Hugleiðing um alþýðuhefð

Country Roads

„Fjórða kynslóð vörubílstjóra er fædd!“ Þetta var tilkynnt innan fjölskyldunnar þegar ég ól frumburðinn. Þrátt fyrir að ég væri ekki sjálf bílstjóri en þó elsta barn elsta sonar þá lá beint við að framtíðaratvinna sonar míns væri ákvörðuð þarna á fæðingardeildinni á Akureyri. Við erum nefnilega fjölskylda á ferðinni, starfsgreinahefð okkar, tal og umhverfi, markast af vörubílum, flutningabílum og þjóðvegarómantík. En við tölum ekki um hvaða vörubílategund sem er. Þýska tegundin MAN er okkar gerð. Við yfirfærum evrópska þjóðfræðirómatík MANSINS yfir á performance amerískra cowboy og trukkamynda og pössum á meðan upp á að hefðin að keyra MAN, sem hefur nú þegar gengið milli þriggja kynslóða, haldist ósvikin. Við tengjum nostalgíu ferðalaganna jafnvel við uppruna og fæðingu, líkt og kristnir gera í sínum helgisiðum og svo fastgreyptir eru vörubílarnir í líferni okkar að þar hafa jafnvel kviknað ný líf (takk fyrir óþarfa upplýsingar afi) og önnur endað.
Við lærum af því sem fyrir er, tökumst á við aðstæður líkt og skagfirskir forverar okkar gerðu og teljum okkur vera afsprengi umhverfisins, landslags og veðurs, sem styður við hefðir okkar og minningar, allt frá því að forfeður okkar riðu um héruð og þangað til við fórum að keyra um þau.
Life is old there, older than the trees

Younger than the mountains, blowing like a breeze

Þjóðfræðingar fyrri tíma litu á jaðarsvæðin sem einkennandi fyrir þjóðina alla. Hjá okkur bílstjórafjölskyldunni eru það heiðarnar, öræfin og víðáttan. Ferðalagið er heimalandið og áfangastaðurinn aðeins til í draumi. En jafnvel þó við ferðumst öll þá eru það bara karlarnir sem keyra. Eins og ég sagði hér að ofan þá var mér ekki ætlað að verða vörubílstjóri en syni mínum, og þar með elsta syni, elsta barns, hins elsta sonar fyrsta vörubílstjórans. Hefðin er því karllæg og vísar til forfeðranna. Konur fá að vera með sem farþegar, nestissmyrjarar og gestgjafar, því einhver verður að sjá um að hetjur þjóðveganna hafi kodda undir höfuðið og mat í magann þegar verkefnin kalla. „Ég þarf að ná í þessa Scraníu áður en bófarnir hérna í Reykjavík stela öllu úr henni“ sagði bróðir minn þegar hann mætti til Reykjavíkur með blik í augum og skrúflykil í rassvasanum. Við tölum sama tungumál, þekkjum sömu táknin og vitum um hvað málið snýst.

I hear her voice, in the morning hour she calls me
The radio reminds me of my home far away

Þessi tákn verða ekki bara til í orðræðunni innan okkar hóps, þau smitast líka upp á veggi heimilanna og koma sem litlir vinir í lögum útvarpsins. Táknin eru til dæmis í formi mynda af löngu gengnum MAN ferðafélögum og við það að sjá myndir af þeim munum við eftir fjölskyldusögum, hreyfingu, lykt og hljóðum. Í hrifningu augnabliksins hugsum við um fallega bíla, heimsótta staði, hættuleg ferðalög og í það heila hver við erum og hvað við getum. Við að horfa á myndina af gamla MANINUM hans afa getum við til dæmis fundið olíu- og útblásturslyktina og munað vöðvaátakið sem þurfti til að stýra áburðarbrettum á réttan stað á pallinum. Við munum líka hvernig var best að stökkva niður af pallinum þegar afi hafði gleymt sér í kjaftagang við kranann og var við það að slengja brettinu á okkur. Hversdagslegri hlutir minna einnig á sig þegar horft er á myndina. Líkt og hvernig þyngdin seig í lófana þegar skjólborðin voru sett á pallinn, hvernig ég þurfti að standa á tám til að koma þeim alla leiðinna upp í rétta stöðu, olíulyktin af höndunum og sá furðulegi atburður í kringum unglingsárin þegar afi fór allt í einu að rétta mér hanska áður en við settum skjólborðin á. Það er undarlegt hversu mikil áhrif dauðir hlutir geta haft á okkur, bæði þegar við snertum á þeim og svo löngu síðar þegar þeir hafa verið festir á mynd. Öll skynfæri virkjast þegar eitthvert okkar setur inn nýja MAN mynd á Facebook eða við að heyra kántrílag í útvarpinu og röddin í John Denver verður næstum yfirgnæfð af ímynduðu hvissinu sem heyrist þegar lofttankar vörubíla tæma sig. Við setjum myndir á Facebook og sendum þær í gegnum síma til að styrkja tengsl okkar alþýðuhóps, við erum jafnvel með okkar eigin lokaða hóp á Facebook eins og rafræna útgáfu af fjölskyldunni sem er líffræðilega staðsett í þremur landshlutum. Svona þegar hún er ekki á ferðinni.

