnum Henriquez, en brúðurinn fellur í öngvit og er talin látin. Violante hefur dulbúið sig sem smaladreng í fjöllunum og nú heldur Julio á sömu slóðir og leggst út. Yfirsmalinn áttar sig á að Violante er stúlka, reynir að koma vilja sínum fram við hana en Roderick kemur þar að og bjargar henni. Henriquez kemst að því að Leonora hefur leitað skjóls í klaustri og fær Roderick til að hjálpa sér til að ná henni þaðan, sem hann felst á, með því skilyrði að hún fái að ráða hvort hún fylgi þeim. Þannig tekst Roderick að ná Julio, Leonoru, Violante og Henriquez saman, þar sem Julio og Leonora bindast aftur ástum og Violante felst á að giftast hinum iðrandi Henriquez, að ráði föður síns.

… If I thought young Julio’s Temper were not mended by the Mettal of his Mother, I should be something crazy in giving my Consent to this Match …

I
Þann 13. desember árið 1727 var leikrit frumsýnt í Theatre Royal, Drury Lane í London. Verkið hét Double Falshood, or the Distrest Lovers. Í kynningarefni, og prentaðri útgáfu sem leit dagsins ljós skömmu síðar, hljómaði kreditlistinn svona:

Written originally by W. Shakespeare and now revifed and adapted to the stage by mr. Theobald, the author of Shakespeare Restor’d.

Verkið hlaut sæmilegar viðtökur, en fljótlega urðu áberandi efasemdir um að hér væri komið verk ættað frá höfuðskáldinu og þjóðardýrlingnum sem var verið að að skapa úr Shakespeare um þessar mundir. Að einhverju leyti voru þetta ágætlega rökstuddir varnaglar, en þarna skipti líka máli hitt ritið sem nefnt er í kreditlistanum. „Shakespeare restor’d“ heitir nefnilega fullu nafni „Shakespeare Restor’d, or a Specimen of the many Errors as well Committed as Unamended by Mr Pope in his late edition of this poet; designed not only to correct the said Edition, but to restore the true Reading of Shakespeare in all the Editions ever published.“ Þeir voru góðir í hnyttnum bókatitlum í gamla daga. 

Í þessum bæklingi tætir Lewis Theobald, ungur lögfræðingur og upprennandi menningarviti, í sig nýja Hamletútgáfu skáldsins og fræðimannsins Alexander Pope, m.a. fyrir þá yfirsjón Popes að hafa ekkert tilit tekið til Q1 og Q2, en látið duga að búa F-texta verksins til prentunar. Þarna var Theobald auðvitað mun nútímalegri og meira prófessjónal en Pope, sem var hinsvegar alls ekki maður til að taka uppbyggilegri gagnrýni fegins hendi. Hann átti seinna eftir að semja stóran ljóðabálk, The Dunciad, þar sem skopstæling á Theobald er í stóru hlutverki, en í bili lét hann sér nægja að kasta rýrð á sannleiksgildi fullyrðingarinnar um að Double Falshood væri byggt á áður óþekktu verki eftir Skáldið.

Það var að sönnu sitthvað grunsamlegt við fullyrðingar Theobalds. Hann sagðist hafa undir höndum hvorki meira né minna en þrjú handrit upprunalega verksins, þar á meðal eitt sem hafi verið í eigu óskilgetinnar dóttur Shakespeares. Aldrei fékk neinn að sjá þessi handrit og þau hafa aldrei komið fram síðar.

Það sem hinsvegar styður mál Theobalds eru staðreyndir sem ekki voru kunnar þegar hann kom fram með sitt verk. Nefnilega að Shakespeare hafði að öllum líkindum hönd í bagga með að skrifa leikrit upp úr sama efni og Double Falshood er sótt í: söguna af Cardenio sem er nokkurskonar útúrdúr eða hliðarsaga sem fléttuð er inn í gangverk frægasta bókmenntaverks aldamótanna 15–16 sem ekki er úr penna Shakespeares, Don Quixote eftir Cervantes.

Það komu semsagt síðar í dagsljósið tvær ritaðar heimildir um að til hafi verið leikrit með nafninu Cardenio. Annarsvegar er færð til bókar greiðsla fyrir sýningu fyrir hirðina 1613 og hinsvegar færsla í „The Stationers’ Register“ frá 1653, en þar skráðu prentarar og útgefendur verk sem þeir hugðust prenta, til að tryggja sér einkarétt á framleiðslunni. Ekkert bendir til að af prentun hafi orðið, en engu að síður er þar fært til bókar The History of Cardenio eftir þá William Shakespeare og John Fletcher, arftaka Shakespears sem aðalhöfundur The King’s Men.

