Hata dreifbýlisaumingja*: Tölfræði Listamannalauna

Listamannalaunum var úthlutað í janúar og nú hefur RANNÍS birt einfalda tölfræði að baki úthlutuninni. Þar er farið yfir úthlutanir með tilliti til kyns og búsetu. Að vísu er kyn bara flokkað í tvennt og búseta í þrennt. Umsækjendur eru karlar eða konur og þeir eiga heima í „Reykjavík og nágrenni“, „landsbyggðinni“ og „erlendis“. Þrátt fyrir víðar skilgreiningar í þröngum boxum kemur engu að síður ýmislegt forvitnilegt fram í þessum tölum. 

Kynjagleraugun

Í fyrsta lagi eiga sumar listgreinar meira upp á pallborðið hjá öðru kyninu en hinu. Konur eru þannig 27% umsækjenda um tónskáldalaun en 62% umsækjenda um myndlistarlaun; karlar eru 27% umsækjenda um hönnuðalaun en 54% umsækjenda um rithöfundalaun. Sókn karla eftir starfi í listaverksmiðjunni er þá almennt minni en sókn kvenna – 43% umsækjenda tikkuðu í kk-box umsóknarinnar en 57% í kvk-boxið. 

Úthlutunarnefndir eiga að taka tillit til kyns og búsetu en svo virðist sem það sé ekki alltaf gert. Konur fá t.d. 67% af sjóði myndlistarmanna þrátt fyrir að vera bara 62% umsækjenda og karlar fá 55% rithöfundalauna þótt þeir séu bara 54% umsækjenda. Tilhneigingin ætti að vera í hina áttina, ef meiningin er að leiðrétta eitthvað af hallanum í umsóknunum. Heilt yfir fá karlar þó 46% af úthlutuðum mánaðarlaunum á meðan konur fá 54% úthlutaðra mánaða. Árangurshlutfall karla er því hærra í flestum sjóðum og jákvæða mismunin upp á fáein prósentustig þeim í hag – þótt það sé misjafnt milli sjóða.  

Langflestir umsækjenda, eða 82%, eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er ljóst nákvæmlega hvernig svæðin eru skilgreind en almennt er talað um að sirka 2/3, eða 66%, þjóðarinnar búi á því svæði. 10% umsækjenda búa á landsbyggðinni en 8% búa erlendis. Íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis eru um 13% þjóðarinnar. Svo virðist því sem listamenn þjóðarinnar safnist saman í Reykjavík og nágrenni, fremur en á landsbyggðinni eða erlendis. 

Byggðagleraugun

Umtalsverður munur er líka á gengi umsækjenda eftir búsetu. Þannig fá 77% rithöfunda sem búsettir eru erlendis úthlutað starfslaunum á meðan hönnuðir á landsbyggðinni og tónskáld erlendis fá ekki túskilding með gati. Ef horft er framhjá undarlegum toppum í undirflokkum þar sem fáir eru um hituna og litið til heildarúthlutunar eftir búsetu skiptist hún hins vegar nokkurn veginn í samræmi við fjölda umsókna. 10% umsækjenda búa á landsbyggðinni og fengu 11% úthlutana, 82% umsækjenda eru í Reykjavík og fá 82% úthlutana og 8% umsækjenda eru erlendis og fá 7% úthlutana. 

Það má síðan spyrja sig hvort skiptingin eigi að vera í samræmi við fjölda umsókna, fjölda íbúa á hverju svæði fyrir sig eða einhverri hugmynd um menningarpólitík, skilgreinda menningarkjarna í ólíkum fjórðungum, eða álíka. Þótt nefndunum sé gert að „taka tillit“ til kyns og búsetu er mér vitanlega engin frekari útfærsla á því hvernig sú tillitstekt á að fara fram, né heldur hefur farið nein samræða fram um hvernig þjóðin vill haga þessu. 

Árangurshlutfall – hlutfall þeirra sem fá úthlutað af þeim sem sækja um – er 25% á landsbyggðinni, 23% í Reykjavík og nágrenni og 19% erlendis. Þetta hlutfall er síðan afar mismunandi eftir sjóðum og ef stærsti sjóðurinn, sviðslistasjóður, er skoðaður sérstaklega kemur í ljós að þar er árangurshlutfall landsbyggðarinnar mjög hátt, eða 39% miðað við 15% í Reykjavík og nágrenni og 7% erlendis. Munar þar miklu um tvo einstaka styrki, annars vegar til leikhópsins Arktik á Akureyri og hins vegar til The Freezer á Rifi. Hugsanlega má einnig taka tillit til þess að tvö stærstu atvinnuleikhús landsins, Borgarleikhúsið og Þjóðleikhúsið, eru í borginni og njóta bæði talsverðra styrkja frá hinu opinbera, líkt og raunar Leikfélag Akureyrar. 

Ef sviðslistasjóður er síðan dreginn út fyrir sviga og aðrir sjóðir skoðaðir einir skekkist heildarskiptingin allmikið og útlitið fyrir landsbyggðarfólk ekki nærri jafn gott. Árangurshlutfallið er þá ekki nema 20%, miðað við 30% í Reykjavík og nágrenni og 36% erlendis. Landsbyggðarlistamenn sem njóta velvildar starfslaunasjóða eru alls 39 talsins – en þar af eru 21 á launum úr sviðslistasjóði og eftir sitja 18 manns á listamannalaunum í fimm listgreinum í öllum bæjarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins – gervöllum Vestfjörðum, Norðurlandi, Suðurlandi, Vesturlandi og Austfjörðum. Miðað við 212 í Reykjavík og nágrenni.

Niðurstaða

Þetta þýðir, í sem stystu máli, að annað hvort eru umsóknir sem berast af landsbyggðinni almennt ekki nógu góðar eða að ekki er mikið tekið tillit til búsetu og kyns þegar valið er. Að umsóknir af landsbyggðinni séu hlutfallslega færri en umsóknir í höfuðborginni, miðað við íbúafjölda, þýðir líka að annað hvort eru aðstæður til listsköpunar á landsbyggðinni ekki nógu góðar, listamenn á landsbyggðinni telja af einhverjum orsökum ekki að þeir eigi neitt erindi við sjóðinn eða að þeir hrekjast allir suður áður en þeir sækja um. Sé lögheimili á höfuðborgarsvæðinu forsenda fyrir löngun til listsköpunar fellur líka kenningin um að það sé fyrst og fremst hin óhamda náttúra sem blæs Íslendingum listrænu hamsleysi í brjóst. Kannski er það þá bara svifrykið, eftir allt saman. Eða Listaháskólinn.

Sömuleiðis skrifa þá konur annað hvort betri myndlistarumsóknir og karlar betri ritlaunaumsóknir eða að meira tillit er tekið til fyrirfram gefinna hugmynda um hver kunni hvað. Annað hvort eru fordómar okkar um kyn og búsetu einfaldlega réttir – eða þeir eru rangir.

Tölur

1

   [ + ]

1.  Fyrirsögnin tengist ekki fréttinni beint; hún er meira hugsuð sem eins konar skraut, eða beita.