Ég merki ræturnar með gömlum plastböndum utan af Morgunblöðum sem mamma bar út þegar hún var unglingur og amma klippti, flokkaði og geymdi í risinu ef einhvern tímann skyldi vera þörf.
Risið er fimm metrar undir súð og geymir alla Íslandssöguna; þrautirnar, vikuáskriftirnar, óveðrið, einveruna, hattana á trúðaísana og ungbarnafötin.
Það óx með lífinu, ummálið mældist í andvörpum og loforðum, lofthæðin með hæðarmælingum barnanna og barnabarnanna. Þegar amma dó tók ég að mér að tína risið í sundur. Fimm metrar af þjóðarsál sem ég fór með á Sorpu kassa eftir kassa og þakkaði fyrir að þurfa ekki að burðast með sjálf.
Í rykugum konfektkassa fann ég gulleitan plastpoka. Í honum voru hárlokkarnir frá ömmu, langömmu, langalangaömmu, ömmusystur, mömmu og mér.
Það var þá sem ég byrjaði að gróðursetja ræturnar við húsgaflinn. Ég vil að þær grafi sig ofan í moldina, undir húsið með risinu og inn í hraunið. Vil að þær taki við stórsálinni sem hún var, beri hana aftur að glóðvolgu miðjunni um leið og þær teygja sig á móti sólu með skærrauðum blómum.
Það er ekki hægt að skila þjóðarsál á Sorpu. Hún ferðast með blóði og mold og setningum sögðum seint að kvöldi.