Aðalræðumenn NonfictioNow.

Hin ótrúlega sannsögusýning

Fyrsta júní verður blásið til sannsöguráðstefnunnar NonfictionNOW í Háskólabíói með málstofu og sýningu kvikmyndarinnar Draumalandið, sem byggir á samnefndri bók Andra Snæs Magnasonar. Næstu daga á eftir verða málstofur í Háskóla Íslands þar sem fjallað verður um „sannsöguleg skrif í öllum sínum fjölbreytileika“, einsog segir í tilkynningu, auk sérstakra fyrirlestra í Silfurbergi í Hörpu og höfundakvölda með íslenskum og erlendum rithöfundum í Norræna húsinu. Rúnar Helgi Vignisson situr í stjórn ráðstefnunnar og Starafugl hafði við hann samband og spurði spjörunum úr.

Hver er tilurð ráðstefnunnar? Skil ég það rétt að þetta sé farandráðstefna?

Ráðstefnan varð til við sannsagnasmiðju Iowa-háskóla árið 2005 að frumkvæði rithöfundarins og prófessorsins Robins Hemleys. Hún hefur verið haldin annað eða þriðja hvert ár síðan og ferðast á milli nokkurra staða, hefur meðal annars verið haldin í Melbourne í Ástralíu og Flagstaff í Arizona. Hún kemur nú í fyrsta skipti til Evrópu. Ætli megi ekki segja að hún sé svar við stórauknum áhuga á sannsögulegum skrifum. Nú eru skáldin farin að spreyta sig óspart á þessu formi.

Eins og ráðstefnan hefur þróast má segja að hún sé orðin að einum helsta samráðsvettvangi höfunda sem skrifa um sannsöguleg efni. Margir af þekktustu sannsagnahöfundum samtímans hafa verið aðalfyrirlesarar á þessum þingum, má þar nefna Cheryl Strayed, David Shields, Patricia Hampl, Phillip Lopate, Alison Bechdel, Rebeccu Solnit og John Edgar Wideman. Og nú bætast tveir af þeim allrafrægustu við, Karl Ove Knausgaard og Gretel Ehrlich. Ævinlega er leitast við að taka mið af bókmenntum ráðstefnulandsins, í Ástralíu mætti t.d. Helen Garner, frægasti rithöfundur þeirra í þessum geira, og hér verður Draumaland Andra Snæs til sérstakrar umfjöllunar, auk fleiri íslenskra verka. Einnig taka margir íslenskir höfundar þátt í upplestrum í sérstakri hliðardagskrá sem verður í Norræna húsinu, öllum opin og ókeypis. Nefna má Jón Gnarr, Sigurð Pálsson, Elísabetu Jökulsdóttur og Gerði Kristnýju.

–  Hvernig skilgreinið þið „nonfiction“ hérna – eiga ævisagnaritarar og fræðimenn heima á ráðstefnunni? Eða er þetta einvörðungu „skáldskapur hins sanna“ – ?

Öll skrif sem eru sannsöguleg eða óskálduð eru til umfjöllunar. Mest áhersla er þó á það sem ég hef kallað sannsögu og er þýðing á hugtakinu „creative nonfiction“. Sú aðferð snýst um að nýta hinar þróuðu frásagnaraðferðir skáldskaparins til að miðla sannsögulegu efni, um að breyta efninu í sögu og gera það þar með aðgengilegra. Ef málstofulýsingar eru lesnar má sjá að flestir sem koma að óskálduðum skrifum geta fundið sína matarholu. Það er fjallað um ævisögur og þá ekki síst um eilífðarspurninguna hver megi segja hvað, það er fjallað um ferðaskrif, um ljóðrænar og heimspekilegar esseyjur, um sannsögur í ljóðformi, um að skrifa um stríð og harmleiki, um þýðingar á óskálduðu efni, um ritstjórn á sannsögulegu efni, um sannsögulegar myndasögur, um margmiðlunarskrif, hinseginskrif, blaðamennsku, fjölmenningarskrif, ritlistarkennslu og þannig mætti áfram telja.

– En maður spyr sig kannski hvað hafði orðið af raunvísindunum: læknisfræðinni, akademísku sagnfræðinni, félagsfræðinni, heimspekinni o.s.frv. Mér skilst að fræðimenn víða erlendis rannsaki slíka texta sem bókmenntir, án þess að gera það út frá forsendum fagurbókmennta. Eru fræðitextar ekki non-fiction – ekki sannsögur? Hvernig svararðu þeirri gagnrýni að áherslan sé á texta sem eru á mörkum fiction og non-fiction – og skilji kannski út undan þá sem eru „einfaldlega“ non-fiction?

Skilin á milli nonfiction og creative nonfiction eru ekki alltaf mjög glögg. Margir raunvísindamenn leggja nú aukna áherslu á að koma rannsóknaniðurstöðum sínum til almennings með því að gera skrif sín aðgengilegri. Sumir þeirra hafa þá leitað í smiðju sannsögunnar til þess og hafa náð miklum árangri, orðið jafnvel metsöluhöfundar.