Það var semsagt nokkuð óumdeilanlega til leikrit eftir Shakespeare og Fletcher sem hét Cardenio, og má slá föstu að hafi sótt efni sitt til Don Quixote. Fyrsti hluti bókarinnar kom út á Spáni 1605. Um svipað leyti er Jakob fyrsti að semja frið við Spánverja (það er m.a.s. líklegt að Shakespeare hafi verið viðstaddur fund/athöfn í tengslum við það) og við það eykst mjög áhugi enskra á öllu sem frá Íberíuskaga kemur. M.a. hefst Thomas Shelton umsvifalaust handa við að þýða meistaraverk Cervantesar, sem frá fyrstu prentun var umtöluð metsölubók með hróður sem barst um alla Evrópu. Handrit að þýðingunni var á sveimi um bókmenntakreðsur Lundúnaborgar frá 1607. Sjálfur Borges taldi þýðingu Sheltons bestu útleggingu Quixote á nokkra tungu. Það sem ég hef lesið af henni er afbragð. Bragðmikið en auðskilið tungutak þessa tíma smellpassar.

Double Falshood fylgir söguþræði Cardenio-sögunnar í DQ þokkalega. Eins þykjast glöggir grúskarar flestir nokkuð víst að þar séu nægilega djúp fótspor eftir stíl bæði Shakespeares og Fletchers til að slá því föstu að að baki því búi hið týnda Cardenio-leikrit tvímenninganna, mögulega með viðkomu í smiðju William Davenant og Thomasar Betterton eftir að leikhúsin opnuðu aftur að lokinni valdatíð Cromwells. Allskyns skemmtileg smáatriði styðja þá kenningu. Dæmi: Theobald sjálfur var ágætur spænskumaður, og átti t.d. Don Quixote á frummálinu, en ekki þýðingu Sheltons. Það eru hinsvegar talsverð ummerki um þá þýðingu í textanum, sem gætu þá bent til að einhver annar hafi komið að máli.

Árið 2010 bættu Arden-menn útgáfu af Double Falsehood í sína Shakespeare-röð sem verður að teljast nokkuð nálægt því að vera fullnaðar-kanónísering. 

Svo ég las það.

II

Double Falshood  er nú ekki gott leikrit.

Samt sennilega nær því að vera boðlegt upp á svið en hin „óhreinu börnin“ sem ég hef lesið, Edmund Ironside, Edward III og Sir Thomas More. Senurnar sem í því eru eru alveg skýrar og gera það sem þær eiga að gera. Svolítill kjánagangur undir lokin, og almennt er mórallinn varðandi samskipti kynjanna og aðdraganda hjúskapar einhvernvegin ýktari og fornfálegri en í leikritum sem Shakespeare skrifaði einn og sjálfur mörgum áratugum fyrr. Þetta hefur ekki elst vel þó þetta hafi elst skemur. Verstir eru samt byggingagallarnir: það er alveg ljóst að það hlýtur að vanta eitthvað í þann texta sem fyrir liggur. Til dæmis hvað samskipti Henriquezar við skjald- og meðreiðarsvein sinn Julio eru ósýnileg – þeir hittast ekki fyrr en í fimmta þætti. Þá er eitthvað voða skrítið í gangi varðandi brottnám Leonoru úr klaustrinu. 

Ef ekki væri fyrir grunsemdir um að innan um leyndist smá Shakespeare þá væri ekki tíma á þetta eyðandi. En það er líka þrautin þyngri að koma auga á hann. Eitt er nú að það eru ansi mörg fingraför. Þá er rétt að hafa í huga að þar sem Theobald var mjög áfram um að sannfæra fólk um að hér væri komið í leitirnar týnt verk eftir Shakespeare (hann var ekkert að veifa Fletcher), þá er líklegt að hann hafi sett Shakespeareskan brag á það sem hann bætti við sjálfur. Enda er ansi mikið meiri endurómur af eldri Shakespeareverkum í textanum en reikna mætti með af verki frá lokum ferilsins, þar sem kominn talsvert annar hljómur í strokk skáldsins. 

Í Fake Shakespeare, ágætri ritgerð um efnið í Journal of Early Modern Studies, fer einn helsti núlifandi sérfræðingur í Shakespeare og samtímamönnum hans, Gary Taylor, yfir textann og nefnir dæmi um búta sem greiningartækin eigna höfundunum þrem. Hér er Shakespeare:

Julio
No Impediment Shall bar my Wishes, but such grave Delays
As Reason presses Patience with; which blunt not
But rather whet our Loves. Be patient, Sweet.

Leonora
Patient! What else? My Flames are in the Flint.
Haply, to lose a Husband I may weep;
Never, to get One: When I cry for Bondage,
Let Freedom quit me. 

5.2.109–116

Svona hljómar Fletcher:

Leonora
For such sad Rites must be perform’d, my Lord,
E’er I can love again. Maids, that have lov’d,
If they be worth that noble Testimony,
Wear their Loves here, my Lord; here, in their Hearts;
Deep, deep within; not in their Eyes, or Accents;
Such may be slip’d away; or with two Tears
Wash’d out of all Remembrance:
Mine, no Physick, But Time, or Death, can cure. 