And drivin´ down the road I get the feeling
that I should have been home yesterday

Þessi MAN dýrkun fjölskyldu minnar laumar sér ekki bara inn í fagurfræði hversdagslífs okkar í formi mynda á veggjum heldur einnig húðflúra. Þannig er bróðir minn með stórt MAN merki húðflúrað á bakið, nokkuð sem flokkast sennilega ekki sem list nema meðal afmarkaðra hópa líkt og okkar og kannski meðal póstmódernískra þjóðfræðinga. Öðrum gæti þótt þetta tákn, sem vekur upp tilfinningar og samkennd hjá okkur sem þekkjum það, vera til merkis um ósófístikeraða menningu alþýðuhópsins okkar. MAN merkið getur þó aldrei verið hallærislegt eða tákn um ómenningu í okkar huga því í alþýðlegri samvitundinni um bílstjórahefð sem gengur í erfðir, sköpum við í sífellu orðræðu um mikilfengleika ferðalaga, bíla og lífsstílsins sem við höfum valið okkur.
En þetta er auðvitað bara í höndum karlmannanna í fjölskyldunni og tengdasynir eru aðeins samþykktir ef þeir kunna að bakka með aftanívagn. Vissulega væri hægt að segja margt um karlmennsku í samhengi við stærð vörubíla, að dæmi þjóðfræðingsins Alan Dundes sem skrifaði um fótbolta, en þetta er ekki vettvangur til þess. Þó þykja þeir vera miklir menn sem yfirgefa fjölskyldur sínar á hvaða tíma sem er og jafnvel á nýársmorgun, til að keyra með rafmagnsstaura þvert yfir landið til bjargar rafmagnslausum landshlutum. „We´re gonnah do what they say can´t be done“ eins og segir í snilldar bíómyndinni Smokey and the Bandit. Þessi þjóðvegarómantík er því ekki ætluð fólki sem keyrir eins og kellingar eða eru kellingar eins og ég. „Þjóðfræðingar og bókaþönglar ná tæplega að skapa svona vörubílahefð upp á nýtt,“ hugsaði ég um leið og ég skellti myndavél, upptökutæki og eyðublöðum í farþegasætið á gamla japanska bílnum mínum og keyrði af stað yfir Ísland. Framundan voru nokkur þúsund kílómetra keyrsla og nokkrir tugir viðmælenda fyrir næsta þjóðfræðiverkefni.

Country roads, take me home
to the place I belong

Þjóðfræðingar hafa haldið því fram að hefðir varni framförum og það að vera módern sé samasem merki með að hafna hefðum. Nú má segja að karl faðir minn hafi valið að verða módern því nýjasti bíllinn hans er ekki MAN heldur Volvo. Slíkt og annað eins athæfi hefur sett fjölskylduna í uppnám og er tæplega hægt að tala um annað en siðrof í þessu samhengi. Með hugtakinu siðrof sem Émile Durkheim kom fram með er átt við dauða hefðarinnar. Þegar hefðin deyr eða hverfur glatast sameiginlegur skilningur fólks, til dæmis á ákveðnum táknum og þar með ruglast og ringlast hin sameiginlega sjálfsmynd hópsins. Hefðir munu þó aldrei deyja heldur aðeins finna sér nýja farvegi og samskiptamáta með póstmódernisma í seglunum. Þrátt fyrir það allt saman og viljann til að vera módern og kúl, þá mun ég aldrei setja rassinn á mér sjálfviljug inn í Volvo vörubíl.