„Mér finnst hún bara svo vond“: Um Fimm með Emmsjé Gauta

Kæri Eiríkur

Eftir að hafa hlustað núna tvisvar á alla plötuna Fimm með Emmsé Gauta, og í hálft þriðja skiptið. Þá gefst ég upp, ég megna bara ekki meira. Mér finnst hún bara svo vond. Ef ég hefði fengið sent eintak af plötunni þá hefði ég nú þrælað mér í gegnum þetta samvisku minnar vegna. En þar sem svo er nú ekki þá ætla ég bara að sleppa þessu.

Það er nefnilega þannig að ég nota yfirleitt meiri tíma til að hlusta verk sem mér finnst gölluð en þau sem mér þykir góð. Ástæðan fyrir því er jú sú að þar sem listamennirnir fóru í það að leggja á sig þá miklu vinnu að setja saman plötur að þá eiga þeir það inni að þeir sem um verk þeirra fjalla vandi til verka. Það er einfaldlega erfiðara að fjalla um galla en það góða. Maður vonast jú til þess að þetta komi að einhverju gagni. Ég held að yfir höfuð takist mér það þokkalega vel, þó ekki alltaf. En mér þykir Fimm bara svo leiðinleg plata að ég get ekki hugsað mér að hlusta á hana svo mikið sem einu sinni enn. Ég meina ég gat ekki einu sinni klára þriðju hlustun og allt er þegar þrennt er. Ekki satt?

Núna gætirðu sjálfsagt skotið á mig hvað ég fór illa með Nýríka Nonna og kallaði lagið þeirra drasl án nokkurs rökstuðnings. En þeir áttu það bara skilið. Ég var orðinn þreyttur á þeim að menga hinar ýmsu tónlistargrúbbur sem ég tilheyri á Facebook. En þar margdeildu þeir félagar sömu lögunum aftur og aftur og svo einu sinni enn. Lögin þeirra skána ekkert þótt þeir deili þeim oftar á samfélagsmiðlum. Það er nefnilega óskráð regla að þegar maður deilir verkum sínum í einhverjum grúbbum þá má bara gera það einu sinni. Þá gildir einu hvort afurðin sé góð eða slæm. Einu sinni! Það má svo deila eins oft á manns eigin vegg og þá gerir maður bara sína eigin vini þreytta á sér. Best að angra fólk út í bæ sem minnst.

En fyrst ég er að blanda Nýríka Nonna inn í þetta þá verð ég að taka fram að nýjasta lagið þeirra er miklu betra en það sem áður hefur komið frá þeim og þeir hafa aldrei deilt því neinni grúbbu sem ég tilheyri. Það er af sem áður var. Kannski þýðir þetta bara það að því minna sem maður deilir í grúbbum því betri er varan. Sjálfsagt ætti ég að bæta þessum strákum drasldóminn upp og rýna í nýja lagið í næstu smáskífurýni.

Ég verð auðvitað að taka fram að þó mér finnist plata Emmsé Gauta leiðinleg þá getur það ekki talist neinn áfellisdómur um gæði hennar. Það vita allir að maður deilir ekki um smekk. Ég get bara ekki hugsað mér að halda áfram að hlusta á hana til að komast að því hvort að hún sé vel gerð eður ei.

Bestu kveðjur

Ingimar

Sæll.

Ég sýti það svo sem ekki, þótt mér finnist alltílagi að maður stundi smekk í rýni líka – það er frekar nýtilkomið að maður eigi aldrei að skrifa um það sem maður hefur ekki smekk fyrir (það bæði „mótar“ smekk og varpar ljósi á hvað smekkur er).

Bestu,

Eiríkur

Sæll.

Það er sjálfsagt rétt hjá þér að það sé í fínu lagi að maður hafi smekkinn með í rýni. En sjálfsagt er betra að maður megni að komast í gegnum það að hlusta nóg til þess að vita af hverju manni mislíkar eitthvað. Það er, ef maður ætlar að fara skrifa um það. Annars hefur maður ekkert annað að skrifa en að verkið sé hundleiðinlegt. Eins, þá fannst mér þetta svo fráhrindandi að ég meðtók ekki það sem maðurinn er að segja. Þannig að þetta gætu þess vegna verið hinar fínustu rímur en ég veit það ekki og mig langar ekki til þess að vita það.
Ef þú vilt þá geturðu líka bara birt bréfið eins og það kemur fyrir og kallað það smekkrýni. Ég hálfpartinn skrifaði þetta með það í huga að þetta gæti mögulega endað á vefnum.
Ingimar

Sæll – já, mér fannst það dálítið þesslegt. Ég ætla að íhuga málið.

Bestu,

Eiríkur