5.2.94–101

Og hér er að lokum Theobald, ef marka má Gary Taylor og greiningarvélarnar hans:

Leonora
The righteous Pow’rs at length have crown’d our Loves.
Think, Julio, from the Storm that’s now o’erblown,
Tho’sour Affliction combat Hope awhile,
When Lovers swear Faith, the list’ning Angels
Stand on the golden Battlements of Heav’n,
And waft their Vows to the eternal Throne.
Such were our Vows, and so are they repaid. 

5.2.251–257

Við nennum alls ekki að deila við Taylor, enda lítið í húfi, þannig. Sú útgáfa hins glataða Cardenios sem við þó höfum í höndunum er meira og minna glötuð líka.

III

Það hafa verið gerðar ýmsar tilraunir til að bjarga því sem bjargað verður úr rústum Cardenios. Ein þeirra er reyndar eftir fyrrnefndan Gary Taylor og aðeins lýst í fyrrnefndri ritgerð. Þegar hann frétti af fyrirætlunum Gregory Doran að búa til leikhæfa útgáfu fyrir Royal Shakespeare Company reyndi Taylor að fá Doran til að nota sína, en vildi reyndar að leikstjórinn samþykkti að nota hana óséða. Doran var ekki til í það og hélt áfram að setja sína eigin saman, með því að bæta við hana bútum úr þýðingu Sheltons á Don Quixote, línum úr nokkrum öðrum verkum Fletchers sem einnig sækja efni í verk Cervantesar, og svo þegar allt annað þraut skaut hann inn nokkrum línum úr sjálfum Hamlet, og þykir ekkert leiðinlegt að segja frá því að enginn af ensku krítíkerurunum sem skrifuðu um sýninguna komu auga/eyra á þann bút.

Doran er fínn penni og skrifaði litla bók um þetta ferli allt; Shakespeare’s Lost Play – In search for Cardenio, með yfirliti um sögu þess sem vitað er um Cardenio og Double Falshood, um leikhús- og stjórnmál á ritunartíma þeirra beggja, og mögulega varðveislusögu textans. Skemmtilegt og fróðlegt efni, minnst kannski bitastætt það sem fjallar um uppfærsluvinnuna. Þó Doran vandi sig og hafi engan áhuga á fleipri, er óneitanlega auðveldara fyrir hann en innmúraða og vammlausa fræðimenn að fara í vangaveltugírinn. Þannig leiðir hann líkum að því í lokaorðum bókarinnar að mögulega hafi eitt af Shakespeare-handritunum þremur sem Theobald gasprar um lifað af tvo stórbruna og fleiri hremmingar en að lokum farið forgörðum 1921 þegar Írski lýðveldisherinn brenndi til grunna sveitasetrið Stradone House.

Þeir Doran og Taylor, og Bream Hammond Arden-ritstjóri eru sammála um að Lewis Theobald hafi verið afbragðs-Shakespeare-fræðimaður, og betri slíkur en Alexander Pope, svo við nefnum nafn af handahófi. Doran nefnir eitt dæmi um framlag Theobalds úr heildarútgáfu hans á verkunum frá 1733 (Í henni hafði hann Cardenio ekki með, sem þykir kyndugt og draga úr trúverðugeika sögunnar). Í Foliotexta Henry V er óskiljanleg lína í frásögn Mistress Quickly af dauða Falstaffs:

for his Nose was as sharpe as a Pen, and a Table of greene fields.

H5, 2.3.16

Hvur andskotinn?! Þarna hefur handritið sem setjararnir höfðu verið heldur betur illlæsilegt. Vonandi. Lausn Popes var að þetta væri ekki díalógur heldur svigamál fyrir sýningarstjóra, fyrirmæli um að bera borð á svið, sem hefði verið í eigu einhvers Greenfields. Sérlega kjánaleg hugmynd. Uppástunga Theobalds um hvað lægi að baki mislestri setjaranna hefur hins vegar verið tekin góð og gild síðan:

for his nose was as sharp as a pen, and he babbled of green fields.

Sérlega falleg og sannfærandi mynd af síðasta óráði byttunnar. Þetta eigum við Lewis Theobald semsagt að þakka. 

Í bók Dorans er lýsing á leiklestri á hálfkaraðri endursköpun hans á Double Falshood, snemma í ferlinu. Eftir hann segir Cicely Berry, goðsagnakenndur radd- og textagúrú Royal Shakespeare Company, að þó henni hafi fundist leikritið spennandi og engan vegin getað áttað sig á hvað væri nýtt, hvað gamalt og hvað sótt í önnur verk þá stæði eftir að:

„It’s the language isn’t it? It’s just not not Shakespeare. Not surprising enough. It doesn’t fly“.

Hún ætti að vita það.


Textinn.

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.