Ýkjukennd karla- og íþróttasaga

Um Meistarana eftir Hjört Marteinsson

Hjá JPV útgáfu kom nýverið út skáldsagan Meistararnir eftir Hjört Marteinsson. Verkið telur 217 blaðsíður og 26 mislanga kafla.

Hjörtur Marteinsson er fæddur 1957. Eftir hann hafa komið út fimm skáldverk með því sem hér um ræðir. Hann hefir og hlotið verðlaun fyrir verk sín. Tvisvar hefir hann fengið Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Árið 2000 fyrir handrit að skáldsögunni AM 00 og árið 2014 fyrir ljóðabókina Alzheimer tilbrigðin. Árið 2004 hlotnaðist honum Ljóðstafur Jóns úr Vör. Önnur verk Hjartar eru ljóðabækurnar Ljóshvolfin (1996) og Myrkurbil (1995). Þess má geta að Hjörtur hefir og fengist við myndlist og að sonur hans er skáldinn Dagur Hjartarson (1986) sem áskotnaðist Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2012 fyrir ljóðabókina, eða handritið að henni, Þar sem vindarnir hvílast.

Aðalpersóna Meistaranna er 10 ára strákur að nafni Rósant. Í sögunni greinir hann frá sér og afa sínum sem einnig heitir Rósant. Afinn er mikill áhugamaður um frjálsíþróttir, einkum og sér í lagi kringlukast. Keppir hann í öldungaflokki og er einnig dómari á mótum Laugardalsvallar. Rósant eldri fer til Finnlands ásamt öðrum herramönnum til að taka þátt á Evrópumóti öldunga í Turku. Afinn á titil að verja. Rósant yngri er með í för og upplifir hann þar ýmislegt fjarstæðukennt.

Sögusviðið er Ísland, eða Reykjavík öllu heldur, og Finnland árið 1972. Sögutíminn er tvíþættur þar sem sögumaður, Rósant yngri, rifjar upp atburði þessa þegar hann er um sextugt. Sagan er þar af leiðandi sögð frá sjónarhorni fullorðins manns sem horfir til baka á barnið sem hann var; barn í hópi fullorðinna manna sem haga sér oft og tíðum eins og sannir Íslendingar í útlöndum með tilheyrandi drykkjusvalli og löngun í kvenmannskropp. Ef sjónarhornið er skoðað aðeins nánar þá er það í senn einfeldingslegt, atvikum er lýst frá sjónarhorni barns, sem skapar einskonar framandgervingu, og svo er það hinn fullorðni sem segir söguna í afturliti þess sem veit, eða ætti að vita, hvernig flest er í pottinn búið.

Í samhengi ævintýra og þess fjarstæðukennda verður að minnast á eina aukapersónuna sem er eiginlega svo stór að hún verður aðal. Það er Rikki brúskur sem er byggður á sænska íþróttamanninum Ricky Bruch (1946-2011) sem var tröllvaxinn og umdeildur í lifanda lífi. Hann viðurkenndi til dæmis mikla stera- og lyfjanotkun. Í verkinu fær hann á sig ævintýralegan, þjóðsagnakenndan og framandi blæ. Raunar eru allar persónur verksins, fyrir utan Rósant yngri, ýkjukenndar.

Fyrirhafnarminnst er að flokka söguna sem íþróttasögu. Vissulega hverfist sagan um frjálsar íþróttir og þá aðallega kringlukast. Einnig er um skáldaða endurminningasögu að ræða þar sem viðfangsefnið er sumpart æska drengsins. Ekki er þetta þó þroskasaga, persónur, þá aðallega strákurinn, taka ekki breytingum fyrir utan að sumar þeirra bíta í grasið. Skringileg dauðsföll eiga sér stað, dauðsföll sem eru eins og oft er lýst er á síðum DV. Fyrst og fremst er þetta þó karlasaga, sem segir frá fremur stórkarlalegum körlum á ýkjukenndan hátt. Þannig er frásagnarstíll sögunnar ýkjukenndur og ævintýralegur. Málsnið rokkar nokkuð og kallast stundum á við einfeldings- og fullorðinslega sjónarhornið. Getur það verið hvort upphafið eða jarðbundið.

Má finna því nokkuð til foráttu að þar gætir samræmisleysis. Það er að segja að rödd sögumanns er ýmist sakleysisleg eður fullorðinsleg þótt ljóst sé að sá sem segir söguna sé fullorðinn maður. Þegar notast er við einfeldingslega sjónarhornið passar orðfærið máski ekki við nálgunina þar sem það (orðfærið) er allt annað en naívískt. Eins er talsvert um annað ósamræmi í sögunni, reikningsdæmi sem ganga illa upp og viðkoma atvikum, ártölum og aldri persóna.

Til að bera í bætifláka fyrir ósamræmið þá er tíminn og minnið vegamikill hluti verks, hvernig ekki sé ávallt hægt að stóla á minnið sem er brigðult. Svo eru og (oft) þær minningar sem fyrirfinnast innra með manni tímalausar. Þær kunna bara að breytast með árunum (fer eftir því á hvaða tímaskeiði persónan horfir til baka).

Hér er því ýkjukennda ævintýrasögu á ferð. Saga sem setur hvundaginn í óvænt ljós. Hvundaginn því hér eru engar prinssessur, prinsar og drekar. Sagan er vissulega ótrúverðug en gefur sig heldur ekki út fyrir að miðla trúverðugri frásögn.

Í fljótu bragði verður ekki fundin bein tenging við samtímamál nema ef vera skyldi að lýsa karlaheimi, sem hugsanlega mun brátt heyra sögunni til, á ýkjukenndan og ótrúlegan hátt í þeim umbreytingum samfélagsins sem við upplifum þessa dagana.

Þessi saga er ekkert meistaraverk. Þetta er sæmileg saga en verður varla í flokki þeirra sagna sem raða sér í flokk eftirminnilegra sagna ársins 2018. Til þess er hún of misjöfn og lítt afgerandi. Svo er hægt að láta ósamræmið fara í taugarnar á sér.
Lestur á verkinu er þó ekki tími sem maður sér eftir. Það er stutt og fljótlesið og má alveg hafa gaman af.