Mynd: Af Facebooksíðu Sæmundar, forlags Hermanns.

Opinberun: Nýtt lag eftir Hermann Stefánsson

Það er febrúar. Eintómt myrkur og varla sólarglenna í augsýn, þótt ljósið komi langt og mjótt. Rithöfundarnir eru að jafna sig af jólaplögginu sínu, fjandann sem þeir voru að belgja sig, hugsa þeir, og farnir að sýsla við hitt og þetta, taka eiturlyf, rægja kollegana, leggja drög að nýjum og betri skáldverkum. Kiljan er í fríi og enginn tekur eftir neinum eða sér hvaða skammarstrik eru á kreiki og hver gerir hvað og hvert framhjáhaldið er með öðrum listgreinum sem alls ekki má rugla saman við höfundarverkið. Hermann Stefánsson rithöfundur var ekki með í jólabókaflóðinu en hefur verið að vinna að sólóplötu sem hann ætlar að gefa út á Spotify. Hann sendir frá sér forsmekk að þeirri plötu hér á Starafugli. Í hljómsveitinni sem spilar undir í lögum Hermanns er valinn maður í hverju rúmi. Sá maður er Hermann Stefánsson. Hvað sem því líður er Opinberun stuðlag. Gerið svo vel.

Texti

>
Opinberun

Bentu ekki í austur, bentu ekki í vestur,
bentu ekki þangað sem ljósið vex og dvín.
Horfðu ekki á hásætið,
horfðu þangað sem sólin skín.

Veran er skær og alsett augum,
engum manni er dulin sýn,
inn á við sér og út til hliða
— ekki þangað sem sólin skín.

Tíu þúsund tjón og dómar,
tuttugu þúsund lokuð skrín.
Hel og dauði á hestum bleikum
— en horfðu þangað sem sólin skín.

Gefið er vald til að granda jörðu,
gellur í lúðrum, básúna hvín.
Guð er í fríi, gæfan fallít
— en gáðu þangað sem sólin skín.