Gáttatif – upp úr hafsjó bókaflórunnar

Hefur þú heyrt um hjartagalla sem nefnist Gáttatif?

Samkvæmt vísindavefnum er Gáttatif rafleiðnitruflun í leiðslukerfi hjartans. Gáttatif getur verið einkennalaust en einkennin eru helst skert úthald, hjartsláttatruflanir og jafnvel einkenni hjartabilunar, en sjúklingar með hjartabilun þola gáttatif mjög illa. En þetta veit ég bara vegna þess að amma mín þjáist af þessu. (Ætli þetta sé ættgengt?)

Sigurbjörg Friðriksdóttir opnar heim ljóðabókar sinnar, Gáttatif, með ljóði sem gefur manni kinnhest, svona eins og Gunnar á Hlíðarenda gaf Hallgerði Langbrók forðum daga.

hvort sem þú trúir því
eða ekki
þá var það í síðustu viku
að þessi orð komu
í höfuðið á mér

takk pabbi
takk
fyrir
að deyja

þegar þú fórst
opnaðist
farvegur

Ég las þetta ljóð fyrir vinkonu mína, hún starði út um gluggann og það eina sem hún sagði var „shit“ – ég er henni hjartanlega sammála.

Þetta eina ljóð gefur tóninn fyrir það sem á eftir kemur. Bókin er nefnilega stútfull af sorg, von, gleði og ást.

Það sem er heillandi og þægilegt við ljóðin hennar Sigurbjargar er að þau eru einföld, lítið er um myndlíkingar eða viðlíkingar. Ljóðin hennar eru hrein og bein, sem ég kann mjög svo að meta. Hún er ekki að reyna að vera a-klassa skáld og þess vegna stendur hún upp úr í hafsjó bókaflórunnar sem fyllir bókabúðir landsins. Verður fólk ekkert þreytt á að vera sett í þá stöðu að finna allar þessar duldu merkingar? Setjast flest skáld niður og bara reyna að setja eitthvað niður á blað sem er hálf óskiljanlegt og fá sér latte og eru bara geggjað sáttir? Því flóknara – því betra.

Sigurbjörg skrifar hér bók fyrir fólk á mínum aldri. Mín kynslóð nennir ekki alltaf að lesa eitthvað eftir háfleyg skáld sem reyna af öllum mætti að vera tilgerðarleg og næla sér þannig í eins og ein eða tvenn verðlaun.

En þessi ljóðabók tilheyrir einmitt seríu Meðgönguljóða sem er gefin út af forlaginu Partusi. En serían er helguð nýjabruminu, nýtísku, í íslenskri ljóðlist.

Gáttatif er ljóðabók sem flestir ættu að tengja við. Ég vil þó ekki sýna þér of mörg ljóð þar sem þau eru fá og ég vil hvetja þig til að fjárfesta í þessari opinskáu snilld. En ég þarf að leyfa þér að lesa það ljóð sem náði vel til mín, ljóð sem ég sá sjálfan mig endurspeglast í.

það er
þrúgandi
að þurfa
að bjóða
góðan daginn
dag eftir
dag

Sigurbjörg skilur hvernig það er að vera manneskja, þær hugsanir og atvik sem gera okkur mannleg. Sem er einmitt það sem heillar mig.