„Já.“

- Um Hrafnaklukkur eftir Kristian Guttesen

Það er ef til vill ekki í samræmi við þá ímynd sem maður hefur af ferli skálda að segja að einhverjum fari fram með útgáfu sinnar elleftu bókar. Við eigum því kannski frekar að venjast, gerum jafnvel kröfu um, að eitt til tvö byrjendaverk verði til og að þar með hafi listamaðurinn slitið barnsskónum. Sé fullmótaður sem slíkur, þó að verkin geti verið misgóð.

Kristian Guttesen er hins vegar óvenjulegur hvað þetta og fleira varðar. Þrátt fyrir að hafa gefið út þennan fjölda ljóðabóka er tæplega hægt að segja að hann berist með meginstraumi íslenskrar ljóðaútgáfu. Það er jafnframt heldur langt gengið að kalla hann utangarðsmann. Hann er einhvern veginn þarna á milli. Þetta lýsir sér meðal annars í því að meginhluta bóka sinna hefur hann gefið út undir eigin útgáfumerki. Hann hefur sjálfur lýst því að samskipti hans við útgefendur í gegnum tíðina hafi ekki gengið vel og kennir þar um sjálfum sér fremur en þeim. Það læðist að manni sá grunur að þessi staða hans hafi leitt til þess að hann hafi á köflum einangrast um of í sinni listsköpun og það hafi á stundum komið niður á gæðum þess sem hann hefur sent frá sér.

Hrafnaklukkur er hins vegar vel heppnuð bók hvernig sem á er litið. Kápan, sem hönnuð er af Ragnari Helga Ólafssyni og er afskaplega falleg, er gefin út í tveimur mismunandi litasamsetningum (martröð fyrir bókasafnara en ljær útgáfunni samt skemmtilegan blæ) og smátt brot bókarinnar hæfir innihaldinu vel. Oft eru það dýrustu gjafirnar sem koma í litlu pökkunum og það sannar sig hér. 

Efni bókarinnar er skipt í þrjá kafla sem nefnast Mennska, Andi og Sjálf. Mig grunar að þessi kaflaskipting skipti höfundinn meira máli en lesandann, ég geri mér til dæmis ekki fulla grein fyrir muninum á anda og sjálfi, en uppbrot af þessu tagi skemmir ekkert fyrir. Persónulega er ég hrifnari af fyrsta og þriðja kafla en öðrum kafla, en það sem eftir stendur er þrátt fyrir allt að heildarmyndin er sterk.

Ef ég ætti hins vegar að þrískipta ljóðum Kristians Guttesen myndi ég frekar fara þá leið að flokka þau í heimspekiþanka, minningar og ævintýri. Ljóðin í Hrafnaklukkum eru ýmist styttri óhlutbundin ljóð eða lengri samfelldir prósar sem falla jafnan undir einhvern þessara þriggja flokka. Höfundurinn meðhöndlar eigin minningar, oft sárar og erfiðar, af mikilli nærgætni en þó einurð og hispursleysi. Ævintýrin sem höfundur segir, svo sem langur prósi um tímaferðalag og samskipti við Þórberg Þórðarson, eru vönduð og skemmtileg. Sérstaklega finnst mér þó takast vel til þegar Guttesen, í orðastað Þórbergs, gerir góðlátlegt grín að sjálfum sér. Hinar heimspekilegu vangaveltur eru á stundum nokkuð háfleygar en hér eru þær í réttu hlutfalli og gefa bókinni aukið gildi. Eitt vil ég líka nefna sem ekki er að finna hér og það er óhugnaður. Það hefur verið snar þáttur í höfundarverki Kristians, og er sannarlega verðugt viðfangsefni út af fyrir sig, en hérna sakna ég þess alls ekki.

Í útgáfuhófi bókarinnar fékk höfundurinn þá spurningu óvænt hvort þetta væri hans besta bók. Svarið var stutt og einfalt. „Já.“ Ég er afdráttarlaust sammála höfundinum um þetta og finnst það raunar segja ákveðna sögu að hann geti sjálfur án nokkurs hiks svarað spurningunni með þessum hætti. Hrafnaklukkur bera þess merki að Kristian Guttesen hafi tekið út þroska sem listamaður og að hann hvíli í verkum sínum af meiri ró og meira sjálfsöryggi en áður. Hvort tveggja er ánægjulegt að upplifa sem lesandi.

Dómurinn birtist á prenti í Austurglugganum.