Mikið og fágætt havarí hefur skapast kringum nýlegt hagfræðirit, bókina Capital in the 21st Century, sem kom út á frönsku í fyrra en í enskri þýðingu nú árið 2014. Höfundur ritsins, franski hagfræðingurinn Thomas Piketty, segist í inngangi hafa orðið þreyttur, upp úr tvítugu, á and-kapítalísku tali án vitsmunalegs innihalds og rökstuðnings. Hann hafi hins vegar líka verið feginn að snúa aftur til Frakklands eftir nokkurra ára störf í Bandaríkjunum, þar sem hagfræðingar séu ekki teknir jafn alvarlega í Frakklandi. Hann hafi í fyrsta lagi viljað eiga erindi við fólk úr öðrum fögum, innan félagsvísinda og utan, í öðru lagi forðast að hylla einfaldar stærðfræðijöfnur umfram það sem empirískar rannsóknir gæfu verulegt tilefni til.
Hvað sem líður óþoli höfundar gegn and-kapítalískri retórík hafa rannsóknirnar sem hann leggur riti sínu til grundvallar orðið einhverjum tilefni til að uppnefna hann marxista. Piketty leggur rit sitt fram í skýru samhengi við Auðmagnið eftir Karl Marx. Heiti ritsins felur þegar í sér slíka skírskotun en Piketty gerir líka grein fyrir tengslum sinna rannsókna við rannsóknir Marx á 19. öld, með áherslu á þá þekkingu sem bæði liðin saga og gagnavinnslugeta samtímans gerir mögulega í dag en var ekki þá. Piketty er ósammála því grundvallaratriði í kenningu Marx að mótsagnir eða spenna í gangvirki kapítalismans muni óhjákvæmilega leiða til endaloka hans. Þvert á móti geti kerfið fundið jafnvægi í mikilli mismunun til langs tíma. Piketty setur sama fyrirvara við allar getgátur um þróun og framtíð: í besta falli geti hagfræðin spáð um líklegustu þróun að gefnum ákveðnum lykilstærðum en áhrif stjórnmála, tækniþróunar, hugmynda, tilfinninga og annarra þátta á breytni fólks kippi fótunum undan öllum hagfræðilegum fatalisma. Áhugasvið höfundanna tveggja er þó náskylt, hér tengsl auðs og jöfnuðar.
Hluti af vinsældum bókarinnar stafar af því að höfundur skrifar afar aðgengilegan texta. Í samræmi við þau fyrirheit að stofna til samræðu út fyrir hagfræðina sem sérgrein, og þá faglegu hógværð sem birtist í þeim orðum hans að hagfræðingar leggi upp til hópa kapp á að dylja að þeir viti ekki neitt um neitt, vísar hann, eins og fram hefur komið í umfjöllun um ritið, meðal annars til skáldsagna og kvikmynda í málfutningi sínum. Meðvitund um tungumál nær þó lengra en svo: Piketty hafnar til dæmis hugtakinu mannauður (e. human capital) þar sem það hafi enga merkingu nema þar sem þrælahald er leyft og iðkað, því kapítal eða auður sé samkvæmt skilgreiningu framseljanleg eign.
Framsetning Pikettys getur skipt sköpum um viðtökur ritsins en er þó auðvitað ekki kjarni málsins. Rannsóknirnar sem liggja ritinu til grundvallar snúast um samanburð á lykilstærðum í nokkrum löndum: Bandaríkjunum, Frakklandi, Bretlandi, Þýskalandi, Kanada, Japan og Svíþjóð, og þróun þessara stærða frá því um 1700 til dagsins í dag. Ein höfuðstærð er hlutfall auðs og tekna í hverju landi fyrir sig og á heiminn litið. Auður eða kapítal telst allt sem er í eign einhvers, einstaklinga, fyrirtækja, opinberra stofnana og ríkja, og má selja á markaði. Það eru landeignir, fasteignir, verksmiðjur og vélbúnaður en líka hugbúnaður, höfundarverk, einkaleyfi og svo framvegis. Tekjur eru um það bil það sem skatturinn telur til tekjustofna: launatekjur, styrkir, bónusar og annað. Fram til fyrri heimsstyrjaldar, snemma á 20. öld, nam auður heimsins um 4-5 samanlögðum árstekjum í heiminum. Eftir stríðin féll þetta hlutfall niður í 2-3 samanlagðar árstekjur. Þrjátiu árum síðar, um 1980, var það hins vegar tekið að rísa á ný og stendur nú ekki fjarri því sem var í upphafi 20. aldar: talinn í árstekjum er auður heimsins nú tvöfaldur á við það sem hann var um miðbik 20. aldar.
Lögun línurita sem sýna þessa þróun bjóða upp á að kalla þau U-kúrvur: stærð sem var há lækkaði um hríð og hækkar svo á ný. Saga hlutfallsins auður/tekjur er aðeins ein af mörgum U-kúrvum sem birtast í bókinni. Aðrar skyldar stærðir, t.d. hlutfall arfs af tekjum fólks, hlutfall þess sem rennur hinum tekjuhæstu í skaut, hinu fræga eina prósenti, og fleira, hefur þróast í fullu samræmi við hlutfall auðs og tekna.
Vandinn er, segir Piketty, og á þar sterkan samhljóm við marxíska hagfræði, að tekjur fela í sér ákveðna dreifingu sem auður gerir ekki: auður safnast upp og erfist. Við hægan hagvöxt geri hann það hraðar en við mikinn vöxt. Og til lengri tíma litið sé sá hraði vöxtur sem mörg lönd vöndust upp úr miðri 20. öld ekki í boði: 3-5% hagvöxtur sé aðeins mögulegur á meðan lönd eru að vinna sig upp úr bágri stöðu eða áföllum á við styrjaldir og sé óhjákvæmilega tímabundinn. Slíkt ástand létti sósíalistum lífið og auðveldi kjarajöfnun. Lönd sem nýti sér tæknistig síns tíma til fullnustu og séu fullnýtt að mannfjölda, geti aldrei búist við hraðari vexti en 1-1,5% á ársgrundvelli. Vesturlönd stefni nú þegar hraðbyri í átt að nýrri „gullsleginni öld“ (e. gilded age) – sem var hugtak Marks Twain yfir tímabilið 1870-1910 í Bandaríkjunum, tímabil mikils auðs og mikillar fátæktar. Hinn óhjákvæmilega hægi vöxtur til langs tíma geri tekjujöfnun bæði erfiðara verkefni en fólk mátti venjast á 20. öld og meira aðkallandi.
Nú verður sjálfsagt hart bitist um mörg atriði í riti Pikettys meðal hagfræðinga og annarra á komandi árum: bókin hefur þegar náð það mikilli útbreiðslu og rannsóknirnar sem liggja henni til grundvallar notið það mikillar faglegrar viðurkenningar að þær verða líklega ekki auðveldlega hunsaðar. Niðurstöðurnar eru ekki bara óheppilegar fyrir talsmenn ríkjandi hugmyndafræði síðustu þrjá, fjóra áratugi, heldur sláandi staðreynd um heiminn sem við lifum í: hann er nú þegar allt annar en hann var fyrir kynslóð síðan, hvað þá tveimur.