Hinir tilnefndu höfundar.

Metfjöldi kvenna tilnefndur til arabískra bókmenntaverðlauna

Fjögur af sex tilnefndum til Alþjóðlegra bókmenntaverðlauna arabaheimsins (International Prize for Arabic Fiction / الجائزة العالمية للرواية العربية) í ár eru konur. Sjö konur voru eftir á langa listanum og fjórar þeirra voru enn eftir nú þegar stutti listinn var birtur fyrir helgi. Þetta voru þær Hoda Barakat frá Líbanon, Inam Kachachi frá Írak, Shahla Ujayli frá Sýrlandi og Kafa Al-Zoubi frá Jórdaníu. Þær þrjár fyrstnefndu hafa áður verið tilnefndar. Kona hefur einu sinni unnið verðlaunin, árið 2011 þegar sádi-arabíski höfundurinn Raja Alim vann þau fyrir skáldsöguna Hálsmen dúfunnar, en þá deildi hún þeim með marokkóska rithöfundinum Mohammed Achari sem skrifaði Boginn og fiðrildið. Vinni ein þessara fjögurra kvenna, frekar en t.d. Mohammed Al-Maazuz frá Marokkó eða Adel Esmat frá Egyptalandi, sem einnig eru tilnefndir, verður það því í fyrsta sinn sem kona vinnur ein.

Skáldsögurnar sem tilnefndar eru heita Næturpóstur (Hoda Barakat), Boðorðin (Adel Esmat), Sá útskúfaði (Inam Kachachi), Fyrir hvaða synd lést hún? (Mohammed Al-Maazuz), Sumar með óvininum (Shahla Ujayli) og Köld hvít sól (Kafa Al-Zoubi). Tilkynnt verður um verðlaunahafann við hátíðlega athöfn í Abu Dhabi þann 23. apríl næstkomandi, á degi bókarinnar.