Pabbi prófessor er önnur skáldsaga Gunnars Helgasonar um Stellu Erlingsdóttur og fjölskyldu. Sú fyrri Mamma klikk hlaut góðar viðtökur þegar hún kom út. Áður hefur Gunnar ritað bækur um fótboltastrákinn Jón Jónsson og fleiri barnabækur og unnið verðlaun fyrir. Eins er hann þekktur leikari og svo fyrir barnaefni sem hann vann með Felixi Bergssyni. Pabbi prófessor er gefin út af Forlaginu undir merkjum Máls og menningar.
Eins og fyrr segir þá er sagan um Stellu Erlingsdóttur, sem er í hjólastól, og fjölskyldu hennar. Í þetta skiptið er mömmu hennar, óperusöngkonunni, boðið hlutverk í uppfærslu í Berlín rétt fyrir jól. Pabbi hennar er prófessor við Háskóla Íslands og eins og allir vita eru háskólakennarar afskaplega uppteknir í desember vegna prófa og yfirferða verkefna. Einnig vita allir að prófessorar eru utan við sig vegna gáfna sinna og taka oft lítið eftir því sem er að gerast í kring um þá. Engu síður hvetur hann konuna sína til dáða og lofar að undirbúa jólin.
Palli stóri bróðir hennar er nýbyrjaður í framhaldsskóla og kynnir fyrir fjölskyldunni nýju og hans fyrstu kærustu. Hún leggst vel í flesta fjölskyldumeðlimi en Stellu líst ekkert á hana. Litli bróðir hennar, Siggi, á að fara í tunguhaftsklippingu til að hann geti sagt err og er eins og stóri bróðir búinn að finna sér kærustu þó hann sé aðeins sjö ára gamall.
Stella sjálf er komin í unglingadeild í grunnskóla og kynnist nýjum krökkum þar . Suma kann hún vel við en aðra ekki svo vel. Hún verður skotin í strák í fyrsta sinn og fyllist efasemdum vegna þess að vera í hjólastól. Hún á bágt með að ímynda sér að nokkur strákur vilji vera með stelpu sem er föst við stólinn. Eins þarf hún eins og aðrir nemendur að taka próf og berjast við það að fá pabba sinn til að gera það sem þarf til að það verði jól.
Það er sem sagt heill hellingur í gangi í þessari sögu og nóg spenna til að setja lesandann á ystu nöf við lesturinn. Allar helstu persónur bókarinnar eru vel úr garði gerðar og virka heilar á lesandann. Mér þykir sagan lýsa nokkuð vel hversu hektískt líf í stórri fjölskyldu getur verið. Best er hversu kómísk nálgunin er. Þau eru mörg atvikin í sögunni þar sem ég og átta ára strákurinn minn grenjuðum úr hlátri er ég las bókina fyrir hann.
Annar kostur við söguna er hlýjan í frásögninni. Manni finnst höfundi þykja mjög vænt um þessar persónur sínar og þær um hverja aðra. Sagan verður þó aldrei væmin. Allir þræðir ganga upp og lesandinn situr ekki uppi með það á tilfinningunni að gerð hafi verið atlaga að vitsmunum hans. Það er nokkuð sem mér finnst gerast nokkuð reglulega er ég les barnabókmenntir.
Eini gallinn sem ég fann við lesturinn var eitt dæmi um þágufallssýki. Það getur verið að þetta hafi átt að vera karaktereinkenni unglings en málið er bara að þetta er eina skiptið sem það gerist. Þetta er auðvitað bara smágalli og eins og eins og fyrr segir ekkert ólíklegt að hafi verið viljaverk.
Pabbi prófessor er alveg gífurlega skemmtileg bók og vel gerð. Hún er ein af þessum sjaldgæfu verkum ætluðum börnum sem er alveg jafn áhugaverð fyrir fullorðna og markhópinn.