Það eru vissulega til fjölmargir sem rannsaka fræðileg skrif á þeirra eigin forsendum. Aðaláherslan er kannski ekki þar á þessari ráðstefnu en þó sýnist mér að komið verði inn á slíkar rannsóknir í nokkrum málstofum. Fræðileg skrif eru að þróast smátt og smátt þótt þar ríki mikil íhaldssemi. Sjálfur tók ég þátt í því fyrir nokkrum árum ásamt prófessor í læknisfræði að skrifa leiðbeiningar um ritun fræðigreina í Læknablaðið. Og nú eru til kennslubækur sem nýta sér sannsagnaaðferðir, þar sem höfundurinn notar fyrstu persónu fornafn og rabbar við lesandann um viðfangsefnið. Það er mikil deigla þarna.

– 400 höfundar er óhemja – og dagskráin gríðarmikil og margt í gangi samtímis. Er ekki hætt við að maður eyði megninu af ráðstefnunni í að missa af einhverju alveg frábæru?

Það er mikil gróska í óskálduðum skrifum og ráðstefnan endurspeglar hana. Skapast hefur hefð fyrir því að alþjóðlegar ritlistarráðstefnur séu settar upp með þessum hætti. Úrvalið tryggir að allir finni eitthvað við sitt hæfi, jafnvel í hverju einasta tímahólfi ráðstefnunnar. Inni á milli verða líka upplestrar úr verkum, ef fólk vill hvíla sig á umræðunni, auk þess sem boðið verður upp á listrænan gjörning, bókmenntagöngur og kvikmyndasýningu.

Þegar ég sæki ráðstefnur af þessu tagi fer ég vandlega yfir ráðstefnubæklinginn og vel mér málstofur eins og konfektmola. Oft er jú erfitt að velja á milli og stundum vildi maður geta verið á tveimur stöðum í einu. En vanalega sit ég linnulaust frá morgni til kvölds og oftar en ekki kemur eitthvað skemmtilega á óvart í hverri einustu málstofu, maður uppgötvar nýja höfunda og nýja fleti á forminu. Hér eru helstu hugsuðir formsins saman komnir, allir fyrirlesararnir hafa iðkað það og margir þeirra kenna það við ritlistarskóla. Úti í heimi eru gerðar alls konar tilraunir með þetta form sem sjást enn sem komið er ekki hér heima. Höfundar gera sig t.d. að eins konar tilraunadýrum, kona þykist kannski vera karl í einhvern tíma og skrifar bók um það, aðrir reyna að lifa eftir kennisetningum Biblíunnar í ákveðinn tíma og skrifa um það, enn aðrir reyna að endurtaka eitthvað úr æsku sinni, fara aftur í sumarbúðirnar sem þeir sóttu í æsku og skrifa síðan um það. Þetta er orðið að mjög skapandi bókmenntagrein þar sem mikið rými er fyrir listræn tilþrif.

– Um síðustu helgi var haldin Amazing Home Show, kjörbúðir eru merktar „discount supermarket“ og samkvæmt nýjustu fréttum heitir Flugfélag Íslands nú Air Iceland Connect. Kom aldrei til greina að íslenska heiti ráðstefnunnar fyrir okkur lókalana? Er öll dagskrá á ensku?

Það hefði vissulega verið gaman að íslenska heitið fyrir heimamenn þó að öll dagskráin sé á ensku. Ég hef glímt við það ásamt ritlistarnemum undanfarin ár að reyna að finna íslensk heiti yfir nonfiction og creative nonfiction. Nonfiction kalla ég ýmist óskálduð skrif eða sannsöguleg og creative nonfiction hef ég kallað sannsögur af því að aðferðin snýst að verulegu leyti um að breyta efninu í sögu eins og ég sagði áðan. Nonfiction eða óskálduð skrif er eins konar regnhlífarheiti yfir þessi skrif öll á ráðstefnunni og því gæti NonfictioNOW útlagst sem ÓskáldaðNÚ. En ekki er það fagurt! Meira skapandi heiti gæti verið SannaðuNÚ.

Þess má geta að við notum hugtakið „húslestur“ á ráðstefnunni um viðburði sem fara fram fyrsta daginn, höfum það framan á ráðstefnubæklingnum ásamt orðabókarútskýringu og tjöldum því líka á stuttermabolum sem við höfum látið framleiða í tengslum við ráðstefnuna.

 


Hægt er að skrá sig á ráðstefnuna á www.nonfictionow.org. Aðalræðumenn eru Karl Ove Knausgaard, Aisha Sabatini Sloan, Gretel Ehrlich og Wayne Koestenbaum. Fyrirlestrar þeirra fara fram í Silfurbergi í Hörpu og kostar þúsund krónur inn á hvern eða þrjú þúsund fyrir alla fjóra. Miðasala á vef Hörpu